Bandaríkjaforseti, Donald Trump, kallar forseta Úkraínu, Volodymyr Zelensky, „einræðisherra“.
Bandaríkin hafa veitt Úkraínu fjárstuðning og vopn frá upphafi allserjarinnrásar Rússa fyrir þremur árum, en Trump hefur, frá því hann tók við embætti, breytt stefnunni skyndilega og hafið beinar viðræður við fulltrúa Rússlands. Á sama tíma hrósar utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, Trump í hástert og kallar Zelensky „aumkunarverðan“. Nú bætir Trump um betur og herðir á fordæmingunni á forseta Úkraínu, sem þola hefur þurft stöðugar árásir í þrjú ár.
„Einræðisherra án kosninga, Zelensky ætti að hafa hraðar hendur, annars á hann ekki eftir að eiga neitt land eftir,“ skrifaði Trump á Truth Social vettvang sínum um Úkraínuforseta. Fimm ára kjörtímabil Zelenskys rann út í fyrra en ekki hafa verið haldnar kosningar vegna innrásar Rússa, þar sem úkraínsk lög gera ekki ráð fyrir kosningum í stríðsástandi.
Á þriðjudag hélt Trump blaðamannafund þar sem hann gagnrýndi Zelensky, endurtók nokkrar af frásögnum Kremlar um átökin og kallaði eftir því að stríðinu lyki. Zelensky sakaði Trump um að gleypa við rússneskum „rangfærslum“, meðal annars fullyrðingum Trump um að Kænugarður bæri ábyrgð á því að hafa „hafið“ stríðið, og að hann drægi lögmæti Zelensky í efa.
„Hann neitar að halda kosningar, nýtur lítillar fylgis í úkraínskum skoðanakönnunum og eina sem hann var góður í var að spila á (Joe) Biden eins og fiðlu,“ skrifaði Trump um Zelensky á Truth Social.
„Í millitíðinni erum við að semja um að binda enda á stríðið við Rússland, eitthvað sem allir viðurkenna að aðeins 'TRUMP' og stjórn Trumps geti gert,“ bætti Trump við í færslunni. Leið hans í samningaviðræðum við Rússa hefur verið að fara fram hjá Evrópuþjóðum og Úkraínu, gefa eftir í upphafi kröfur Úkraínu um inngöngu í Nató og endurheimt hertekins landsvæðis og nú að fallast á söguþráð Rússa um að stríðið hafi verið Úkraínu og Nató að kenna.
Zelensky var kjörinn árið 2019 til fimm ára en hefur haldið völdum samkvæmt herlögum sem voru sett eftir innrás Rússlands. Vinsældir hans hafa dalað eitthvað, en samkvæmt Kyiv International Institute of Sociology (KIIS) hefur hlutfall Úkraínumanna sem treysta honum aldrei fallið undir 50 prósent síðan átökin hófust. Trump vitnaði til þess í gær að Zelensky hafi aðeins 4% stuðning í Úkraínu. Engin slík skoðanakönnun hefur litið dagsins ljós og er heimildin fyrir henni talin vera Rússar.
Þá vakti athygli í síðustu viku að Trump fór fram á að Úkraína veitti Bandaríkjunum aðgang að sjaldgæfum málmum á landi þeirra, en Zelensky neitaði að gangast við kröfunum.
Athugasemdir (1)