Xi Jinping, leiðtogi Kína, og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ræddu tvíhliða samstarf og málefni Taívans í símtali í dag, að því er ríkisfréttastofa Kína, Xinhua, greinir frá.
Xi sagði við Trump að löndin tvö ættu að „viðhalda skriðþunga í samskiptum sínum“, að sögn Xinhua, eftir fund í Suður-Kóreu í síðasta mánuði þar sem leiðtogarnir tveir reyndu að draga úr hörðu viðskiptastríði.
Xinhua sagði að Xi hefði einnig „áréttað að sameining Taívans við Kína á ný væri mikilvægur hluti af alþjóðaskipan eftirstríðsáranna“.
Kína gerir tilkall til lýðræðisríkisins Taívans og segir eyjuna hluta af yfirráðasvæði sínu. Kínversk stjórnvöld hafa hótað að beita valdi til að ná þar yfirráðum.
Trump og Xi hittust í október í fyrsta sinn síðan 2019 og áttu í viðræðum sem fylgst var náið með, þar sem tvö stærstu hagkerfi heims hafa verið í viðskiptastríði.
Deilur stjórnvalda í Washington og Peking, sem ná yfir allt frá sjaldgæfum jarðmálmum til sojabauna og hafnargjalda, hafa skekið markaði og truflað aðfangakeðjur mánuðum saman.
Xi sagði við Trump í dag að „árangursríkur“ fundur í Suður-Kóreu „hefði hjálpað til við að stilla stefnuna og gefa skriðþunga í stöðuga framrás risaskips samskipta Kína og Bandaríkjanna“, eins og Xinhua orðar það.
Frá fundinum hafa samskipti Kína og Bandaríkjanna „verið stöðug og haldið áfram að batna, sem hefur verið fagnað víða af báðum löndum og alþjóðasamfélaginu“, bætti Xi við.
Innrás Rússlands í Úkraínu hefur talin vera lærdómsrík fyrir kínversk stjórnvöld sem íhuga að sama skapi innrás í Taívan. Rússum hefur gengið verr en talið var fyrirfram að knýja Úkraínu til uppgjafar, en á móti hafa viðskiptaþvinganir ekki náð að beygja Rússland frá áframhaldandi stríði sem nú nálgast fjögur ár. Þá liggur nú fyrir að bandarísk stjórnvöld eru því sem næst hætt að styðja Úkraínu í stríðinu gegn Rússlandi og hefur Trump gefið úkraínskum stjórnvöldum frest fram á fimmtudag til að verða við friðartillögum Bandaríkjanna, sem hafa verið kallaðar „óskalisti Pútíns“ vegna þess hversu hliðhollar þær eru Rússum.















































Athugasemdir