Er Trump Pétur 3. Rússakeisari?

Trump Banda­ríkja­for­seti snýr ger­sam­lega við blaði Banda­ríkj­anna varð­andi Úkraínu. Höf­um við nokk­urn tíma séð ann­að eins?

Er Trump Pétur 3. Rússakeisari?
Trump 1. og Pétur 3. áttu það sameiginlegt að vilja hvaðeina gera til að geðjast átrúnaðargoðum sínum: Pútin og Friðriki mikla. Mynd: wikipedia - Samsett / Heimildin

Friðrik Prússakóngur var í úlfakreppu. Hann hafði hafið sjö ára stríðið staðráðinn í að sýna hvað hann væri mikill kall  og að Prússar væru menn með mönnum í hópi stórvelda í Evrópu. Og í leiðinni hugðist hann koma höndum yfir námur og náttúruauðlindir í Slesíu.

En viti menn, þetta fór allt í handaskolum.

Herir hans voru rassskelltir í hverri orrustunni á fætur annarri og það af Rússum af öllum mönnum!

Tugþúsundir ungra Prússa lágu nú og rotnuðu í moldinni, jafnmargir eða fleiri álpuðust um limlestir. Dómgreind Friðriks sjálfs reyndist duga til lítils annars en berja bumbur og semja hergöngulög.

Nú var svo komið að Rússar höfðu náð höfuðborg hans, Berlín. Austurríkismenn sátu Slesíu. Prússneska ríkið var á hvínandi kúpunni og þjóðargjaldbrot blasti við.

Friðrik íhugaði oftar en einu sinni  að svipta sig lífi, svo illa horfði.

En þá  eins og hendi væri veifað  þá breyttist allt.

Allt breyttist

Nýr keisari kom til valda í Rússlandi og einmitt þegar sá ungi maður hefði getað staðið yfir höfuðsvörðum Friðriks, þá lét hann stöðva heri sína og kalla þá til baka.

Og ekki bara kalla þá til baka, heldur gekk hinn nýi Rússakeisari í bandalag með Friðriki.

Rússneskar hersveitir, sem höfðu átt bara lokahöggið eftir gegn Prússum, þær gengu nú beinlínis í lið með leifunum af herjum Friðriks og hjálpuðu þeim að hrifsa námurnar í Slesíu frá furðu lostnum Austurríkismönnum.

Hafi stríðsgæfan einhvern tímann snúist, þá var það í þetta sinn.

En þá er í rauninni ekki hægt að tala um stríðsgæfu, því það var ekki árangur á vígvöllunum sem réði því að Friðrik vann nú mjög óvænt þetta stríð.

Og það voru ekki dómgreind hans og snilli sem ollu því að allshugar fegnir landar hans kölluðu hann upp frá þessu Friðrik mikla  nei, hvorugt af þessu var ástæðan, heldur bara það að þessi nýi keisari tók við völdum í helsta ríki andstæðinganna og leit á það sem sitt helsta metnaðarmál í lífinu að flaðra upp um Friðrik.

Og hringsneri herjum og stjórnkerfi Rússa vegna þess.

Af eintómum sleikjugangi við einræðiskóng óvinanna.

Höfum við nokkurn tíma séð annað eins?

Sjö ára stríðið

Þangað til kannski núna árið 2025, þegar forseti Bandaríkjanna gerir sig skyndilega líklegan til að ganga beinlínis til liðs við Rússlandsforseta í innrásarstríði hans gegn Úkraínu.

Og áttu þó Bandaríkin og Rússland að heita svarnir fjendur á flestum sviðum, rétt eins og Prússland og Rússland á 18. öldinni.

Baksvið hins svonefnda sjö ára stríðs voru eins og oft áður átök stórvelda í Evrópu. Ýmislegt vakti fyrir þeim.

Prússland vildi gera sig gildandi sem helsta ríki hins sundraða Þýskalands og þráði að komast í hóp alvöru stórvelda í álfunni.

Austurríki Habsborgaranna vildi treysta sig í sessi í Mið-Evrópu.

Frakkland Bourbon-kónganna vildi sporna við uppgangi þýskumælandi stórveldanna og breiða yfir hnignun sína.

Bretland vildi fyrst og fremst hafa frítt spil á heimshöfunum.

Og Rússland vildi fá að teygja sig lengra inn í Evrópu og mala undir sig bæði Pólland og Úkraínu.

