Ég er að fara í tíðasöng í Dómkirkjunni sem er þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagsmorgna klukkan korter yfir níu. Þá eru sungnar tíðir. Ef það er ekki gert þá hættir jörðin að snúast. Þetta er gömul kenning. Þeir gerðu þetta alltaf í kaþólsku og gera enn. Alltaf í klaustrunum á þriggja tíma fresti, því annars hættir jörðin að snúast.
Þetta er búið að vera núna nokkur ár í Dómkirkjunni sem ég fer og syng. Við erum þarna nokkrir. Það er bara vandinn þar að það er ekkert bílastæði. Það hefur komið upp sú hugmynd að vera með hestastein þarna niðri við Dómkirkju þannig að menn geti komið ríðandi. Því það er búið að loka algjörlega að öllu.
Ég hef verið trúaður alla ævi. Ég les Biblíuna á kvöldin og svona og fer með vissar bænir líka. Ég segi nú alveg eins og Karl biskup. Hann var spurður: „Hefur þú fundið Krist?“ – „Nei,“ sagði Karl. „Ég hef nefnilega aldrei týnt honum.“
Ég er búinn að vera organisti á Selfossi. Nú er ég gamalmenni svo ég á sumarbústað hér í Reykjavík. Þegar ég flyt á Selfoss er ég tvítugur kennari. Ég kunni svolítið að spila þá.
Mér var fengið herbergi hjá sóknarnefndarformanninum. Þá komst ég ekki í herbergið strax því þar var þýskur orgelsmiður sem var að setja upp orgelið í kirkjunni. Sóknarnefndarfomaðurinn gaf mér lykil og sagði: „Þú mátt fara að æfa þig.“ Þarna komst ég á pedalinn. Ég hafði lært á píanó sem barn en ekki orgel. Þetta varð til þess að ég hélt áfram að spila og æfa mig og varð organisti.“
Athugasemdir (1)