„Hobbitarnir“ voru enn minni en talið var

Margt leyn­ist enn í jörð á eyj­unni Flor­es í Indó­nes­íu.

„Hobbitarnir“ voru enn minni en talið var
Hve stórir voru „Hobbitarnir“ á Flores? Með hjálp gervigreindar var þessi mynd búin til sem sýnir stærðarhlutföl „gömlu“ Homo Floresiensis-tegundarinnar (til vinstri), Homo Erectus (í miðið) og „nýju“ Flores-tegundarinnar. Gervigreindin er að vísu orðin svo siðprúð að hún neitaði að búa til mynd af raunverulegum Homo Floresiensis og Homo Erectus vegna þess að þær tegundir gengu naktar. Hún fékkst sem semingi á að búa til samskonar mynd af Neanderdalsmönnum af því þeir voru ekki berrassaðir. Stærðarhlutföllin eru hins vegar rétt.

Árið 2003 bárust óvænt tíðindi út um veröldina. Á eyjunni Flores í Indónesíu höfðu fundist leifar um áður óþekkta manntegund sem virtist vera mun minni en nokkur sem áður hafði þekkst. Ekki varð betur séð en meðalhæð þessarar tegundar hefði verið um einn metri.

Og allra merkilegast var að þessi litla manntegund reyndist hafa verið uppi á sama tíma og nútímamaðurinn homo sapiens var kominn til sögunnar. Og var bersýnilega á svipuðu þroska- og tæknistigi og steinaldarmenn eins og homo habilis og sérstaklega homo erectus. Nýja tegundin, sem fékk nafnið homo floresiensis (oft kölluð „Hobbitar“), mun hafa dáið út fyrir aðeins um um 50.000 árum.

Sumir vildu meira að segja trúa því að þessi eða svipaðar afar smávaxnar tegundir hefðu lifað af mun lengur og orðið kveikjan að þeim dvergasögum sem allir ættstofnar mannsins eiga í sínum þjóðsagnakistum, en það mun þó fjarri sanni.

Nokkur styrr stóð um homo floresiensis framan af. Sumir vildu ekki trúa því að jafnlítil manntegund og með jafnlítinn heila gæti hafa þróað sams konar lifnaðarhætti og homo erectus. Leifarnar sem fundust á Flores hlytu að vera af einhvers konar vanþroska eða vansköpuðum einstaklingum.

Önnur smátegund á Filippseyjum

Þær kenningar hafa fyrir alllöngu verið slegnar út af borðinu. Homo floresiensis var einfaldlega fullþróuð og sjálfstæð manntegund.

Og sennilegast að hún hafi þróast frá homo erectus en minnkað vegna sérstakra aðstæðna á Flores.

Nýlega fundust svo leifar um aðra álíka smáa tegund á Filippseyjum sem renndi stoðum um að ekkert væri óeðlilegt við Flores-fólkið.

Nú – þetta hefur nú allt saman verið á almanna vitorði árum saman.

En á síðasta ári bar nýrra við.

Þá fundust nefnilega á Flores nýjar leifar af litla mannfólkinu þar og kemur þá ekki á daginn að þar virðist um að ræða sjónarmun minna fólk heldur en fannst 2003 og það svo miklu minna að vísindamenn eru meira að segja að bræða með sér hvort þeir eigi að kalla það sérstaka tegund.

Stór  lítill  stærri

Og það sem meira var – með einhverjum aðferðum sem ég kann ekki að skýra, þá komust vísindamenn fljótlega að því að þessir nýfundnu „enn þá-minni-Hobbitar“ væru í rauninni forfeður og formæður hins áðurfundna Flores-fólks.

Þessi minni sort af homo floresienses er svo lítil að um skeið kviknaði sú kenning að hún gæti ekki hafa þróast frá homo erectus. Hún hlyti að hafa þróast beint frá einhverri „suðurapa“-tegund eins og hinni víðfrægu Lucy. Suðuraparnir gátu svo aftur af sér aðrar og þróaðri tegundir, þar á meðal homo habilis sem aftur gat af sér homo erectus.

En hlaut ekki þetta örlitla Flores-fólk að vera komið beint frá suðuröpunum?

Þótt enginn hafi hingað til vitað til þess að suðuraparnir hafi nokkurn tíma farið frá Afríku þar sem þeir urðu til.

