Saga Írans 3: Þegar konungur Írans var messías Gyðinga

Hér seg­ir frá upp­hafi stjórn­ar­tíð­ar Kýrus­ar mikla Per­sa­kon­ungs sem setti á stofn þriðja og mesta stór­veld­ið í Ír­an, og var ein­hver merk­asti, mild­asti og skyn­sam­asti stjórn­ar­herra forn­ald­ar.

Saga Írans 3: Þegar konungur Írans var messías Gyðinga
Kýrus sleppir Gyðingum úr herleiðingunni til Babýlon. Hirðmenn og herforingjar Kýrusar bera út úr musteri alls konar helga gripi sem Babýloníu-menn höfðu rænt frá Jerúsalem en Gyðingar fengu nú að taka aftur heim með sér. Mynd: Kýrus

Þar var komið sögu Írans (eins og lesa má um hér) að indóíranskt fólk var orðið ráðandi á mestöllu svæðinu og ein slík þjóð, Persar, hafði hrifsað frumkvæðið af frændum sínum Medum.

Um 550 FT (fyrir upphaf tímatals okkar) var Kýrus konungur Persa orðinn allsráðandi í víðáttumiklu ríki Meda. Hann sigraði þá afa sinn Astyages Medakóng í orrustu og tók við af honum.

Kýrusi fylgdu hins vegar svo róttækar breytingar að með honum varð í raun til nýtt ríki Persa.

Köllum ríki hans og afkomenda hans Persíu þótt nafngiftirnar Íran/Persía séu flókið mál og ég fjalla kannski um síðar.

Ríkasti kóngur fornaldar

Eins og ég rakti í síðustu grein hafði Astyages átt í stríði við Lydíumenn sem réðu vesturhluta Anatólíu (Tyrklands, sem nú heitir). Friður var saminn milli Astyagesar og Alyattesar Lydíukóngs eftir að almyrkvi á sólu truflaði úrslitaorrustu konunganna tveggja og skaut hermönnum þeirra skelk í bringu. En nú var Krösus, sonur Alyattesar, orðinn konungur í Lydíu og virðist hafa talið að hinn nýi Persakóngur yrði sér auðveld bráð.

Krösus var annálaður fyrir að vera ríkasti kóngur heimsins. Eru af því margar sögur. Ekki er vitað hvað hæft er í þeim en hitt er vitað að hann var að líkindum fyrsti kóngurinn sem lét slá gullpeninga svo það var ekki að furða þótt sögur gengju um hvílík ókjör af gulli Krösus ætti.

Véfréttin í Delfí

Krösus er líka frægur fyrir að gengið á fund aþenska stjórnspekingsins Sólons. Þegar hann tók að stæra sig af veldi sínu og auðæfum sýndi Sólon honum fram á hann væri þó hvergi nærri eins hamingjusamur og réttur og sléttur smábóndi í Aþenu sem stritaði í heiðarleika og nægjusemi við sitt litla bú.

Áður en Krösus stefndi her sínum gegn hinum nýja konungi Persa þótti honum öruggast að gera út sendiboða til véfréttarinnar í Delfí í Grikklandi og spyrja hvernig honum myndi farnast.

Véfréttin var fræg fyrir forspár sínar sem voru þó stundum nokkuð tvíræðar.

Krösusi fannst svar véfréttarinnar þó harla afgerandi, því hún sagði ef hann héldi með her sinn yfir lækjarsprænu á þáverandi landamærum Lydíu og hins nýja Persaveldis, þá yrði mikið veldi að velli lagt.

Hætti við að brenna Krösus kóng

Alls hugar feginn hraðaði Krösus sér yfir sprænuna en eftir að hafa mætt her Kýrusar í harðri orrustu rann náttúrlega upp fyrir kóngi að veldið sem að velli var lagt var hans eigið. Hann beið sem sé lægr hlut.

Ríki og herferðir Kýrusar í vestri.Það var þegar hann sneri herjum sínum í austur sem allt fór í hund og kött.

Og hið auðuga Lydíu-ríki var þar með úr sögunni.

Sögur eru til um að er Persar handsömuðu Krösus eftir orrustuna hafi staðið til að brenna hann en ekki mun hafa orðið af því. Þegar Krösus ákallaði hinn vitra Sólon, er verið var að færa hann á brennuna, þá varð Kýrus forvitinn, lét leysa Krösus og yfirheyrði hann svo í þaula um samskipti hans við Sólon.

Og Kýrus hafði svo Krösus sér til ráðuneytis upp frá því.

Leit grísku borgríkin hýru auga

Nú þegar Persar höfðu náð Lydíu var veldi Kýrusar komið langleiðina niður að Eyjahafi en þar á ströndinni voru grískar borgir og smáríki. Grikkir höfðu þá mjög verið að eflast að menningu, styrk og dáð eftir nokkrar myrkar miðaldir. Kýrus leit grísku ríkin hýru auga og á nokkrum árum lagði hann undir sig allar borgirnar á Anatólíuströndinni.

