„Orð þingmanns hafa meiri vigt heldur en orð ritstjóra á eigin fjölmiðli úti í bæ. Þess vegna er það verulegt áhyggjuefni þegar þingmenn eru farnir að taka undir málflutning sem er beinlínis til þess fallinn að auka jaðarsetningu trans fólks í samfélaginu. Það er alveg klárt, að mínu mati, að þessi grein hún gerir það.“
Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar og stjórnarmaður í Samtökunum '78, í samtali við Heimildina. Hann tjáir sig þar um grein sem Snorri Másson, nýkjörinn þingmaður Miðflokksins, skrifaði í Morgunblaðið í dag. Í henni gerir Snorri kæru Samtakanna '78 á hendur Eldi Smára Kristinssyni að umfjöllunarefni sínu. En samtökin hafa kært Eld til lögreglu fyrir hatursorðræðu í garð trans fólks.
Segir Snorra fara með rangt mál
Snorri segir í grein sinni að Samtökin '78 njóti verulegs fjárstuðnings ríkisins og beiti sér gegn Eldi, sem bauð sig fram fyrir Lýðræðisflokkinn í nýafstöðnum alþingiskosningum. „Vitaskuld er það fréttnæmt þegar samtök, sem Alþingi fjármagnar, einsetja sér að sækja frambjóðanda til saka sem gagnrýnir hugmyndafræði samtakanna og gagnrýnir þingið um leið,“ skrifar Snorri.
Jóhannes Þór segir að Snorri fari þarna rangt með. Það sé „furðulegt að sjá þingmann fara með slík fleipur“ og komi fram í greininni.
„Hann setur þetta í samhengi við kosningarnar, að kæran hafi komið fram í nóvember. Það er ekki rétt, kæran er lögð fram síðastliðið sumar. Það er síðan algjörlega í höndum lögreglu hvenær hún er tekin fyrir og Samtökin '78 hafa ekkert með það að gera.“
Hann tekur einnig fram að Samtökin '78 hafi aldrei ýtt undir umræðu um Eld Smára. „Hann opinberaði þessa kæru algjörlega sjálfur og það voru ekki Samtökin '78 sem vöktu athygli á henni sérstaklega.“
Fleiri ummæli en þessi í kærunni
Jóhannes Þór segir enn fremur að honum þyki áhugavert að Snorri skyldi velja einmitt þessi ummæli Elds til að vísa í í greininni:
„Alþingi heldur að karlmenn geti fætt börn. Þessi lög eru í bága við bæði barnasáttmála SÞ og í bága við úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu er varðar rétt barns til þess að þekkja líffræðilegan uppruna sinn. Manneskjur sem fæða börn kallast konur. Konur sem fæða börn eru alltaf líffræðilegar mæður barna sinna. Alveg óháð hvað vanstillt Alþingi segir,“ skrifaði Eldur Smári á Facebook í apríl.
Jóhannes Þór segir að í kærunni komi fram fleira en þetta. „Það eru þó nokkur og fleiri ummæli sem eru talin upp í kærunni. Sjö eða átta, minnir mig.“
Kom honum á óvart
Jóhannes Þór er ekki Miðflokknum ókunnugur en hann var um langt skeið aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, bæði í ráðherratíð hans og eftir að Miðflokkurinn var stofnaður.
Jóhannes Þór segir að það valdi honum verulegum áhyggjum að þingmaður taki upp hanskann fyrir Eld í þessu máli. Aðspurður segir hann afstöðu Snorra koma sér á óvart. „Að þingmenn, hvort sem þeir eru í þessum flokki eða öðrum, skuli hoppa á þennan vagn. Að mínu mati þá lýsir það ákveðnu skilningsleysi á málefnum trans fólks í íslensku samfélagi.“
„Það er löngu þekkt staðreynd að ummæli sem eru viðhöfð um sérstaklega jaðarsetta minnihlutahópa í samfélaginu – þau geta haft veruleg áhrif. Bæði á skoðanir fólks, á stöðu þessara hópa og þau geta jafnvel – séu þau látin óáreitt – leitt til ofbeldis. “
Jóhannes Þór segir að Samtökin '78 telji sér skylt að sporna gegn þeirri þróun sem slík orðræða geti leitt til. „Eitt af því sem við teljum að sé rétt að gera er að láta fólk bera ábyrgð á því sem það segir þegar við teljum og metum það sem svo að það séu ummæli sem geta haft áhrif af þessum toga.“
Hryggir hann meira en orð fá lýst
Jóhannes Þór nefnir að þingmenn séu fulltrúar alls almennings í landinu, líka trans fólks. „Þess vegna ber þingmönnum að taka þessa skyldu alvarlega – að íhuga orð sín og afleiðingar þeirra og áhrif. Áður en þau birta þau.“
Á Facebook skrifar Jóhannes að það hryggi hann meira en orð fái lýst ef þingmenn Miðflokksins ætli að taka sér opinbera stöðu við hlið Elds Smára og skoðanabræðra hans. En greinin gefi það einmitt til kynna.
„Samtökin '78 eru ekki hluti ríkisvaldsins, né hafa þau neins konar valdastöðu í samfélaginu. Þau eru þvert á móti samtök fólks sem hefur aldrei verið í valdastöðu í samfélaginu og hefur þurft að berjast fyrir lagalegum réttindum og samfélagslegu samþykki til jafns við aðra í samfélaginu með kjafti og klóm í tugi ára. Sú staðreynd að þú sem alþingismaður birtir þessa grein sýnir svart á hvítu að sú barátta stendur enn yfir,“ skrifar Jóhannes Þór Skúlason.
Athugasemdir