Hér áður fyrr var samþykkt í lögum að hver sem þröngvaði kvenmanni, sem „ekki hefði óorð á“ sér til samræðis við sig með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi, sem henni myndi búinn lífsháski af, ætti að sæta hegningarvinnu í fjögur ár. Ef óorð væri á konunni var hegningin vægari.
Það var síðan árið 1940 sem hætt var að gera greinarmun á glæpnum út frá mannorði brotaþola. Eða réttara sagt, það var þá sem átti að hætta því.
Mannorð hennar: Allra gagn
Árið 1972 féll dómur í héraði þar sem tveir menn voru dæmdir fyrir nauðgun. Samkvæmt lýsingu var fimmtán ára stúlka færð úr fötunum og mennirnir höfðu samfarir við hana á meðan tveir aðrir komu þeim til aðstoðar. Tveir til viðbótar voru viðstaddir án þess að koma henni til bjargar. Þetta var ekki fyrsta brotið sem þeir frömdu gegn henni, heldur hafði þessi hópur stundað það allt frá því að hún var þrettán ára gömul. Hópurinn hafði komist á bragðið í gegnum þá tvo sem nauðguðu henni þetta kvöld, en eftir að öðrum þeirra tókst fyrst að ná henni afsíðis og koma vilja sínum fram við hana, bauð hann fleirum aðgang að henni. „Lýsingin er ávallt sú sama. Þeir tóku hana afsíðis og hún sýndi ekki mikinn mótþróa“ en þó einhvern, en þeir hjálpuðust að við að koma vilja sínum fram.
„Ákærðu vildu halda því fram að hún væri sérstaklega lauslát
Yfir hana helltist djúpstæður ótti við að segja frá því sem þeir gerðu sér. „Ákærðu vildu halda því fram að hún væri sérstaklega lauslát og dómarinn heyrði það við rannsókn málsins af fullorðnu fólki, að vísu tengt þeim ákærðu, að stúlkan væri allra gagn, jafnt drengja sem fullorðinna.“
Þrátt fyrir ítarlega rannsókn var ekki sýnt fram á að aðrir hefðu verið þar að verki en þeir sem þarna voru fyrir dómi. „Piltarnir hafa vafalítið ekki legið á afrekum sínum og á kemst sá orðrómur að stelpan sé allragagn sem hægt er að ganga að og nýta, þegar mönnum þóknast og koma fram vilja sínum við þótt hún sýni einhvern mótþróa, í vissu um að hún muni ekki segja frá“, sagði í dómnum. Þeir hafi ekki litið á framferði sitt sem nauðgun, heldur hversdagslegan atburð, sem þyrfti ekki að ræða frekar og þeir gerðu ekki ráð fyrir að myndi hafa nein eftirmál.
Aðeins var ákært fyrir síðustu nauðgunina, en dráttur varð á rannsókn málsins vegna viðvarandi fjarveru þriggja drengja sem fóru burt þegar málið kom upp. Tvö ár höfðu því liðið frá nauðguninni þegar dómur féll og var það niðurstaða dómsins að vafi væri á að það hefði heppilegar afleiðingar fyrir þá, aðstandendur þeirra og þjóðfélagið að dæma þá til refsingar og í fangelsi. Fengu þeir því skilorðsbundinn dóm.
Mannorð hans: Flekklaus fortíð
Frá því að lögin voru sett árið 1940 hafði lítil sem engin umræða farið fram um kynferðisofbeldi á Alþingi, þar til Kvennalistinn lét til sín taka á Alþingi og fór fram á rannsókn á meðferð nauðgunarmála árið 1984. Þingsályktunartillaga Kvennalistans var lögð fram eftir að Sakadómur Reykjavíkur synjaði beiðni Rannsóknarlögreglu ríkisins um gæsluvarðhaldsúrskurð í máli 36 ára karlmanns sem játaði nauðgun og nauðgunartilraun.
