uðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands, kallar eftir því að endurskoðuð stjórnarskrá verði tilbúin árið 2030 í tilefni af því að ellefu aldir verði liðnar frá stofnun Alþingis.
Kallar hann eftir því að hlutverk forseta verði skýrt, mannréttindakaflinn færður fremst og að íslensk tunga verði vernduð í stjórnarskránni.
Guðni hélt erindi í Háskólanum á Akureyri 5. nóvember síðastliðinn með yfirskriftina: „Af hverju er ekki lengur hægt að breyta stjórnarskrá lýðveldisins?“ Hann nefndi að erindið væri flutt með öðrum anda en hann hefði gert þegar hann enn var í embætti og sagði yfirskriftina kannski frekar eiga að vera hvers vegna svo erfitt sé orðið að breyta stjórnarskránni.
Í erindinu rifjaði Guðni það upp hvernig stjórnarskráin var staðfest við stofnun Alþingis á Þingvöllum árið 1944. Á þeim tíma hafi öllum stjórnmálamönnum verið ljóst að hana hafi einungis átt að nýta til bráðabirgða, þar á meðal Sveini Björnssyni, sjálfum forseta Íslands. Guðni sagði stjórnarskrána skrifaða með konungsríki í huga enda byggða á þeirri dönsku.
„Þetta gekk alveg og þetta gengur alveg,“ sagði Guðni. „En eigum við að hafa stjórnarskrá þar sem við segjum við sjálf okkur og aðra: „Þetta gengur alveg, auðvitað er þetta ekki alveg gott svona, en þetta er allt í lagi?“ Stjórnarskrá! Stjórnarskrá lýðveldisins! Ég er ekki viss um að það sé metnaður okkar.“
Sagði hann það ekki satt að stjórnarskránni hefði alltaf verið breytt í mikilli sátt og nefndi söguleg dæmi því til stuðnings. „Við getum ekki leyft það að hver og einn sem er á móti - finnst þetta ekki nóg eða of mikið, er ekki sáttur - þá gerist ekki neitt. Það þarf að stíga yfir þann þröskuld og þá mun eitthvað gerast.“
Óskýr kafli um forsetann
Guðni ræddi þjóðhöfðingjakafla stjórnarskrárinnar og málskotsréttinn. Sagði hann samband embættisins við þjóðina vera öðruvísi - hvorki verra né betra - en þegar lýðveldið var stofnað. „Að vera forseti 2024 er allt annað en að vera forseti 1944 ef litið er til sambands þjóðar við forseta.“
Vísaði hann til þess þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar dró til baka fjölmiðlalögin svokölluðu í stað þess að vísa þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2004 eftir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafði beitt málskotsréttinum í fyrsta sinn í Íslandssögunni.




















































Athugasemdir