Gríðarlegur mannfjöldi fór út á götur í dag í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna til að láta í ljós reiði sína yfir harðlínustefnu Donalds Trumps forseta. Mótmælin eru undir yfirskriftinni „Enga konunga“, en þeim hefur verið lýst sem „Hötum Bandaríkin“-fundi af samflokksmönnum forsetans, meðal annars leiðtoga þingmeirihlutans í fulltrúadeildinni, Mike Johnson.
Allt frá New York og Washington til smærri borga í Michigan og að öðru heimili Trumps í Flórída, hófust mótmæli í austurhluta Bandaríkjanna á undan svipuðum viðburðum sem áætlaðir voru vestanhafs.
Meira en 2.700 mótmæli eru fyrirhuguð frá austurströndinni til vesturstrandarinnar og segja skipuleggjendur að þeir búist við milljónum þátttakenda.
„Svona lítur lýðræði út!“ hrópuðu þúsundir í mótmælum í Washington nálægt National Mall, þar sem helstu kennileiti borgarinnar eru.
„Hey hey hó hó, Donald Trump verður að fara!“ kölluðu mótmælendur þar, margir þeirra með bandaríska fána.
Mótmælendur eru æfir yfir því sem þeir líta á sem einræðistilburðir síðan milljarðamæringurinn úr röðum repúblikana sneri aftur í Hvíta húsið í janúar, þar á meðal árásum á fjölmiðla, saksóknum á hendur pólitískum andstæðingum og víðtækum aðgerðum gegn innflytjendum.
Lokun bandarískra stofnana stendur nú yfir þriðju vikuna, vegna ósamkomulags um fjárlög, en á meðan hefur ríkisstjórn Trumps hefur rekið þúsundir alríkisstarfsmanna og þingmenn sýna lítil merki um að þeir séu tilbúnir að leysa úr pattstöðunni.
Þúsundir flykktust á Times Square í New York, Boston Common og Grant Park í Chicago.
„Ég hélt aldrei að ég myndi lifa það að sjá dauða lýðræðisins í landinu mínu,“ sagði Colleen Hoffman, 69 ára eftirlaunaþegi, við AFP þar sem hún gekk niður Broadway.
„Við erum í krísu – grimmd þessarar stjórnar, alræðistilburðirnir. Mér finnst ég bara ekki geta setið heima og gert ekki neitt.“
Í Queens-hverfinu í New York báru mótmælendur litrík skilti með áletrunum eins og „Queens segir enga konunga“ og „Við mótmælum vegna þess að við elskum Bandaríkin og viljum þau aftur!“ á meðan sumir hrópuðu: „Við elskum landið okkar, við þolum ekki Trump!“
Í Los Angeles ætla skipuleggjendur að láta risastóra blöðru af Trump í bleyju svífa. Þeir sögðust búast við 100.000 manns á svæðið.
Hingað til hafa viðbrögð Trumps við atburðum dagsins verið lítil.
„Þeir segjast kalla mig konung. Ég er ekki konungur,“ sagði hann í þættinum „Sunday Morning Futures“ á Fox News. Hann hefur þó birt gervigreindarmynd af sér sem konungi.
Helstu stuðningsmenn hans voru í meiri baráttuhug, þar sem forseti fulltrúadeildarinnar, Mike Johnson, kallaði mótmælin „Hötum Bandaríkin-fundinn“.
„Þið ætlið að leiða saman marxista, sósíalista, Antifa-fylgjendur, anarkista og Hamas-væng hins róttæka vinstri arms Demókrataflokksins,“ sagði hann við fréttamenn.
Þingmaður repúblikana, Tom Emmer, notaði einnig orðasambandið „Hötum Ameríku“ og vísaði til þátttakenda sem „hryðjuverkavængs“ Demókrataflokksins.
„Land jafningja“
Hreyfingin að baki „Engra konunga“ er jafnvel að skipuleggja viðburði í Kanada og lítil mótmæli fóru fram í dag í Malaga á Spáni og Malmö í Svíþjóð.
Á fimmtudag sagði Deirdre Schifeling, yfirmaður stjórnmála- og hagsmunamála hjá bandarísku borgararéttindasamtökunum (ACLU), að mótmælendur vildu koma þeim skilaboðum á framfæri að „við erum land jafningja.“
„Við erum land laga sem gilda fyrir alla, réttlátrar málsmeðferðar og lýðræðis. Við látum ekki þagga niður í okkur,“ sagði hún við fréttamenn.
Leah Greenberg, annar stofnandi Indivisible Project, gagnrýndi tilraunir ríkisstjórnar Trumps til að senda þjóðvarðliðið inn í bandarískar borgir og herða aðgerðir gegn óskráðum innflytjendum.
Trump hefur fyrirskipað þjóðvarðliðum að fara til Los Angeles, Washington og Memphis. Tilraunir til að senda herlið til Chicago og Portland í Oregon hafa hingað til verið stöðvaðar fyrir dómstólum.
„Þetta er klassíska handbók alræðissinnans: hóta, ófrægja og ljúga, hræða fólk til undirgefni,“ sagði Greenberg.
Leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, Chuck Schumer, hvatti mótmælendur til að láta í sér heyra.
„Ég segi við samlanda mína á þessum degi engra konunga: Ekki láta Donald Trump og repúblikana hræða ykkur til þagnar. Það er það sem þeir vilja gera. Þeir eru hræddir við sannleikann,“ skrifaði hann á X á laugardag.
„Tjáið ykkur, notið rödd ykkar og nýtið ykkur málfrelsið.“
Ný rannsókn Pew Research Center sýnir hins vegar að leiðtogar demókrata eru verulega óvinsælir og eru fleiri kjósenda demókrata óánægðir með Schumer en ánægðir.
Athugasemdir