Kvöld eitt gekk hann aftan að stúlku á Hverfisgötu, tók hana hálstaki, greip fyrir vit hennar og dró inn í bakgarð. Klukkutíma síðar var hann kominn neðar í götuna, réðst á aðra stúlku með sömu aðferðum og náði sínu fram. Ógnaði hann stúlkunum létu þær ekki að vilja hans og missti önnur þeirra meðvitund um stundarsakir sökum hálstaksins.
Sakadómi þótti gæsluvarðhald ekki réttlætanlegt í ljósi þess að rannsóknin væri vel á veg komin og ekkert benti til þess að maðurinn fengi þyngri dóm en tveggja ára fangelsi. Niðurstaða sakadóms vakti harðar deilur og Kvennaframboðið tók það upp á Alþingi, því óttast var að maðurinn væri hættulegur samfélaginu.
Því var svarað með því að hann væri fjölskyldufaðir með flekklausa fortíð og ekkert sem benti til þess að hann myndi nauðga fleirum.
Niðurstaðan: Karlar nauðga og komast upp með það
„Karlmenn nauðga og komast upp með það“, var niðurstaða mannfræðings sem rannsakaði málið í upphafi aldarinnar og komst að því að á fimm ára tímabili voru 224 nauðgunarmál á málaskrá lögreglu og 200 voru látin niður falla. Af 24 málum sem fóru fyrir dóm var sakfellt í 11 málum.
Þetta var á tímabilinu 1997 til 2001. Þremur árum síðar var fyrsta einkamálið höfðað vegna kynferðisbrota.
Kona hafði farið í matarboð hjá vinkonu og þaðan á krá í miðbæ borgarinnar, þar sem hún hitti kunningja sem hún sat með þar til staðnum var lokað. Eftir lokun var stefnan tekin á samkvæmi í heimahúsi. Konan fylgdi hópnum eftir en lenti í leigubíl með þremur mönnum. Ekið var að húsi í Breiðholti sem einn þeirra hafði til umráða. Konan var ekki ölvuð en mennirnir héldu að henni drykkjum, sem hún þáði ekki. Allt í einu var sem einn maðurinn reiddist og tók hana kverkataki. Hann baðst fyrirgefningar en endurtók leikinn skömmu síðar og skipaði henni þá úr fötunum.
Á meðan hann braut á henni komu hinir mennirnir að og tóku þátt í brotunum. Í fyrstu lá hún sem lömuð með lokuð augu, en eftir því sem leið á óx henni ásmegin. Hún sýndi verulegan mótþróa, öskraði og æpti, þar til henni tókst loks að flýja af vettvangi. Hún hljóp að húsi konu sem hún þekkti til en var látin bíða þar fyrir utan þar til lögregla kom á staðinn og fylgdi henni á neyðarmóttöku. Þar sýndi hún sterk einkenni þess að hafa orðið fyrir miklu áfalli, talaði samhengislaust, var eirðarlaus, með grátköst, óttaslegin og í hnipri. Morguninn eftir mætti hún í skýrslutöku hjá lögreglu og í kjölfarið var húsráðandi færður í yfirheyrslu. Réttargæslumaður hennar krafðist þess að mennirnir yrðu allir færðir í gæsluvarðhald en því var hafnað.
Hinir tveir voru ekki kallaðir til yfirheyrslu fyrr en viku síðar og þá í stutta skýrslutöku. Lögreglan hafði ekki aftur samband við þá fyrr en þremur mánuðum síðar. Allir þrír viðurkenndu að hafa haft samræði við konuna og að hún hefði verið hrædd. Þeir minntust þess ekki að hafa leitað samþykkis konunnar. Rannsókn málsins var látin niður falla vegna samhljóða framburða mannanna þriggja, sem voru taldir vega þyngra en stöðugur framburður konunnar. Þá var það niðurstaða lögreglu að ekki hefði verið um ofbeldi að ræða þar sem konan var ekki beitt líkamlegu ofbeldi.
