Miðvikudaginn 9. október 2024 var stór dagur í lífi ljósvistar á Íslandi. Þennan dag bauð þáverandi innviðaráðherra Svandís Svavarsdóttir til fundar[1] um ljósvist og tilkynnti að drög að breytingum á byggingarreglugerð með tilliti til ljósvistar væri á leið í opna samráðsgátt stjórnvalda, sem og gerðist samdægurs og fékk númerið S-204/2024.[2] Reglugerðardrögin voru liður í aðgerðum stjórnvalda samkvæmt þingsályktun um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024-2038[3] ásamt meðfylgjandi fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028 sem samþykkt var á Alþingi í júní síðastliðnum. Þar er lögð áhersla á að grunngæði íbúðarhúsnæðis verði höfð að leiðarljósi í allri hönnun, þar á meðal dagsljós.
Ljósvist er orð sem notað er yfir dagsljós og raflýsingu, þar með talið ljósmengun og tekur á eiginleikum ljóss svo sem ljósmagni, ljóslit, jafnleika ljóssins, flökti, glýju o.þ.h. Ljósvist er einn af umhverfisþáttunum sem fellur undir innivist ásamt til dæmis hljóðvist, loftgæðum, hita og raka. Innivistarþættirnir hafa misjöfn áhrif á okkur. Til dæmis hafa hiti, ljós og loftgæði áhrif á frammistöðu. Í mesta kuldanum á veturna er rakastig í íbúðum alltof lágt á Íslandi og því getur það valdið húð- og slímhúðaróþægindum. Útsýni sem nær langt dregur úr streitu og svo hefur hljóðvist til dæmis áhrif á einbeitingu.
Umhverfisþættir ljósvistar
Ljósvistin er ekki síður mikilvæg heldur en aðrir umhverfisþættir. Árið 2000 var örlaga ár í sögu ljóssins á heimsvísu. Þá birtust tvær ritrýndar greinar um að búið væri að finna hvaða frumur það eru í auganu sem nema ljós og hafa áhrif á dægursveifluna. Svo fór rannsóknasamfélagið að velta því fyrir sér hvað við ættum að gera við þessa þekkingu og þreifa sig áfram með ýmsar tilgátur. Úr því varð til hafsjór rannsókna og ritrýndra greina sem meðal annars leiddu til þess að árið 2016 var farið að skrifa að arkitektúr ætti að taka mið af áhrifum ljóss á dægursveiflur til að bæta svefngæði og svefnlengd. Árið 2019 kom fram einföld þumalputtaregla um að útsetja sig fyrir björtum dögum og dimmum nóttum, ekki einungis fyrir dægursveiflurnar heldur líka fyrir skap, lærdóm og svefn.
Á árunum 2018 til 2021 komu fram margar ritrýndar greinar sem drógu fram áhrif ljóss á dægursveiflur, þokuþreytu (e. jet lag), afköst, svefn, hormónastjórnun, lærdóm, minni og skap. Það var svo mikil áhersla á áhrif ljóss á heilsu á þessum árum að árið 2021 fann einn fræðimaður sig knúinn til að benda á að ljós sé ennþá fyrir sjón og sýnileika, nú þurfi bara líka að huga að heilsunni, við vorum farin að tapa áttum og einungis hugsa lýsingu út frá heilsu. Árið 2022 komu svo út ljósaráðleggingar yfir sólahringinn sem styðja best við líkamsstarfsemi, svefn og vöku. Þær voru byggðar á nýrri ljósaeiningu sem ber enska heitið Melanopic Equivalent Daylight Illuminance (EDI) og er byggð á ljósrófi dagsljóss. Meðmælin voru að lágmarki EDI ≥ 250 lx á daginn, ef dagsljós er til staðar skal það notað en þar sem dagsljós er af skornum skammti skal notast við ljós með ljósróf sem svipar til ljósrófs dagsljóss. Á kvöldin í að minnsta kosti þrjá klukkutíma fyrir háttatíma skal draga úr lýsingu og lýsingin vera eins heit á litinn og hægt er með EDI ≤ 10 lx. Á nóttunni skal svefnumhverfið vera eins dimmt og hægt er, EDI ≈ 1lx. Árið 2022 benti annar fræðimaður á að þessi áhrif ljóss á heilsuna væru ekki alltaf til góðs.
Það að hafa áhrif gengur í báðar áttir til góðs og ills og við þurfum að vera meðvituð um það. Það þýðir til dæmis að ef við erum að byggja íbúðir sem fá mjög takmarkað dagsljós þá erum við að byggja íbúðir sem hafa slæm áhrif á heilsuna okkar, við getum ekki bara flaggað íbúðunum á efri hæðum sem styðja við heilsuna, við þurfum að gangast við hinum sem sitja eftir í skugganum.