Um þetta hafa vísindamenn brotið heilann síðasta hálfa árið.

En nú mun niðurstaða komin.

Of löng leið

Flores-fólkið, hvorki minni sortin né sú stærri, er ekki komið af suðuröpum.

Heldur sé raunin sú, eins og áður var talið, að tegundin (eða tegundirnar) séu báðar komnar af homo erectus.

Nú lítur líklegasta kenningin þannig út að fyrir um milljón árum hafi ein ættkvísl homo erectus einangrast þegar sjávarborð hækkaði skyndilega í Suðaustur-Asíu og eyjan Flores varð til. Þá voru um 800.000 ár síðan erectus yfirgaf Afríku, fyrsta manntegund að vitað er.

Nákvæmlega hvenær og hvers vegna Flores einangraðist er ekki vitað en eftir á voru um 60 kílómetrar frá eyjunni til næstu stóru eyja á svæðinu.

Það var of löng leið til þess að nokkurt samband gæti orðið milli erectus-fólk á Flores og umheimsins.

Hvað þarf langan tíma?

Hve mörg þau hafi verið af kyni erectus sem nú einangruðust á Flores er auðvitað engin leið að segja með vissu því alltof fátt hefur enn fundist af steingervingum og/eða beinaleifum á eyjunni. Hins vegar virðist nú ljóst að „aðeins“ 300.000 árum síðar hafi hin smærri útgáfa af homo floresiensis verið komin fram.

Í fyrstu kann það að virðast alltof skammur tími til þess að ný dýrategund þróist út frá annarri, tala nú ekki þegar um svo mikinn (stærðar)mun er að ræða eins og milli homo erectus og homo floresiensis en raunin er nú samt sú að sá tími dugar ljómandi vel.

Vísindamenn hafa rannsakað í þaula hvernig dvergvöxtur fíla á Miðjarðarhafseyjum þróaðist frá því að venjulegir fílar einangruðust á ýmsum eyjum þegar sjávarmál hækkaði og niðurstaða þeirra er næstum ótrúleg.

Fílar smækka á leifturhraða

Það gæti vissulega hafa tekið um 20.000 ár fyrir fílategundir að smækka frá því að vera fjórir metrar á hæð og niður í einn metra, en það kann líka að hafa tekið ekki nema 1.300 ár!

Það er að segja aðeins á 40 kynslóðum hinna langlífu fíla, sem hljómar náttúrlega eins og nærri brjálæðislegur hraði á þróuninni. 

Svo þótt 300.000 ár virðist við fyrstu sýn of skammur tími til að alveg ný manntegund hafi þróast frá homo erectus á Flores, þá er það í rauninni alveg nægur tími.

Og það sem kemur kannski einhverjum á óvart er að þeim mun færri einstaklingar af kyni erectus sem urðu innlyksa á Flores, þeim mun skemmri tíma tók það líklega fyrir nýju tegundina að verða til – bæði að smækka um helming og sitja uppi með næstum helmingi léttari heila, án þess vel að merkja að missa í nokkru hæfni til að búa til steinaldartól eða þurfa að þola „frumstæðari“ lifnaðarhætti.

Stækkaði aftur?

Eftir því sem best er vitað voru lífshættir homo floresiensis nefnilega í fáu frábrugðnir lífsmáta homo erectus þótt heili þess fyrrnefnda væri helmingi minni bæði að rúmmáli og þyngd.

Í raun mun vera einna líklegast að hópurinn sem einangraðist á Flores og gat svo af sér nýja tegund á (í hæsta lagi) 300.000 árum hafi ekki talið nema 50 einstaklinga.

Í hæsta lagi 300.

Ef fjöldinn hefði verið meiri, þá hefði genamengi erectus-fólks á Flores nefnilega verið stöðugri og það hefði þá áreiðanega tekið mun lengri tíma fyrir nýja tegund, eða tegundir, að verða til.

En eftir að hinn nýuppgötvaði minni Flores-maður var á annað borð orðinn til, þá virðist sem sé að minnsta kosti hluti tegundarinnar hafi stækkað aftur en þó aðeins upp í þá stærð sem homo floresiensis mælist í, það er um einn metri.

Hvað finnst næst?