Dóttir Péturs mikla

Stríðið hófst 1756 og var reyndar barist víða um heim, þar sem evrópsku stórveldin höfðu hagsmuni, en það sem hér skiptir máli er að í Mið-Evrópu fór Prússland brátt mjög halloka fyrir Rússlandi.

Það voru hinum gustmikla Prússakóngi Friðriki gífurleg vonbrigði enda hafði hann talið sig eiga í fullu tré við hið heldur feyskna Rússaveldi sem ekki hefði jafnað sig síðan Pétur mikli dó 1725.

Friðrik, sem var frægt karlmenni, gat náttúrlega ekki tekið Rússland hátíðlega undir stjórn konu en Elísabet nokkur hafði verið þar keisaraynja síðan 1741.

Gilti einu þótt Elísabet væri dóttir Péturs mikla.

Svo fór þó að Rússar sigruðu Prússa í hverri orrustunni á fætur annarri á prússneskri eða pólskri grund.

Það var aðeins heimskuleg hegðun rússnesku hershöfðingjanna eftir helstu bardagana sem kom í veg fyrir að Rússar brytu snemma undir sig allt Prússland.

En svo var þó komið í desember 1762 að endanlegur ósigur blasti við Prússum. Friðrik var kominn á vonarvöl.

En þá dó Elísabet keisaraynja.

Þýskur strákur kallaður til Rússlands

Hún átti engin börn svo Pétur, systursonur hennar, hafði verið útnefndur ríkisarfi 1742. Pétur var þá 14 ára og hafði aldrei til Rússlands komið.

Pétur mikli hafði lagt mikið upp úr að tengjast valdaættum á Vesturlöndum og því gefið Önnu, dóttur sína, hertoganum í Holstein, héraði suður af Danmörku. Mestu skipti raunar að hertoginn sá átti tilkall til ríkis í Svíþjóð sem Pétur mikli hugðist nýta sér, þó minna yrði úr en til stóð.

Altént, í Holstein ólst Pétur Önnuson upp sem hver annar þýskur aðalsstrákur.

Og hann fór heldur ekkert að líta á sig sem Rússa þótt hann væri kallaður til St. Pétursborgar og gerður ríkisarfi. Satt að segja fyrirleit hann Rússa en dáðist hins vegar mjög að Friðriki Prússakóngi og fór ekkert í felur með það.

Og þegar Elísabet, móðursystir hans, dó og hann var krýndur keisari Rússlands lét hann það verða sitt fyrsta verk að stöðva í einu vetfangi hernað Rússa gegn Prússum og ganga síðan í lið með Friðriki eins og fyrr kom fram.

Þessi algjöru umskipti á stefnu Rússa í sjö ára stríðinu snerust ekki á nokkurn hátt um pólitík eða hugmyndafræði eða hagsmuni. Mikilvægt er að hafa það á hreinu.

Þvert á móti má líta á ákvörðun Péturs 3. í janúar 1763 sem sönnun þess að framganga stórvelda snýst EKKI alltaf um ískalda hagsmuni.

Rússland fórnaði eigin hagsmunum

Það hefði nefnilega vitaskuld verið Rússum sem stórveldi mjög til hagsbóta ef þeir hefðu lagt austurhluta Prússlands endanlega undir sig eins og allt stefndi í.

Það hefði áreiðanlega orðið verra fyrir Evrópumenn almennt og sérstaklega til langframa en það er önnur saga.

Þessum miklu hagsmunum Rússa fórnaði Pétur 3. sem sagt í viðleitni sinni til að framfylgja vilja átrúnaðargoðsins og fá svolítið hrós í hnappagatið frá Friðriki.

En þótt leiðtogi eins stórveldis hafi í þetta sinn snúist algjörlega gegn bandamönnum sínum og hagsmunum síns eigin ríkis og eingöngu, já, eingöngu vegna persónulegrar aðdáunar og undirgefni Péturs 3. gagnvart Friðriki, þá er slíkt vissulega mjög sjaldgæft.

Ekki síst þegar stórveldið sem lætur undan er svo miklu öflugra en hitt rétt eins og raunin var 1762.

Það er eiginlega ekki fyrr en núna að við höfum fyrir augunum annað dæmi um að leiðtogi risaveldis snúist af algjörlega persónulegum ástæðum til fylgis við annað  og aftur mun veikara!  veldi, líkt og Bandaríkin hafa nú snúist á sveif með Rússlandi.

