Diljá Mist Einarsdóttir sækist eftir því að verða næsti varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Nýr varaformaður verður kjörinn á landsfundi flokksins sem fram fer um helgina. Jens Garðar Helgason hefur einnig tilkynnt að hann sækist eftir embættinu.
Diljá Mist tilkynnti í gær að hún myndi í kvöld, miðvikudag, halda fund með stuðningsfólki sínu í Grósku. Hún hefur um hríð verið orðuð við framboð til varaformanns Sjálfstæðisflokksins og þótti sú tilkynning gefa því byr undir báða vængi.
Á samfélagsmiðlum í dag tilkynnir hún um framboð sitt.
„Heimurinn er að breytast hratt fyrir augum okkar og í því felast bæði áskoranir og mikil tækifæri. Grunngildi Sjálfstæðisflokksins, frelsi, samkennd og sköpunarkraftur hafa gert Ísland að því landi sem við elskum. Sjálfstæðisflokkurinn stendur á krossgötum. Við þurfum að sjá til þess að þessi gildi haldi áfram – að skapa tækifæri og samfélag þar sem allir geta blómstrað,“ segir Diljá í myndskeiði sem hún birtir bæði á Instagram og Facebook.
Núverandi varaformaður, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, mun ekki gefa kost á sér áfram. Á landsfundinum verður einnig kjörinn nýr formaður Sjálfstæðisflokksins en þær Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir eru báðar í framboði.
Diljá Mist heffur sinnt ýmsum verkefnum á vettvangi Sjálfstæðisflokksins frá 17 ára aldri. Hún hefur gegnt stöðu ritara og varaformanns Heimdallar, annars varaformanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, setið í stjórn hverfafélags Sjálfstæðisflokksins í Grafarvogi, setið í stjórn Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins og átti sæti í endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar. Hún situr sem þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi norður. Diljá hefur sem þingmaður tekið sæti í efnahags- og viðskiptanefnd og utanríkismálanefnd, auk þess að gegna embætti fjórða varaforseta Alþingis. Hún situr nú í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES, og þingmannanefnd Íslands og ESB.
Athugasemdir (1)