Konan var ekki tilbúin til að undirgangast það að þótt hún hafi farið í heimahús með þremur mönnum væri það ekki sakhæft að þeir hafi nauðgað henni. Hún aflaði frekari gagna og fór fram á það við ríkissaksóknara að málið yrði tekið upp að nýju. Í tvígang var því hafnað. Ráðherra vísaði málinu einnig frá. Konan lagði þá fram einkamál með bótakröfu á hendur mönnunum fyrir brot á kynfrelsi. Hún krafðist einnig bóta frá ríkinu á þeim forsendum að rannsókn lögreglu hafi verið svo verulega áfátt að leitt hafi til þess að málið var niðurfellt af ríkissakóknara. Lögmaður konunnar gerði alvarlega athugasemd við að mennirnir hafi ekki verið sóttir samstundis og gæsluvarðhalds krafist. Fyrir dómi voru mennirnir dæmdir til að greiða konunni milljón í skaðabætur en ríkið var sýknað.
Þrátt fyrir dóminn sættu mennirnir ekki refsingu, enda ekki um sakamál að ræða.
Einn mannanna hefur fjórum sinnum verið kærður fyrir nauðgun, en aldrei verið sakfelldur sökum þess að framburður kvennanna þótti ekki nógu sterkur gegn eindreginni neitun hans.
Tíu árum síðar: „Nú má gera það sem þarna var gert“
Tíu árum síðar, árið 2014, lagði sextán ára stúlka fram kæru vegna hópnauðgunar í Breiðholti, sem hefði átt sér stað tveimur dögum fyrr. Rúmt ár leið þar til ákæra var gefin út á hendur fimm drengjum, sem höfðu verið á aldrinum 17 til 19 ára þegar atvik áttu sér stað.
Í ákæru sagði að þeir hefðu með ofbeldi og ruddaskap átt kynferðismök við stúlkuna sem var stjörf af ótta. Einn var ákærður fyrir að nauðga henni aftur í einrúmi. Annar fyrir að taka atvikið upp á myndband og sýna samnemendum sínum og stúlkunnar í matsal menntaskólans. Myndbandið var á meðal sönnunargagna í málinu.
„Nú má gera það sem þarna var gert
Mennirnir voru sýknaðir í héraði og aftur í Hæstarétti. Framburður stúlkunnar hafði verið breytilegur um sumt og annað mundi hún illa. Hér er gerð sú krafa á brotaþola að þeir muni allt sem fyrir þá kom, í minnstu smáatriðum, allt frá því að þeir mæta enn í áfalli á neyðarmóttöku eða í skýrslutöku hjá lögreglu og þar til málið ratar fyrir dóm. Það eru hins vegar þekkt viðbrögð við áföllum að hugurinn lokar á það sem hann ræður ekki við. Í þessu máli var hún ein á móti fimm.
Móðir stúlkunnar sagði sýknudóm ömurlega niðurstöðu fyrir samfélagið allt og staðfestingu á að ofbeldi væri kerfislægt. „Enn og aftur hefur réttarkerfið brugðist þolendum nauðgana,“ sagði hún. „Nú má gera það sem þarna var gert.“
Nútíminn: „Stórhættulegir menn ganga lausir“
Nú hafa tvær konur kært hópnauðganir, sem virðast hafa verið skipulagðar af sama manni. „Það sem er nú kannski sérstaklega óhuggulegt við þessi mál er að það virðist vera um þaulskipulögð brot að ræða,“ sagði réttargæslumaður kvennanna.
Konurnar þekktust ekki en brotið var á þeim með tveggja vikna millibili, í síðasta mánuði. Þær voru á sama skemmtistað þar sem grunur leikur á að þeim hafi verið byrluð ólyfjan og farið var með þær í sömu íbúðina þar sem þær þurftu að þola margra klukkutíma árás.
Enginn þeirra var færður í gæsluvarðhald. Réttargæslumaður kvennanna furðar sig á þessum vinnubrögðum lögreglu.
„Þeir ganga lausir á meðan við hniprum okkur bak við lás og slá okkar eigin heimila og reynum að tjasla okkur aftur saman,“ sagði annar brotaþolinn í aðsendu bréfi til Heimildarinnar.
