Fjársýsla ríkisins gerði í apríl rammasamning við Rapyd um færsluhirðingu fyrir A-hluta stofnanir ríkisins. Hann gildir í tvö ár, eða þangað til í apríl 2027.
„Samningurinn nær til allra A-hluta stofnanna sem taka á móti kortagreiðslum og gildir um kortafærslur og posa. A-hlutastofnun sem tekur á móti kortagreiðslum er þó skylt að ganga inn í þennan samning,“ segir um samninginn á vefsíðu þar sem nálgast má miðlæga samninga ríkisins.
Voru áður með samning við Rapyd
Til A-hluta stofnana teljast á annað hundrað stofnana sem sinna kjarnaverkefnum ríkisins. Þeirra á meðal eru háskólar, framhaldsskólar, ríkisrekin söfn, sjúkrahús, heilsugæslur, sýslumannsembætti og dómstólar, auk fjölmargra annarra.
Hér má sjá lista yfir svokallaðar A-hluta stofnanir.
Ríkiskaup sáu um að gera þjónustusamning um færsluhirðingu fyrir A-hluta stofnanir þangað til þau voru lögð niður síðasta vor og verkefni þeirra færð yfir til Fjársýslunnar. Fyrri samningur var gerður við Valitor í febrúar árið 2021 og rann út í fyrra. Rapyd keypti Valitor í júlí 2021.
Hávær sniðgöngukrafa
Vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs og skæðra árása á Gaza-svæðinu hafa margir Íslendingar valið að sniðganga vörur og fyrirtæki sem tengjast Ísrael. Hugmyndin að baki sniðgöngunni er sú að með henni megi setja þrýsting á ísraelsk stjórnvöld að láta af stríðrekstri sínum í Palestínu.
Ísraelska greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd hefur gjarnan verið nefnt í tengslum við sniðgöngu, en það er eitt af þeim fyrirtækjum sem íslenska sniðgönguhreyfingin leggur hvað mesta áherslu á.
„Rapyd rekur starfsemi í landránsbyggðum Ísraela á Vesturbakkanum sem eru skýlaust brot á alþjóðalögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Stuðningur Rapyd við hernað Ísraels er líka augljós á Instagram reikningi fyrirtækisins þar sem eru myndir af ísraelskum hermönnum sem Rapyd bauð í grillveislu. Þar segir að Rapyd sé stolt af stuðningi sínum við hina hugrökku hermenn ísraelska hersins og ánægt með að geta gefið þeim eitthvað til baka,“ stendur á vefsíðunni sniðganga.is.
Fjallað hefur verið um það í fjölmiðlum að fleiri hundruð íslensk fyrirtæki sem áður notuðu greiðslumiðlun Rapyd hafi látið undan þrýstingi sniðgönguhreyfingarinnar og skipt um greiðslumiðlun.
Athugasemdir (1)