Óþarft er að taka fram að æ fleiri steingervingafræðingar flykkjast nú til Flores í von um að finna fleiri bein og mannvistarleifar þar í jörð. Kannski er margt fleira þar ófundið sem getur kennt okkur enn fleiri lexíur um tilurð okkar og fortíð.

Líka er vonandi óþarft að taka fram, en best að gera það samt, að lágvaxnir ættbálkar nútímamanna, svokallaðir pygmíar, eiga ekkert skylt við homo florienses eða aðrar þær manntegundir sem hér hefur verið fjallað um. Pygmíar, sem þekkjast bæði í Mið-Afríku og Suðaustur-Asíu (Taron-þjóðin sem nú býr í Mjanmar), eru einfaldlega komnir af þeim sömu homo sapiens og allt annað fólk í veröldinni. Pygmíar nútímans eru reyndar mun hærri en Flores-fólkið. Karlmenn eru að meðaltali 140–150 sentimetra háir en konur ívið lægri.

„Hópurinn sem einangraðist á Flores og gat af sér nýja manntegund taldi sennilega ekki nema 50 einstaklinga
Kjósa
19
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

Forðast ólgu svo það sé áfram gaman í Samfylkingunni
2
Greining

Forð­ast ólgu svo það sé áfram gam­an í Sam­fylk­ing­unni

Sam­fylk­ing­ar­fólki hef­ur tek­ist að halda aft­ur af ólgu og upp­gjöri inn­an eig­in raða því flokks­fé­lag­ar vilja öðru frem­ur að flokk­ur­inn við­haldi góðu gengi. Fyrr­ver­andi ráð­herra lík­ir tök­um Kristrún­ar Frosta­dótt­ur á stjórn flokks­ins við stöðu Dav­íðs Odds­son­ar á síð­ustu öld. Flokks­menn eru þó mis­sátt­ir við stöðu Dags B. Eggerts­son­ar, fyrr­ver­andi borg­ar­stjóra.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Íslendingar vísa trans konu á flótta frá Bandaríkjunum úr landi
2
Fréttir

Ís­lend­ing­ar vísa trans konu á flótta frá Banda­ríkj­un­um úr landi

Kona sem er á flótta frá Banda­ríkj­un­um með son sinn sótti um al­þjóð­lega vernd á Ís­landi. Fyr­ir Út­lend­inga­stofn­un lýsti hún því hvernig hat­ur hafi far­ið vax­andi þar í landi gagn­vart kon­um eins og henni – trans kon­um – sam­hliða að­gerð­um stjórn­valda gegn trans fólki. Sjálf hafi hún orð­ið fyr­ir að­kasti og ógn­un­um. „Með hverj­um deg­in­um varð þetta verra og óhugn­an­lega.“
Indriði Þorláksson
6
Aðsent

Indriði Þorláksson

Veiði­gjöld­in og lands­byggð­in

Eng­in vit­ræn rök eru fyr­ir því að hækk­un veiði­gjalds­ins leiði til þess­ara ham­fara, skrif­ar Indriði Þor­láks­son um mál­flutn­ing Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi vegna fyr­ir­hug­aðr­ar breyt­ing­ar á út­reikn­ingi veiði­gjalda. „Að sumu leyti minn­ir þessi púka­blíst­ur­her­ferð á ástand­ið vest­an­hafs þar sem fals­upp­lýs­ing­um er dreift til að kæfa vit­ræna um­ræðu,“ skrif­ar hann.

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
4
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.
Hollt mataræði lykilatriði að góðri heilsu
6
Fréttir

Hollt mataræði lyk­il­at­riði að góðri heilsu

Ax­el F. Sig­urðs­son, sér­fræð­ing­ur í hjarta­lækn­ing­um, hef­ur skoð­að tengsl fæðu og lífs­stíls við sjúk­dóma, einkum hjarta- og æða­sjúk­dóma. Tal­að hef­ur ver­ið um að lífs­stíls­sjúk­dóm­ar séu stærsta ógn­in við heilsu fólks og heil­brigðis­kerfi til næstu ára­tuga. Ax­el seg­ir að fólk geti breytt miklu með hollu mataræði og hreyf­ingu. Fé­lags­leg tengsl séu líka mik­il­væg. Hann ráð­legg­ur hreina fæðu til að sporna við kvill­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár