Nicolas Maduro, forseti Venesúela, sagði í gæræ að landið ætti 5.000 rússneskar loftvarnaeldflaugar til að bregðast við hernaðaraðgerðum Bandaríkjanna á Karíbahafi.
Bandaríkjastjórn hefur sent laumuorrustuþotur og herskip á Karíbahafið sem hluta af því sem hún kallar aðgerðir gegn fíkniefnasmygli og hefur sprengt að minnsta kosti átta skip sem hún sagði hafa verið að smygla fíkniefnum frá Venesúela til Bandaríkjanna.
Venesúela hefur fordæmt hernaðaraðgerðirnar og sagt þær vera upptakt að því að steypa Maduro af stóli, en Bandaríkjastjórn sakar hann um að stýra fíkniefnahring.
Í sjónvarpsávarpi með æðstu herforingjum landsins sagði Maduro að Venesúela ætti rússneskar skammdrægar eldflaugar, þekktar sem Igla-S, „ekki færri en 5.000 í lykilstöðum loftvarna til að tryggja frið.“
Igla-S, sem er hönnuð til að granda lágt fljúgandi flugvélum, hefur verið notuð í heræfingum sem Maduro fyrirskipaði til að bregðast við hernaðaraðgerðum Bandaríkjanna, sem hafa reitt leiðtoga víða í Suður-Ameríku til reiði.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið, sem kallar sig nú stríðsmálaráðuneyti, hefur tilkynnt þinginu að Bandaríkin séu í „vopnuðum átökum“ við fíkniefnahringi í Suður-Ameríku, skilgreint þá sem hryðjuverkahópa og lýst grunuðum smyglurum sem „ólöglegum stríðsmönnum.“
Sérfræðingar segja að aftökur án dóms og laga séu ólöglegar, jafnvel þótt þær beinist að staðfestum fíkniefnasölum. Þannig var Rodrigo Duterte, fyrrverandi forseti Fillipseyja, dæmdur af Alþjóðaglæpamáladómstólnum í Haag fyrir að fyrirskipa aftökur á grunuðum fíkniefnasölum.
Spenna hefur magnast á svæðinu og Kólumbía hefur kallað sendiherra sinn heim frá Washington vegna harðra deilna milli vinstri sinnaðs forseta landsins, Gustavo Petro, og Donalds Trump forseta.
Trump sagði í gær að hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna hefðu dregið verulega úr smygli á sjó og að þeir væru reiðubúnir að ráðast á fíkniefnasmyglara sem starfa á landi. Í gær sprengdu Bandaríkin í fyrsta sinn upp bát á Kyrrahafinu í þessari herferð gegn meintum fíkniefnasmyglurum, skammt frá strönd Kólumbíu.
Athugasemdir