Ég kom til Íslands fyrir 18 árum og hef ekki litið til baka síðan. Ég varð hamingjusamur þegar ég kvaddi heimalandið, Þýskaland. Fjölskylda mín býr úti um allan heim, flest okkar eru kokkar, við viljum vera á hreyfingu, ekki sitja bara á rassinum. Ég er menntaður kokkur og hef verið í 35 ár. Ég kom hingað til að vinna og fyrstu þrjú árin var ég á Hótel Geysi í Haukadal.
Ég reyni að vera jákvæður, ég er oftast jákvæður en auðvitað sekk ég aðeins niður líka, hver gerir það ekki? Svo lengi sem ég hef tónlist er ég oftast góður.
Ég hef alltaf vitað að ég er öðruvísi. Ég er trans. Mamma og pabbi hafa alltaf stutt mig. Ég trúði því alltaf að ég væri strákur, versta martröðin mín varð að veruleika þegar ég byrjaði á blæðingum.
„Ég skaðaði sjálfan mig og reyndi að svipta mig lífi. En hér er ég í dag. Hamingjusamur.
Það var erfitt að vera eins og ég er í samfélaginu á þessum tíma. Mér var nauðgað. Tvisvar. Það var erfitt og það tók mig langan tíma að vinna úr því. Ég skaðaði sjálfan mig og reyndi að svipta mig lífi. En hér er ég í dag. Hamingjusamur.
Ég get alveg talað um þetta. Ef fólk spyr þá svara ég, ég á erfitt með að segja ekki allan sannleikann. Ég hef lært að það að birgja hlutina inni hjálpar ekki, ef einhver er þarna úti sem vill vita, af hverju ekki að segja frá því?
Í dag er ég matráður á leikskólanum Vesturborg. Ég hlusta á tónlist og hljóðbækur á meðan ég vinn. Stundum dansa ég.
Ég ætla ekki aftur til Þýskalands, mamma lést fyrir 12 árum, ég hef ekkert þangað að sækja lengur. Ég á bestu vinkonu hér á Íslandi, hún er mér sem systir. Fyrir utan hana á ég ekki marga vini, ég á erfitt með að mynda tengsl. En börnin hér á leikskólanum eru æðisleg, sérstaklega þau yngstu, þau eru svo hreinskilin, þau kunna ekki að ljúga. Þau eru eins og ég, ætli ég hafi nokkuð lært að fullorðnast? Þetta umhverfi hentar mér.
Ég væri til í meira sólskin í líf mitt. Ég var reyndar að huga að garðinum um helgina í sólinni, náði að snyrta trén og rósarunnana. Ég er mikið fyrir garðyrkju. Ég er að verða 58 ára, tíu ár í viðbót af vinnu. Mig langar að verja ellinni á Indlandi, en mér líður illa í margmenni svo það gæti reynst flókið. En góð tónlist, góður matur, indælt fólk og heilun. Það heillar.“
Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Þeim sem glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á: Upplýsingasíma heilsugæslunnar s. 1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s. 1717, netspjallið 1717.is og Píeta símann s. 552-2218.
Athugasemdir