„Þetta varðar öryggi. Þetta varðar öryggistilfinningu líka og þetta varðar traust til yfirvalda að verja borgarana,“ sagði Drífa Snædal, talskona Stígamóta. Lögreglan þurfi að skýra betur „af hverju stórhættulegir menn ganga lausir“.
Elín Agnes Eide Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, neitaði að svara því hvers vegna var ekki farið fram á gæsluvarðhald. Hún vildi ekki heldur svara því hvort almenningi stafi ógn af þessum mönnum.
„Gæsluvarðhald er auðvitað mjög íþyngjandi úrræði
Sviðsstjóri ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sagðist skilja reiði fólks, en í hverju tilfelli væri metið hvort þörf væri á gæsluvarðhaldi og hvort skilyrði fyrir því væru uppfyllt. „Gæsluvarðhald er auðvitað mjög íþyngjandi úrræði.“
Fyrrverandi dómsmálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Guðrún Hafsteinsdóttir, varði réttarkerfið, þegar hún sagði gæsluvarðhald ekki refsingu heldur tímabundna frelsissviptingu á rannsóknarstigi máls: „Við verðum að hafa það í huga að þetta er alvarlegt inngrip í réttindi einstaklings.“ Ströng skilyrði ríki um gæsluvarðhald vegna þess hversu alvarlegt úrræði það er að frelsissvipta einhvern. Rökstuddur grunur verði að vera um brot og brotið verði að varða fangelsisvist. Sem það gerir í þessu tilviki.
Aðspurð hvort verið sé að verja gerendur á kostnað þolenda svaraði hún: „Við erum réttarríki og við verðum að bera traust til réttarkerfisins.“
Það liggur hins vegar fyrir að brotaþolar bera lítið traust til réttarkerfisins, ef litið er til þess að árið 2024 leituðu 135 til Stígamóta vegna nauðgana, en aðeins 15 þeirra kærðu ofbeldið til lögreglu. Ef litið er til lengri tíma, frá 1992 til 2023, kemur fram að á milli 4 til 17 prósent þeirra sem leita til Stígamóta vegna kynferðisofbeldis kæra málið til lögreglu.
Ástæður fyrir því að mál voru ekki kærð til lögreglu voru margar, en meðal annars að málin voru fyrnd, fólk treysti sér ekki í skýrslutöku hjá lögreglu og hafði ekki trú á að ná fram rétti sínum fyrir dómi. Þá var sláandi hversu djúp áhrif skömm hafði. Alls sögðu 85 prósent þolenda nauðgana sem tóku þátt í rannsókn um þetta efni, að skömm væri ein ástæðan fyrir því að þeir kærðu ekki til lögreglu. Alls litu 75 prósent kvenna sem hafði verið nauðgað svo á að nauðgunin hefði verið þeim að kenna, með einum eða öðrum hætti. Sem er það sem konum hefur verið innrætt alla tíð.
Það er þeirra að segja nei. Ef það tekst ekki, er hætt við að það komist á þær óorð: „Dómarinn heyrði það við rannsókn málsins af fullorðnu fólki, að vísu tengt þeim ákærðu, að stúlkan væri allra gagn, jafnt drengja sem fullorðinna.“
Nútíminn: Þolendur lenda undir í umræðunni
Nema brotaþolar séu Íslendingar og gerendur útlendingar. Þá rýkur reiðin upp.
Hér spurðist út að gerendur hefðu talað erlent tungumál, en fram hefur komið að þeir séu frá Evrópu og hafi rætt saman á spænsku. Í fréttum var rangt farið með að einn þeirra væri í farbanni, sem átti við um aðra hópnauðgun sem var framin í Árbæ skömmu áður. Það þurfti ekki meira til að hópur fólks notaði reynslu þessara kvenna til þess að fóðra eigin hugmyndafræði. Falsfrétt var birt til að ýta undir þau hughrif. Þar var því ranglega haldið fram að níu hælisleitendur hefðu nauðgað sextán ára íslenskri stelpu um páskana.
Umræðan snarsnerist. Hún hætti að snúast um þá ömurlegu staðreynd að hér voru konur beittar grimmilegu kynferðisofbeldi og hvernig hægt væri að styðja þær á þeirri vegferð sem fram undan er. Þess í stað snerist umræðan um hvort fólk væri með eða á móti útlendingum – eða hvor hópurinn sé skárri, nauðgarar með íslenskt eða erlent eftirnafn.
„Það á bara að rassskella þessa aumingja með naglaspýtu á almannafæri og henda þeim svo úr landi. Svo má góða fólkið troða fjölmenningunni upp í rassgatið á sér“, sagði einn sem deildi falsfréttinni. „Vandinn er innfluttur og á ábyrgð stjórnmálamanna“, sagði annar, sem virðist hvorki þekkja tíðni kynbundins ofbeldis, né hafa veitt frásögnum kvenna eftirtekt fram til þessa.
Í þeirri umræðu verður enginn eins illa undir og brotaþolar, þegar þeim er haldið niðri, þörfum þeirra er ýtt til hliðar og raddir þeirra heyrast ekki lengur. Þegar velferð þeirra er ekki lengur í fyrirrúmi og reynsla þeirra skiptir ekki máli heldur hugmyndir fólks um heiminn. Sú upplifun er áfall á áfall ofan.
„Ég bið ykkur að standa með okkur
„Í þessum heimi eru konur ekki einstaklingar með sjálfstæðan rétt til að tjá sig og eiga líkama sinn – heldur eru þær eign,“ segir í bréfi annars brotaþolans. Í því samhengi má hafa í huga að á þjóðveldisöld litu Íslendingar á nauðganir sem brot gegn ættinni og voru þær hefndarskyldar samkvæmt lögum. Nauðgunum var beitt sem hefndaraðgerðum til að niðurlægja andstæðinginn. „Þetta er ekki bara rasismi heldur kvenhatur, og við höfnum ykkar stuðningi með öllu ef hann á sér þennan uppruna.“
Árið 2025: „Ég bið ykkur að standa með okkur“
Á þeim fjórum mánuðum sem liðnir eru af árinu hafa sex hópnauðganir verið kærðar til lögreglu. Að jafnaði hefur lögreglan verið að fá sex til níu slík mál á sitt borð yfir árið. Sem bendir til þess að þessir glæpir séu enn að aukast. „Kynferðisbrot er kynferðisbrot og það skiptir ekki máli hver fremur það. Það þarf að viðurkenna kynferðisbrot og láta þá sem beita þeim axla ábyrgð,“ sagði talskona Stígamóta.
Rannsóknir hafa margoft sýnt að þegar fólk verður fyrir kynferðisofbeldi skipta viðbrögðin þegar sagt er frá ofbeldinu máli fyrir framtíð brotaþola. Þau geta annars vegar ýtt undir áfallið og aukið skaðann eða mildað höggið og dregið úr líkum á alvarlegum afleiðingum til lengri tíma.
Rannsókn sem gerð var á afleiðingunum leiddi í ljós að konur sem höfðu orðið fyrir hópnauðgun voru í meiri sjálfsvígshættu heldur en konur sem höfðu orðið fyrir nauðgun. Tæplega helmingur þeirra hafði reynt að fyrirfara sér. Í fyrra leituðu 12 til Stígamóta vegna hópnauðgunar.
Undir eru brotaþolar sem ganga í gegnum helvíti. Barátta þeirra er upp á líf og dauða. Á sama tíma glíma þeir við réttarkerfi sem hefur allt of oft brugðist, þar sem rík krafa er gerð til brotaþola um að hafa gert allt rétt til að viðhalda trúverðugleika í kerfi þar sem þeir eru ekki aðilar máls heldur vitni að ofbeldisverkum sem þeir voru beittir. Þar sem þeir hafa enga stjórn á ferlinu og fá enga vernd, á meðan gerendur þeirra ganga lausir.
Í bréfi frá brotaþola er biðlað til almennings að beina sjónum að brotnu réttarkerfi og úrbótum á því: „Ég bið ykkur að standa með okkur.“
Athugasemdir (4)