Um leið leit hann líka hýru augu borgríkin úti á eyjum hafsins og á gríska meginlandinu handan hafsins, en taldi þó ekki tímabært að reyna að leggja þau undir sig.

Það beið afkomenda hans í frægum innrásum sem síðar segir frá.

Fagnað í Babýlon

Það var um árið 540 sem Kýrus hafði lokið við að ná undir allri Anatólíu og næst hélt hann í suðurátt og hernam Babýloníu-ríkið í Mesópótamíu. Það var í 1.500 ár yfirleitt eitt helsta stórveldi Miðausturlanda en hafði nú verið að veslast upp í áratugi og þegar Kýrus hélt innreið sína í Babýlon árið 539 var honum fagnað sem frelsara.

Og kaldhæðnislegt má það vera að þeir sem mest fögnuðu Kýrusi voru Gyðingar.

Babýloníumenn höfðu lagt Júdeu undir sig 50 árum fyrr og herleitt helsta fólk þjóðarinnar til Babýlon en nú leyfði Kýrus þeim að snúa aftur.

Gyðingar dáðu Kýrus

Í ritum Gyðinga var æ síðan farið hinum fegurstu orðum um Kýrus og dugar að nefna upphaf 45. kapítula Jesajabókar þar sem Kýrusi er lýst sem sérstökum þjóni guðs Ísraelsmanna:

„Svo segir Drottinn við sinn smurða,

Kýrus, sem ég hef tekið í hægri höndina á

til að leggja undir hann þjóðir,

ræna konunga vopnum

til að opna hlið fyrir honum

svo að borgarhlið verði ekki lokuð.

Ég geng sjálfur á undan þér

og jafna fjöllin.

Ég mun brjóta eirhliðin

og mölva slagbranda úr járni,

gefa þér hulda fjársjóði

og falin auðæfi

svo að þú skiljir að ég er Drottinn

sem kalla þig með nafni,

ég, Guð Ísraels.“

כֹּה-אָמַר יְהוָה, לִמְשִׁיחוֹ לְכוֹרֶשׁ

Það mun einhverjum þykja forvitnilegt núna að það orð sem Biblíuþýðandinn hér þýðir sem „sinn smurða“ er sama orðið og varð „messías“. Orðið var í Biblíunni notað yfir smurða konunga Ísraels, þá sem voru smurðir vegna þess að þeir nutu náðar guðs, og Kýrus er eini maðurinn í Biblíunni sem ekki er Gyðingur sem nefndur er messías.

„כֹּה-אָמַר יְהוָה, לִמְשִׁיחוֹ לְכוֹרֶשׁ,“ segir  Jesaja, og hér er það orðið לִמְשִׁיחוֹ sem vísar til þess að Kýrus sé messías. Þetta er orðið מָשִׁיחַ (māšîaḥ, „messías“) með ákvæðisforliði ל- („til“) og eignarviðskeytinu -וֹ („síns“).

Gyðingar voru ekki þeir einu sem höfðu Kýrus í hávegum. Hann var á sinn hátt ekki síðri herkonungur en ýmsir yfirgangsseggir Assyríumanna en eftir að hann hafði lagt undir sig lönd tók sannarlega ekki við þar kúgun og harka af því tagi sem Asjúrbanipal, Tíglaþpíleser og fleiri Assyríukóngar eru frægir fyrir.

Tilskipun um trúfrelsi

Þvert á móti voru Persar á fyrsta og mesta hluta valdaskeiðs síns annálaðir fyrir mildi og góða stjórnarhætti.

Kýrus markaði á margan hátt tímamót í stjórnsýslu fornaldar, þar sem honum var bersýnilega umhugað um það í alvöru að reka ríkið vel og þannig að velferð þegnanna væri sem best.

Á þessum sívalningi er yfirlýsing Kýrusar um trúfrelsi þegnanna.

Hann virti siði, tungumál og trúarbrögð hinna sigruðu þjóða og gaf út sérstaka tilskipun um trúfrelsi, sem Gyðingar nutu ekki síst góðs af.

Stjórnsýsla hins nýja veldis Írana var afbragð, miðað við sem tíðkast hafði í fyrri stórveldum fornaldar. Ríkinu var skipt upp í allstór héröð og hafði hvert um sig mikla sjálfstjórn undir stjórn héraðshöfðingja eða satrapa, og Kýrus leitaðist við að velja hæfa menn í þau embætti en ekki einungis gæðinga sína.

Utanríkis-, hermál og peningamál voru svo í höndum höfðingjaráðs og konungsfjölskyldunnar írönsku.

Gull af eiri

Þá efldi Kýrus mjög vegakerfi og tryggði öryggi á verslunarleiðum er bæði efldi stöðugleika og hagvöxt. Peningamál, skattheimta og myntslátta þótti og með ágætum. 

Hófsemi, skynsemi og virðing Kýrusar fyrir fjölbreytileika olli því að þessi íranski fjallakarl varð, eins og það er orðað á einum stað, „fyrsti veraldlegi leiðtogi heimsins sem stjórnaði heilu heimsveldi með umburðarlyndi og réttlætiskennd að leiðarljósi“.

