Kerfisbundin vandamál nútímans kalla á miklar breytingar sem velsældarhugsun getur leitt fram lausnir á og sem liggja þvert á ólíka geira samfélagsins. Þær efnahagslegu og hugmyndafræðilegu forsendur sem heimshagkerfið byggir á hafa leitt af sér hnattræn vandamál sem sjást nú best í hlýnun jarðar, vaxandi auðlindaþurrð, hnignun á líffræðilegum fjölbreytileika og auknum ójöfnuði. Hópur alþjóðlegra sérfræðinga skilgreindu níu takmörk jarðarinnar árið 2009 og nú er orðið ljóst að við erum komin yfir sex af þessum mörkum og alveg að komast yfir það sjöunda sem er súrnun sjávar og er alvarlegt mál fyrir fiskveiðiþjóðina Ísland. Tilgangur hugmyndarinnar um velsældarhagkerfi er að skapa forsendur fyrir velsæld borgara og náttúrunnar innan marka jarðarinnar. Nýsamþykktur Sáttmáli framtíðarinnar (e. Pact for the Future) hjá Sameinuðu þjóðunum tekur upp velsældar hugtakið í nokkrum greinum. Velsældarhagkerfi er hugsað sem hagkerfi byggt á sjálfbærri þróun sem stuðlar að réttlátu samfélagi þar sem jöfnuður ríkir og menn og náttúra dafna. Því þarf kerfishugsun með samtvinnun þekkingar sem tengist t.d. umhverfinu og náttúrunni, hagkerfi, viðskiptum og fjármálum og samfélagslegum þáttum þar á meðal menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu.
Velsældarhagkerfið
Árið 2017 skrifaði ég grein um nýja hagræna hugsun sem ég kallaði sældarhagkerfi í Kjarnann, sem nú er almennt kallað velsældarhagkerfi. Eins og fram kom í greininni tók ég þátt í að stofna alþjóðlegt bandalag velsældarhagkerfa (e. Wellbeing Economy Alliance, WEAll) í Pretóríu í Suður Afríku í nóvember árið 2017 og fór uppbygging bandalagsins af stað með krafti árið 2018. Ég var í stjórn bandalagsins og hef verið sendiherra WEAll (e. Wellbeing Economy Ambassador) frá byrjun. Í WEAll samtökunum eru stofnanir, fyrirtæki, frjáls félagasamtök, fræðimenn og einstaklingar sem hafa unnið mikið starf við að byggja upp hugmyndafræðina fyrir velsældarhagkerfi (sjá t.d. Ragnarsdóttir og Parker 2022).
Bandalag ríkisstjórna um velsældarhagkerfi
Árið 2018 var stofnað bandalag ríkisstjórna velsældarhagkerfa (Wellbeing Economy Governments coalition – WEGo) sem hafa velsældarhugsun í sinni stefnumótun. Fyrstu löndin voru Skotland, Nýja Sjáland og Ísland en síðan hafa þrjú önnur ríki bæst í hópinn (Finnland, Wales og Kanada) og verið er að fá ríkisstjórnir annarra landa með í hópinn m.a. með aðstoð OECD. Gaman er að geta þess að þeir þrír frumkvöðlar sem stóðu að stofnun WEGo eru allar konur, Nichola Sturgeon í Skotlandi, Jacinda Ardern á Nýja Sjálandi og Katrín Jakobsdóttir á Íslandi en ég fjallaði um þær þrjár í grein minni hér í Vísbendingu fyrir rúmu ári síðan. Sanna Marin frá Finnlandi varð síðan fjórði kvenþjóðarleiðtoginn til að ganga í WEGo. Einnig er vert að minnast á það að WEGo er þverpólitískt bandalag – þegar þær ríkisstjórnir sem þessir kvenleiðtogar leiddu eru greindar: Nichola Sturgeon leiddi skoska þjóðarflokkinn (e. Scottish National Party) sem er miðju vinstri flokkur en framkvæmd velsældarstefnunnar er fylgt eftir með velsældarvísum (e. National Performance Framework and Indicators) en þessi frammistöðurammi var samþykktur einróma í skoska þinginu. Jacinda Ardern leiddi fyrstu velsældarfjárlögin á heimsvísu árið 2019. Flokkur hennar er verkamannaflokkur en hún var í samstarfi við flokka frá hægri til vinstri í pólitísku litrófi og Katrín Jakobsdóttir leiddi flokka af svipuðu litrófi, eins og kunnugt er. Loks leiddi Sanna Marin þverpólitískt samstarf fimm flokka. Velsældarhugsun er því ekki hægri eða vinstri, heldur er þverpólitísk hugsun fyrir sjálfbæra þróun þjóða.
Velsældarmiðstöðvar
Stofnaðar hafa verið velsældar miðstöðvar (e. WEAll Hubs) í nokkrum löndum í öllum heimsálfum, sem allar hafa enga pólitíska skýrskotun. Í Danmörku var stofnuð miðstöð í vor undir heitinu trivselsøkonomi og á fyrsta opinbera fundinn mættu 1500 manns úr flestum geirum samfélagsins. Stofnfundurinn var einnig studdur af nýrri hugveitu í Danmörku sem ber heitið WELA (e. Wellbeing Economy Lab). Í Noregi og Svíþjóð voru stofnaðar miðstöðvar í haust. Nú stendur yfir undirbúningsvinna við að stofna einnig velsældarmiðstöð á Íslandi.
Velsældarvísar
Árið 2019 voru valdir 39 velsældarvísar fyrir Ísland, eftir undirbúning og vinnu sem ég tók þátt í fyrir hönd Stjórnarráðsins og voru vísarnir kynntir á alþjóðlegum fundi í Háskóla Íslands sama ár og voru samþykktir af ríkisstjórninni árið 2020. Síðan hefur einum velsældarvísi verið bætt við svo þeir eru nú 40 og eru félagslegir, efnahagslegir og umhverfislegir. Stjórnarráðið hefur haldið utan um verkefnin sem tengjast velsældarhagkerfi en Hagstofa Íslands sér um mælingar vísanna fyrir Stjórnarráðið. Í skipuriti Stjórnarráðsins frá í haust er velsældarhagkerfið verkefni forsætisráðuneytisins undir skrifstofu samhæfingar, ásamt Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, Sjálfbærri þróun og þjóðhagsráði. Velsældaráherslur og velsældarvísa má sjá myndrænt á vef Stjórnarráðsins. Sex velsældaráherslur eru sagðar hafa verið í forgrunni við gerð fjármálaáætlunar sl. vor – og eru þær andlegt heilbrigði, öryggi í húsnæðismálum, virkni í námi og starfi, kolefnishlutlaus framtíð, gróska í nýsköpun, og betri samskipti við almenning. Vert er að benda á að OECD heldur utan um gögn um velsæld í ríkjum innan samtakanna, en Ísland er þar ekki enn með.
Velsældarráðstefnur
Árin 2023 og 2024 voru haldnar alþjóðlegar ráðstefnur í Hörpu á vegum Stjórnarráðsins og Landlæknisembættisins undir heitinu Wellbeing Economy Forum. Í bígerð er að halda slíkar ráðstefnur á Íslandi næstu þrjú árin. Þar koma innlendir og alþjóðlegir gestir saman og ræða um velsæld frá ýmsum sjónarhornum. Áherslan er þó mest út frá heilsu, enda er ráðstefnan að mestu styrkt af stórum ESB styrk fyrir rannsóknir á ósmitbærum sjúkdómum, sem frá Íslands hálfu er stýrt innan embættis Landlæknis.
Stefna og áherslur næstu ríkisstjórnar
Í heimi þar sem popúlískar áherslur eru að verða allt of áberandi er mikilvægt að halda velsældarvegferðinni áfram til að ná utan um mestu áskoranir samtímans. Því er æskilegt að næsta ríkisstjórn taki boltann á lofti frá fráfarandi ríkisstjórn og setji metnað í að velsældarhagkerfið á Íslandi vaxi út frá öllum víddum sjálfbærni, sem eru samfélagið, umhverfið og efnahagurinn fyrir velsæld allra borgara og náttúrunnar – enda hefur velsældarhagkerfið verið hugsað til að ná utan um sjálfbærni á heimsvísu, sem og að okkur takist að ná Heimsmarkmiðunum Sameinuðu þjóðanna og auk þess leysa loftslagsvandann.
Hverning velsældarlandið Ísland gæti litið út eftir tvö kjörtímabil, ef 2025 verður árið þar sem farið er af krafti í að byggja upp valsældarsamfélagið, er dregið upp í grein sem ég birti nýlega í Heimildinni. Mín ósk er að næsta ríkisstjórn setji velsældarhagkerfið í stjórnarsáttmálann og vinni að því að verða fyrirmynd annarra þjóða í heiminum.
Heimildir
-
Ragnarsdóttir, K.V. and Parker, J. (2022) Regenerative Wellbeing Economy, in J. Blewitt ed. New Economy, New Systems, Chapter 3. Bristol, UK: Goodworks Publishing. NánarKristín Vala Ragnarsdóttir
Greinin birtist fyrst í Vísbendingu, vikuriti um viðskipti og efnahagsmál. Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.
Athugasemdir (1)