Og fyrir því er alls engin sjáanleg eða skiljanleg ástæða nema dýrkun Donalds Trump á Vladimír Pútin.

Sannarlega lifum við sögulega tíma.

Dapurleg eftirmál

Það eru svo dapurleg eftirmál við þessa sögu og enn koma Þýskaland og Rússland við sögu.

Árið 1941 fyrirskipaði Adolf Hitler, foringi Þjóðverja, hersveitum sínum að ráðast inn í Sovétríkin, arftaka ríkis Katrínar miklu, Péturs 3. og rússnesku Rómanovanna. Með því vildi Hitler tryggja sameinuðu Þýskalandi, arftaka Prússlands, algjör yfirráð í Evrópu.

Friðrik mikli var einmitt eitt helsta átrúnaðargoð Hitlers.

Innrásin gekk afar vel til að byrja með og 1942 virtust Þjóðverjar hafa öll ráð Rússa (og Úkraínumanna, Pólverja og fleiri þjóða) í hendi sér.

Þá fór að halla undan fæti og árið 1944 mátti öllum vera ljóst að Þýskaland væri dæmt til að tapa. Ekki kom þó til mála í augum Hitlers að gefast upp og hann vísaði oft til þess að ekki hefði Friðrik mikli gefist upp þá illa horfði í sjö ára stríðinu.

Þvert á móti hefðu hann og Prússar sýnt fádæma þolgæði þótt allt virtist löngu tapað, öll sund lokuð og — ótrúlegt nokk! — á endanum náð að snúa vörn í sókn.

Og þannig skyldu Þjóðverjar einnig verjast þótt vart stæði steinn yfir steini í ríki þeirra er komið var fram á árið 1945.

Von Hitlers

Hitler vonaðist til þess í fullri alvöru að hörð vörn Þjóðverja myndi á endanum leiða til þess að raknaði upp úr bandalagi óvinaþjóðanna. Jafnvel að einhverjar þeirra snerust að lokum til liðs við Þjóðverja eins og Rússar höfðu gert 1762 þegar Pétur 3. sendi her sinn til að hjálpa Prússum að reka Austurríkismenn frá Slesíu.

Hitler hélt í þessa von sína fáránlega lengi.

Þegar Franklin Roosevelt Bandaríkjaforseti andaðist 12. apríl 1945 trúði hann því að nú væri runnin upp sama örlagastundin og þegar Elísabet keisaraynja Rússlands dó og arftaki hennar sneri við blaðinu.

Varaforsetinn Truman myndi nú ábyggilega stöðva stríðsreksturinn gegn Þjóðverjum líkt og Pétur keisari 3. hafði gert.

Það leið þó ekki á löngu uns sú von brást. Í huga Trumans kom auðvitað ekki til mála að útkljá ekki stríðið  enda dáði hann ekki Hitler líkt og Pétur 3. hafði dáð Friðrik mikla.

Og Hitler hafði ekki áttað sig á að „kraftaverkið“ sem bjargaði Prússum 1762 snerist ekki um vígasnilld Friðriks konungs eða þolgæði Þjóðverja, heldur um duttlunga eins manns.

Péturs 3. Fyrir því voru Þjóðverjar löngu búnir að loka augunum í taumlausri aðdáun sinni á Friðriki mikla.

Allt fór sem fór.

Kjósa
6
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • SIB
    Sigurður I Björnsson skrifaði
    Takk fyrir að rifja upp þetta gleymda stríð. Ég verð að viðurkenna að þessu var ég búinn að gleyma, enda ekki lesið um sjö ára stríðið á annan áratug. Sagan hefur aftur og aftur þá áráttu að spegla sjálfa sig, þó hún sé aldrei alveg eins.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Frá endurlífgun á bráðamóttökunni í umönnun leikskólabarna
4
ViðtalÍ leikskóla er álag

Frá end­ur­lífg­un á bráða­mót­tök­unni í umönn­un leik­skóla­barna

Líf Auð­ar Ólafs­dótt­ur hjúkr­un­ar­fræð­ings og fjöl­skyldu tók stakka­skipt­um síð­asta haust þeg­ar hún sagði skil­ið við Bráða­mót­töku Land­spít­al­ans eft­ir átta ára starf og hóf störf á leik­skóla barn­anna sinna til að koma yngra barn­inu inn á leik­skóla. „Ég fór úr því að vera í end­ur­lífg­un einn dag­inn yf­ir í að syngja Kalli litli kóngu­ló hinn dag­inn.“

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár