„Ég segi mína sögu af því að samfélagið þarf að vakna.“
Móðir 10 ára gamallar stúlku sem fannst látin við Krýsuvíkurveg.
„Það er gríðarlega mikilvægt að samfélagið allt og stjórnvöld nýti þessa hörmungarsögu til að læra af.“
Amma 16 ára drengs sem er ákærður fyrir hnífstunguárás sem varð ungri stúlku að bana.
„Samfélaginu ber skylda til að hlusta og tryggja að saga Bryndísar gleymist ekki heldur verði vendipunktur í baráttunni gegn ofbeldi.“
Amma 17 ára stúlku sem lést af völdum sára sinna eftir hnífstunguárás á menningarnótt.
„Þessi dýra og óbærilega fórn hennar, skal og verður að bjarga mannslífum.“
Faðir 17 ára stúlku sem lést af völdum sára sinna eftir hnífstunguárás á menningarnótt.
Hversu mörgum mannslífum þarf að fórna þar til brugðist verður við ákalli aðstandenda?
„Þetta eru týndu börnin sem samfélagið vill helst ekkert vita af.“
Faðir 17 ára drengs sem lést í eldsvoða á meðferðarstöð ríkisins á Stuðlum.
Ákalli um hjálp ekki svarað
Á undanförnum mánuðum hefur hver harmleikur rekið annan þar sem kemur í ljós að samfélagið brást með skelfilegum afleiðingum.
-
Þegar móðir var myrt af syni sínum kom í ljós að hún hafði kallað eftir aðstoð samfélagsins. „Ég ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur,“ sagði hún í viðtali við Fréttablaðið árið 2022. Það væru allir hræddir við hann. Hún líka. „Ég er drulluhrædd við hann.“
Sonur hennar var um tólf ára gamall þegar hann veiktist, veikindin heltóku fjölskylduna og foreldrar hans skiptust á að vaka yfir honum. Hann ógnaði foreldrum sínum, var ofbeldisfullur gagnvart móður sinni og elti hana með hnífa á lofti. Hún hafði alltaf komist undan, nema eitt sinn þegar hann skar gat á kjól hennar.
Árið 2006 var hann í helgarleyfi frá Kleppi þegar hann stakk föður sinn í bakið og var í kjölfarið ákærður fyrir tilraun til manndráps. Þá var hann metinn ósakhæfur vegna langvarandi alvarlegra geðrænna veikinda og fíknivanda. „Þeir eiga ekki orð yfir það sem hann er,“ sagði móðir hans í viðtali við DV.
Árið 2022 var hann metinn sakhæfur og dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás gagnvart móður sinni og fleiri brot. Sló hann hana ítrekað með krepptum hnefa, sparkaði og tók hana ítrekað hálstaki þannig að hún missti meðvitund. Um leið hótaði hann henni lífláti. „Eitt högg í viðbót og búmm, ég hefði dáið,“ sagði konan síðar. Hún lýsti því að þegar sérsveitina bar að garði hafi hún spurt hvort þeir væru með byssu og þeir svarað játandi. „Ég bað þá um að skjóta hann, skjóta son minn.“
Tveimur árum síðar var hann laus allra mála. „Oftast er reynt að haga málum þannig að það taki eitthvað við, en það gengur ekki alltaf,“ útskýrði settur forstöðumaður Fangelsismálastofnunar, Birgir Jónasson.
Afstaða lýsti áhyggjum af úrræðaleysinu. „Hættan af þessum mönnum var þekkt.“ Varað hafi verið við hættunni af þessum manni og öðrum í sömu stöðu. Hægt hefði verið að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða, en þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir sérfræðinga hafi verið skortur á úrræðum til að tryggja öryggi þeirra og annarra.
Það var svo þann 13. október 2024 sem Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um miðnætti. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og móðir mannsins var úrskurðuð látin. Hann sætir nú ákæru fyrir að hafa stungið móður sína minnst 22 sinnum.