„Ljósvist er orð sem notað er yfir dagsljós og raflýsingu, þar með talið ljósmengun og tekur á eiginleikum ljóss svo sem ljósmagni, ljóslit, jafnleika ljóssins, flökti, glýju o.þ.h.“
Áhrif ljóss á heilsu
Ljós hefur áhrif á heilsuna okkar eins og svo margt annað, t.d. matarræði, hreyfing, svefn og útivera. Mikil þekking liggur fyrir á því hvað er gott fyrir okkur og hvað er slæmt fyrir okkur. Þessi þekking er þekkt í samfélaginu og við getum valið okkur að borða hollt mataræði, hreyfa okkur, fara snemma í rúmið og vera úti, helst í náttúrunni og ferska loftinu okkar. Ef við hlúum ekki að forvörnum í formi umhverfis, næringar, hreyfingar og svefns þá kostar það okkur heilsuna og það er dýrt fyrir okkur sem manneskjur hvort sem það er andlega eða líkamlega heilsan sem verður fyrir barðinu. Einnig kostar það samfélagið okkar að standa undir vinnu við að lagfæra það sem betur hefði mátt fara í hönnuninni. Það hvernig ljós hefur áhrif á heilsuna er ekki eins vel þekkt í samfélaginu eins og mataræði og hreyfing og því er auðveldara að selja og kaupa köttinn í sekknum í þeim efnum.
Meginhluta þeirra íbúða sem verið er að byggja í dag má skipta í tvo hópa. Það er hópurinn sem fær útsýnið, góðu innivistina og forsendur til að lifa heilbrigðu lífi í sínum íbúðum. Í þessum íbúðum er góð ljósvist þar sem dagsljós hefur greiðan aðgang inn í íbúð íbúum hennar til gæfu. Svo er það hinn hópurinn sem situr eftir í skugganum af góðu íbúðum og fá ekki forsendur til að lifa heilbrigðu lífi í sínum íbúðum. Í skugganum er nefnilega ekki góð ljósvist og íbúar þeirra íbúða finna fyrir áhrifum til langs tíma. Þau ykkar sem hafa búið í dimmri kjallaraíbúð þekkið kannski áhrifin af því að hafa lifað í slæmri ljósvist.
Eins og staðan er í dag eru flestar íbúðir ekki byggðar með heilsu íbúa að leiðarljósi út frá birtu. Markaðurinn stýrir framboði íbúða og því selst allt sem til er þegar eftirspurnin er mikil, algjörlega óháð gæðum íbúðanna. Þegar hægist á eftirspurn myndast ekki fleiri möguleikar fyrir íbúðarkaupendur, því aðeins standa eftir þær afgangsíbúðir sem ekki seldust í síðustu uppsveiflu. Niðurstaðan er að núverandi ástand virkar ekki.
Við byggjum því það er þörf, húsnæðisskortur þýðir að það er enn meiri þörf fyrir aukið húsnæði. Það er ekki hægt að láta þar við sitja. Húsnæði sem er einhvers virði sér til þess að skapa gott umhverfi svo að íbúar fái tækifæri til að þrífast og dafna inni í húsnæðinu sem og í umhverfi þess. Það er ekki umhverfisvænt að byggja húsnæði án rauverulegs virðis og því þarf að leggja áherslu á gæði húsnæðis, innivist og þar með talið ljósvist.
Niðurstaða
Þann 9. október sl. vaknaði von um að framundan lægi fyrir að við munum hætta að hunsa hættuna við að þétta byggð í óhófi. Að við værum í nánustu framtíð að fara að þétta byggð sem býður upp á lágmarks gæði og sem styður við lýðheilsu. Dagurinn 9. október er stór fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta sinn síðan þétting byggðar byrjar af alvöru hér á landi að stjórnvöld sýna ábyrgð með því að leggja til drög að breytingu á byggingarreglugerð til að bæta ljósvist í byggingum á Íslandi. Af hverju er byggingarreglugerðin svona mikilvæg? Jú það er vegna þess að við dveljum mestan hluta af tíma okkar innandyra og því þarf að tryggja heilsusamlegt umhverfi á heimilinu sem og í öðrum byggingum.
Bjarminn af þessum stóra degi dofnaði við tilkynningu um að Bjarni Benediktsson óskaði eftir heimild forseta til að rjúfa þing fimm dögum eftir að drög að breytingum reglugerðarinnar kom í samráðsgátt, en vonin var samt að mögulega mundi þetta takast fyrir næstu kosningar sem boðaðar eru í lok nóvember. Þangað til að Svandís Svavarsdóttir tilkynnti að VG mundu ekki taka þátt í starfsstjórninni. Þá stendur eftir tillaga að breytingu á byggingarreglugerð sem lá í samráðsgátt til 23. október og eftir það byrjar ævintýrið upp á nýtt að minnsta kosti tímabundið með Sigurði Inga Jóhannessyni sem starfandi ráðherra málaflokksins.
Það ætti að þykja eðlilegt að sá innviðaráðherra sem tekur við keflinu taki vel á móti verkefninu að breyta byggingarreglugerð til hins betra og því næst mætti skoða hvernig skipulagið getur stutt við komandi ný viðmið í byggingarreglugerð.
Tilvísanir
Greinin birtist fyrst í Vísbendingu, vikurits um viðskipti og efnahagsmál. Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.
Athugasemdir