Í kjölfar stýrivaxtalækkunar Seðlabanka Íslands hefur Íslandsbanki tilkynnt um vaxtalækkun. Með henni fara óverðtryggðir húsnæðislánavextir, sem eru fastir til 5 ára, niður um 0,2% í 7,95%. Vextirnir hafa ekki verið lægri frá 1. júlí 2022, en þá höfðu þeir hækkað verulega eftir að hafa farið niður í 4,05% sumarið 2020.
Íslandsbanki býður þar með lægstu óverðtryggðu vexti allra lánveitenda á húsnæðislánamarkaði. Landsbankinn hefur ekki kynnt um vaxtabreytingar, en var sömuleiðis með 8,15% vexti fasta til fimm ára.
Verðtryggðir, fastir vextir eru lækkaðir um 0,2% og fara niður í 4,55%, en fyrir stýrivaxtabreytingar vegna Covid-faraldursins voru þeir 3,6%. Því eru þeir enn háir sögulega séð.
Eins og kom fram í peningamálum Seðlabanka Íslands í morgun eru fleiri lántakendur farnir að taka óverðtryggð húsnæðislán, heldur en þau sem greidd eru upp. Þó er enn yfirgnæfandi fjöldi lána á verðtryggðum vöxtum.


















































Athugasemdir