-
Þegar kona lést af völdum eiginmannsins síns sögðu synir hennar að það væri léttir að hún væri látin og misþyrmingum mannsins væri loksins lokið, eftir öll þessi ár. Gögn um ofbeldisfullt samband þeirra voru til hjá heilbrigðisstofnunum, barnavernd, félagsþjónustu og lögreglu allt frá árinu 1999, en þó einkum árin 2008 til 2015 og frá árinu 2021. Niðurstaðan var að líklega hafi maðurinn beitt hana heimilisofbeldi í á þriðja tug ára. Var því lýst í dómi að maðurinn hefði alltaf sótt konuna í vinnu og verið með henni í matar- og kaffipásum. Þá hafi stundum mátt sjá áverka á andliti hennar.
Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir í viðtali við Heimildina að íslensk stjórnvöld draga lappirnar miðað við önnur Norðurlönd þegar kemur að úrræðum til að tryggja öryggi kvenna og barna. Um helmingur kvenna sem leita í Kvennaathvarfið óttast um líf sitt, en í þeim fáu tilvikum þar sem kært er, um ellefu prósent tilfella sem rata á borð Kvennaathvarfsins, fengu aðeins fimm prósent gerenda nálgunarbann og enn færri var vísað af heimilinu.
Þegar lögreglu bar að garði aðfaranótt 22. apríl 2024 stóð maðurinn reykjandi í dyragættinni. „Hún er bara dáin,“ sagði hann og benti inn. Hann hafði sjálfur hringt í neyðarlínuna og tilkynnt að konan sín lægi á gólfinu og væri orðin köld. „Fyrirgefðu, fyrirgefðu,“ heyrðist hann segja. Fyrir dómi bar hann því við að konan hefði dottið, þau hefðu horft á sjónvarpið, hann sofnað og fundið hana látna þegar hann vaknaði. Maðurinn hlaut tólf ára fangelsisdóm fyrir brot í nánu sambandi. Refsiramminn eru sextán ár. Linda Dröfn sagði dóminn vonbrigði, þar sem senda þurfi skýr skilaboð um að ofbeldi sé ekki liðið í íslensku samfélagi – ekki heldur inni á heimilum.
Synir hjónanna eru báðir undir tvítugu og segja ofbeldið hafa verið viðvarandi. Foreldrar þeirra hafi ekki staðið sig í foreldrahlutverkinu og erfitt sé að finna góðar minningar af heimilinu. „Gott að þessu skuli vera lokið. Þetta hafi ekki verið neitt líf hjá brotaþola,“ er haft eftir öðrum þeirra í dómnum. „Þetta hafi bara verið venjan en nú sé þessu ofbeldi allavega lokið,“ er haft eftir hinum.
-
Þegar móðir var fundin sek um að hafa banað sex ára syni sínum og gert tilraun til að bana eldri syni sínum, tólf ára gömlum, kvaðst hún hafa verið svo örvingluð að hún sá ekki aðra leið í stöðunni en að svipta börnin lífi. Hún hefði talið að það væri betra fyrir drengina að deyja en að þjást í þessum heimi án stuðnings frá móður sinni, sem vildi sjálf deyja.
Konan hafði verið lengi á flótta áður en hún hlaut dvalarleyfi hér á landi. Á þeim árum sem hún hafði dvalið hér varð hún fyrir áframhaldandi áföllum, upplifði ástvinamissi og tveggja ára aðskilnað við son sinn, en hlaut lítinn stuðning. Fyrir dómi var því lýst að búseta hér á landi hefði reynst erfið, hún hafi búið við ófullnægjandi aðstæður og mætt miklum fordómum. Hún hafi haft áhyggjur af framfærslu og húsnæðismálum, ráðið illa við að vera einstæð móðir og beðið föður barnanna fyrir þeim. Hún var nýskilin en sambandið var sagt stormasamt, þar sem hún mátti ekki fara í skóla eða á æfingu heldur átti að halda sig heima fyrir. Fyrir vikið hafi hún verið félagslega einangruð og án tengslanets hér á landi.
Konan þjáðist af endurteknu þunglyndi, kvíðaeinkennum, áráttu- og þráhyggju, auk þess sem sterkar vísbendingar voru um áfallastreituröskun. Konan hafði meðal annars talið sér trú um að hún væri með krabbamein. Á endanum tók hún ákvörðun um að senda börnin í annan og betri heim. Þrátt fyrir allt var hún metin sakhæf og hlaut 18 ára fangelsisdóm fyrir manndráp, tilraun til manndráps og brot í nánu sambandi.
-
Þegar faðir var handtekinn vegna gruns um að hafa banað tíu ára dóttur sinni hafði verið reynt að fá hjálp fyrir hann. Móðir stúlkunnar lýsti þeirri martröð sem líf hennar hafði orðið, þar sem hún hefði helst ekki viljað vakna á morgnana. „En ég hef neyðst til að vakna. Ekki bara í einu tilliti. Ég hef vaknað upp af þeim svefni sem við erum látin sofa sem samfélag.“
Enginn sem þekkti til mannsins hafi átt von á þessu eða getað trúað því. Hann hafi alltaf verið kurteis, hjálpsamur, örlátur og duglegur, stoð hennar og stytta, hennar besti vinur. Hann hafi elskað dóttur sína og gert allt fyrir hana.
Síðasta vor hvarf hann sporlaust og lýst var eftir honum. Hann fannst loks þegar liðið var á þriðja sólarhring, uppþornaður og með sár á fótum eftir að hafa gengið sleitulaust í sólarhringa, í einhvers konar ástandi sem barnsmóðir hans kunni ekki að nefna, geðrofi eða maníu. Hann fékk þá aðhlynningu í einhverjar klukkustundir áður en hann var útskrifaður.
Eftir það hafi hann reynt að leita sér hjálpar, en fengið höfnun frá áfallateyminu, án viðals eða skýringa. Honum bauðst aðeins að fá lyf frá læknum. Hann hélt áfram að keyra sig út í vinnu en barnsmóðir hans sér að það er eitthvað að. Hann fór síðan út með dóttur sína til að kasta bolta á milli spjalda með frönskum rennilás. Þegar hann svarar ekki í síma renna tvær grímur á barnsmóður hans, sem fékk heimsókn frá lögreglu og presti að kvöldi.
Hún sagðist ekki vita hvað gerðist. En hún vissi að hann hefði ekki tekið meðvitaða ákvörðun um að svipta dóttur þeirra lífi. „Við syrgjum bæði dóttur okkar.“
Hún greindi frá reynslu sinni því hér hefur fólk verið stimplað klikkað, geðveikt og ruglað. „Þannig var réttlætt að afskrifa það, loka inni og hlusta ekki á það. Á meðan þetta er ekkert annað en fólk sem hefur þurft að þola mismikið af misstórum áföllum. Og þau fá takmarkaða hjálp, ef einhverja.“ Það væri undarlegt að hægt væri að neita fólki um aðstoð þegar það leitaði eftir hjálp. „Viljum við ekki samfélag þar sem fólk fær hjálp?“
-
Þegar karlmaður var handtekinn fyrir að hafa orðið hjónum að bana átti hann að vera í nauðungarvistun á geðdeild. Maðurinn hefur lengi glímt við alvarlegan geðrænan vanda, haft miklar ranghugmyndir og á innan við ári hefur hann í þrígang verið vistaður í nauðungarvistun. Hann var handtekinn eftir að hafa ógnað fólki og lögreglu með hnífi, en hann taldi lögregluna hluta af samsæri um að ráða sig af dögum. Hann var talinn mögulega hættulegur sjálfum sér og öðrum. Á þessum tíma hefðu ranghugmyndir mögulega stýrt gjörðum hans. Ranghugmyndir voru enn til staðar eftir heimkomuna. Hjónin sem létu lífið þekktu til mannsins og höfðu sýnt honum gæsku og velvilja.
Ári áður hafði hann farið á sjúkrahús í fylgd aðstandenda sem lýstu áhyggjum af versnandi ástandi eftir að hann rústaði íbúð sinni í átökum við guðlega veru við gerð eigin heimildarmyndar. Geðlæknar mátu hann í alvarlegu geðrofi með svæsnar ranghugmyndir. Þá var hann einnig látinn laus þrátt fyrir að vera enn með ranghugmyndir, hafa lítið innsæi í veikindi sín og afþakkað lyf. Í kjölfarið kveikti hann eld á heimili sínu.
„Á sama tíma er sá blákaldi raunveruleiki til staðar að það er endalaust verið að hringja frá bráðaþjónustu okkar í bráðalegudeildirnar til að kanna hvort pláss séu til staðar fyrir innlögn. Á Hringbraut erum við með deildir sem voru teknar í notkun árið 1979 og voru hannaðar fyrir 15 sjúklinga. En almennt er það þannig í dag að við erum með 19 til 20 sjúklinga á þeim deildum og vel yfir 100 prósent nýtingu sem er allt of mikið,“ útskýrði Engilbert Sigurðsson, yfirlæknir á geðsviði Landspítalans, í viðtali við Morgunblaðið. „Eins er oftast gríðarleg pressa á að útskrifa fólk.“
Nauðungavistunarrými eru mun færri hér á landi en í nágrannalöndum, miðað við höfðatölu. Plássleysi skapar þrýsting á að útskrifa einstaklinga sem fyrst og fólk er frjálst ferða sinna þótt það sé ekki heilt heilsu. Eftirlit er síðan mismikið og oft og tíðum ansi takmarkað.
Í viðtali við Heimildina sagði Alma Möller heilbrigðisráðherra alvarlegan vanda blasa við í geðheilbrigðismálum. „Annars vegar er það skortur á legurýmum og björgum hjá geðdeild Landspítalans, þar sem eru of fá pláss. Síðan þarf líka að taka til hendinni þegar kemur að húsnæði réttar- og öryggisgeðdeildar,“ sagði hún. „Hins vegar er það skortur á úrræðum og þjónustu við einstaklinga sem eru metnir hættulegir, og hafa brotið af sér en ýmist metnir sakhæfir eða ósakhæfir.“
Geðlæknir sem ræddi við manninn sama dag og hann var handtekinn sagði varla heila brú hafa verið í orðum hans. Ákæruvaldið fór fram á það að hann yrði sakfelldur fyrir tvöfalt manndráp af ásetningi en Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari hvatti dómara til að líta frekar til varakröfu ákæruvaldsins um að vista Alfreð á réttargeðdeild. Var þetta í ljósi þess sem fram hefði komið um alvarleg geðræn veikindi hans. „Það verður að draga lærdóm af þessu og hlúa að geðheilbrigðismálum í landinu. Þetta er eitthvað sem má ekki endurtaka sig,“ sagði hún.
Skylda okkar að hlusta og bregðast við
Samfélagið ber ekki ábyrgð á því þegar einstaklingar svipta aðra lífi. Enginn ber ábyrgð á ofbeldi nema sá sem beitir því. Og það er ekki ásættanlegur fórnarkostnaður að barn láti lífið til að samfélagið læri af því og bregðist við.
Samfélagið ber hins vegar ábyrgð á því að grípa fólk sem er í vanda statt. Og þar hefur það brugðist. Oftar en hér er talið.
Í raun er sama hvar ber niður, allir jaðarsettir hópar eru undir. Samfélagið bregst fólki með geðsjúkdóma, fíknivanda, fólki sem býr við ofbeldi og börnum sem búa við ofbeldi og ótryggar aðstæður. Öll þessi kerfi eru vanfjármögnuð, vanmáttug og illa í stakk búin til að grípa fólk í alvarlegum vanda. Ástæðuna má rekja til forgangsröðunar stjórnvalda, sem búa þó yfir þeirri vitneskju að sparnaður í velferðar- og heilbrigðismálum getur reynst afar dýrkeyptur.
Það er ekki hægt að vita það fyrirfram hvenær veikur maður fremur voðaverk, hvenær heimilisofbeldi endar með andláti eða hvenær barn sem hefur búið við ofbeldi og ótryggar aðstæður alla tíð missir tökin á sjálfum sér með skelfilegum aðstæðum, en það er vitað að hættan er til staðar.
Og aðstandendur senda frá sér hvert ákallið á fætur öðru.
„Það á ekki nokkur manneskja að þurfa að jarða barnið sitt. Eða að þurfa að horfa á nafn þeirra ritað á kross á leiði. Það er svo rangt.“
Móðir 10 ára gamallar stúlku, Kolfinnu Eldeyjar Sigurðardóttur, sem fannst látin við Krýsuvíkurveg. Faðir stúlkunnar bíður dóms.
Athugasemdir (2)