Á árinu 2024 fengu alls 528 foreldrar með 953 börn fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg en árið 2023 var fjöldi þeirra 637 með 1.115 börn. Fjölmennasti hópurinn er einstæðar mæður. Af þessu má áætla að tæplega þúsund reykvísk börn, hið minnsta, búi við fátækt.
Þetta kemur fram í gögnum sem lögð voru fram á síðasta fundi velferðarráðs Reykjavíkur þar sem farið var yfir stöðuna á innleiðingu aðgerðaáætlunar gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra. Aðgerðaáætlunin var samþykkt árið 2020.
Eins og sést í meðfylgjandi töflu voru á síðasta ári 288 einstæðar mæður með alls 477 börn á framfæri sem fengu fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg til framfærslu, 222 hjón eða sambýlisfólk með alls 455 börn og 18 einstæðir feðir með samtals 21 barn á framfæri.

Samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er þeim skylt að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar.
Fjárhagsaðstoð til einstaklinga getur verið allt að 247.572 kr. á mánuði. Fjárhagsaðstoð til hjóna eða fólks í sambúð getur verið allt að 396.115 kr. á mánuði. Til viðbótar við grunnfjárhæð skal í hverjum mánuði greidd sérstök fjárhagsaðstoð fyrir hvert barn sem er með lögheimili og á framfæri foreldris sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu. Skal aðstoðin mæta kostnaði vegna dvalar barna í leikskóla í allt að átta tíma og dvalar barna á frístundaheimili, fimm daga í viku, auk greiðslu kostnaðar vegna skólamáltíða og síðdegishressingar. Um þjónustugreiðslur er að ræða sem greiðast til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Í bókun sem fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Sósíalistaflokksins lögðu fram á fundinum kemur fram að halda þurfi áfram með vinnu samkvæmt aðgerðaáætlun gegn sárafátækt barna og bregðast við. „Mikil áhersla er lögð á húsnæðisöryggi í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Vinstri grænna og Flokks fólksins. Ljóst er að vinna þarf gegn háum húsnæðiskostnaði í aðgerðum gegn fátækt og ójöfnuði og þar þarf meðal annars að stórauka félagslegt húsnæði,“ segir einnig í bókuninni.
Engin skilgreining á fátækt barna
Í svari við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokksins árið 2023 um fjölda barna sem búa við fátækt í Reykjavík segir sviðsstjóri velferðarsviðs: „Velferðarsvið býr ekki yfir upplýsingum um heildarfjölda barna sem búa við fátækt í Reykjavík eða um fjölda barna sem búa á heimilum undir lágtekjumörkum.“
Samkvæmt málaskrá velferðarsviðs var fjöldi barna þeirra foreldra sem fengu fjárhagsaðstoð til framfærslu árið 2022 1353 börn. Á tímabilinu janúar og febrúar 2023 var fjöldinn 667 börn. Á biðlista yfir félagslegt leiguhúsnæði voru alls 649 börn í árslok 2022. Skörun kunni að vera á milli þessara hópa. Leiða megi líkum að því að umrædd börn búi við fátækt sé litið til tekna foreldra.
Þá er í svarinu sömuleiðis vakin athygli á því að á Íslandi er ekki til nein skilgrening á fátækt barna. Fræðimenn hafi fjallað um ýmsar leiðir til að skilgreina barnafátækt en fátækt er hægt að nálgast með ólíkum mælingum. Algengast sé að miða við ákveðinn punkt í tekjudreifingunni sem kallast lágtekjumörk og eru mæling á lífskjörum. Lágtekjumörk byggja á 60% miðgilda ráðstöfunartekna heimila og þá teljast þau sem eru fyrir neðan þessi mörk á tilteknum tímapunkti búa við hættu eða auknar líkur á fátækt. Ekki er því sjálfgefið að þau sem eru undir lágtekjumörkum búi við fátækt eða skort en að hætta sé á því. Þegar talað er um lágtekjuhlutfall er það hlutfall þeirra sem eru undir lágtekjumörkum. Önnur mæling á fátækt er skortur á efnislegum gæðum. Skilgreind eru sjö viðmið og ef fólk telur að þrennt af þeim eigi við er það talið búa við fátækt eða vera í aukinni áhættu. Ef fleiri atriði en þrjú eiga við er talað um að fólk búi við sárafátækt
Samkvæmt skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, bjuggu 12,4% barna á Íslandi við fátækt við árslok 2021, en það voru 10.500 börn. Í skýrslunni, sem birt var 2023, segir að yfirvöld margra ríkra landa hafi sofið á verðinum á góðæristímum. Að í stað þess að uppræta fátækt í efnahagslegri velsæld hafi hún aukist í mörgum efnuðustu ríkjum heims. Í skýrslunni kemur fram að fátækt barna á Íslandi jókst næstmest í ESB-OECD ríkjunum eða um rúm 11% þegar borin voru saman árin 2012-2014 og 2019 -2021. Bretland skar sig þó algjörlega úr því þar hefur fátækt barna aukist um nær 20%. Frakkland, Sviss og Noregur komu rétt á eftir Íslandi.
Athugasemdir (1)