Síðasta ár var svakalegt fréttaár.
En þrátt fyrir að hér hangi 100 magnaðar fréttamyndir er samt ekki ein einasta mynd af stærsta fréttaviðburði síðasta árs á Íslandi á veggjum safnsins! Ekki ein!
Það er ekki við dómnefndina að sakast, það var engin mynd af þessum ótrúlega og einstaka fréttaviðburði send inn í keppnina.
Ástæðan er einföld, en um leið skelfileg fyrir fjölmiðlun á Íslandi, ömurleg fyrir okkur sem samfélag, hræðileg fyrir sögu okkar og menningu framtíðarinnar.
Ástæðan er sú að yfirvaldinu, einum embættismanni á Reykjanesi, fannst við hafa MYNDAÐ NÓG! það vantaði bara ekkert upp á heimildaöflun, Það væri komið gott! Það væri engin ástæða til að við fengjum að fylgja hundruðum íbúa Grindavíkur inn í bæinn – dagana sem þeir tæmdu húsin sín, dagana sem þeir yfirgáfu margir heimili sín í síðasta skipti, fyrir fullt og allt. Okkur var haldið frá einum stærsta fréttaviðburði síðustu áratuga með valdi. Ástæðan var ekki til að tryggja okkar öryggi. Hundruð íbúa fóru óhindrað um Grindavík þessa sömu daga. Ástæðan var eingöngu duttlungar eins manns með ofurvald á svæðinu.
Þetta er skandall! Hreinn skandall.
Við getum ekki leyft þjóðfélag þar sem pirraður embættismaður segir fjölmiðlafólki að það sé búið að ná í nægar upplýsingar, finna nægar sögur, fá nægar frásagnir, smella nægum myndum – en hefur um leið vald til að halda okkur frá því sem þarf nauðsynlega að dókjumenta. Við erum að gera samfélagi okkar og framtíð óleik með því að hlýða slíku yfirvaldi. Vel getur verið að margir Grindvíkingar hafi á þessum tíma verið pirraðir út í fjölmiðla og einhverjir hvatt lögreglustjórann til að halda okkur frá en það er algjörlega á hreinu að sagan mun ekki dæma okkur fyrir að hafa tekið OF margar myndir eða NÓGU margar myndir af því sem þarna gekk á þessa örlagaríku daga.
Þegar loks jörð hættir að rísa, hraun að renna og rykið sest átta menn sig vonandi á því að þetta voru embættisafglöp sem ekki mega endurtaka sig. Við skuldum framtíðinni að geta sagt sögu samtímans á skilmerkilegan hátt án þess að nota til þess myndefni búið til af gervigreind. Nógu erfið er baráttan við falsið og gervið.
Áfram fréttaljósmyndun!
Athugasemdir