Við skulum ekki ganga of langt í að ausa Kýrus lofi. En miðað við svo marga af konungum og einvöldum fornaldar, já, eiginlega bara miðað við þá flestalla, þá ber hann af eins gull af eiri.

Kýrus mætir ofjarli sínum

En þegar Kýrus var búinn að skipuleggja ríki sitt, þá fannst honum kjörið að þenja nú ríki sitt meira út. Inni í Mið-Asíu bjuggu „villtir“ þjóðflokkar sem hann ákvað að leggja næst undir sig hið nýja Íran. Kannski var ástæðan sú að hann vildi koma í veg fyrir ránsferðir þeirra inn í írönsk lönd. Kannski var ástæðan einfaldlega sú að hann var nú þrátt fyrir allt herkonungur og herkonungar fara í stríð, það er bara það sem þeir gera, jafnvel þó þeir reyni svo að hreinsa sæmilega til eftir sig.

En lengst inni á sléttum Mið-Asíu mætti Kýrus hinn mikli loksins ofjarli sínum. 

Drottningunni Tómýris.

***

Hér segir frá henni.

Kjósa
24
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • HKG
    Hans Kristján Guðmundsson skrifaði
    Takk fyrir áhugaverða sögu. Hvaða tungumál var þarna notað í samskiptum milli þjóðflokka og þjóða?
    0
    • Illugi Jökulsson skrifaði
      Sæll. Persneska (forn-perneska frá okkar sjónarhóli) var notuð af hinu opinbera og við hátíðleg tækifæri en í flestöllum samskiptum við þjóðir í vesturhluta ríkisins notuðu Persar yfirleitt arameísku.
      0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Árásin á Bastilluna: Franska byltingin hófst með því að geðveikir kynferðisglæpamenn og falsarar voru frelsaðir
Flækjusagan

Árás­in á Bastill­una: Franska bylt­ing­in hófst með því að geð­veik­ir kyn­ferð­is­glæpa­menn og fals­ar­ar voru frels­að­ir

Í dag, 14. júlí, er Bastillu­dag­ur­inn svo­kall­aði í Frakklandi og er þá æv­in­lega mik­ið um dýrð­ir. Dag­ur­inn er yf­ir­leitt tal­inn marka upp­haf frönsku bylt­ing­ar­inn­ar ár­ið 1789 þeg­ar feyskinni ein­valds­stjórn Bour­bon-ætt­ar­inn­ar sem hrund­ið frá völd­um. Bylt­ing­in var gerð í nokkr­um áföng­um en vel má segja að eft­ir 14. júlí hafi ekki ver­ið aft­ur snú­ið. Basill­an var virki í Par­ís­ar­borg sem hýsti...
Saga Írans 5: Kameldýrakarl frá Baktríu, frumlegasti trúarhöfundur sögunnar
Flækjusagan

Saga Ír­ans 5: Kam­eldýra­karl frá Baktríu, frum­leg­asti trú­ar­höf­und­ur sög­unn­ar

Í síð­ustu grein (sjá hana hér) var þar kom­ið sögu að stofn­andi Persa­veld­is, Kýrus hinn mikli, var horf­inn úr heimi. Það gerð­ist ár­ið 530 FT en áhrifa hans átti eft­ir að gæta mjög lengi enn og má vel segja að Kýrus sé enn af­ar vold­ug­ur í hug­ar­heimi Ír­ana. En nú spóla ég að­eins aft­ur í tím­ann og dreg fram ann­an...

Mest lesið

Einn á skútunni í 312 daga: „Ég er minn eigin herra“
4
Viðtal

Einn á skút­unni í 312 daga: „Ég er minn eig­in herra“

„Ég er nú meira fífl­ið, hvað er ég eig­in­lega að gera hér?“ hugs­aði sir Robin Knox Johnst­on með sér þeg­ar hann var að sigla und­an strönd­um Ástr­al­íu og heyrði tón­list­ina óma frá landi. Sú hugs­un varði ekki lengi og hann hefði aldrei vilj­að sleppa þeirri reynslu að sigla einn um­hverf­is jörð­ina. Nú hvet­ur hann aðra til að láta drauma sína ræt­ast, áð­ur en það verð­ur of seint.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Hann var búinn að öskra á hjálp
2
Viðtal

Hann var bú­inn að öskra á hjálp

Hjalti Snær Árna­son hvarf laug­ar­dag­inn 22. mars. For­eldr­ar hans lásu fyrst um það í frétt­um að hans væri leit­að í sjón­um, fyr­ir það héldu þau að hann væri bara í göngu­túr. En hann hafði lið­ið sál­ar­kval­ir, það vissu þau. Móð­ir Hjalta, Gerð­ur Ósk Hjalta­dótt­ir, lýs­ir því hvernig ein­hverf­ur son­ur henn­ar gekk á veggi allt sitt líf, og hvernig hann veikt­ist svo mik­ið and­lega að þau voru byrj­uð að syrgja hann löngu áð­ur en hann var dá­inn.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár