Á Íslandi hefur verið slíkt umburðarlyndi fyrir brestum stjórnmálamanna að formenn þriggja af fjórum fylgismestu stjórnmálaflokkunum í framboði til Alþingis í ár hafa sögu um alvarlegan hagsmunaárekstur í embætti. Sumir myndu segja umburðarlyndið meðvirkni, en aðrir að eðlilegt sé að fólk sem geri mistök fái ný tækifæri.
Lykilatriðið sem aðskilur stjórnmálafólk frá öðrum borgurum er að þeir fyrrnefndu fara með eignir almennings í umboði fólksins í landinu. Vandinn sem fylgir því er þekktur í hagfræðinni sem umboðsvandi, annars vegar, og freistnivandi, hins vegar. Annað lykilhugtak er hagsmunaárekstur. Mörg helstu deilumál íslenskra stjórnmála síðustu áratugi snúast ekki aðeins um hagsmunaárekstur, heldur hagsmunaárekstur formanna þriggja hægri flokka sem mælast nú með tæplega helmingsfylgi fyrir alþingiskosningarnar í næstu viku.
Hagsmunaárekstur þriggja formanna
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, er lykilmanneskjan í íslenskum stjórnmálum. Hún mun líklega standa frammi fyrir því að mynda miðjustjórn með Samfylkingunni og öðrum flokki, eða hægri stjórn með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins.
Hagsmunaárekstur þeirra þriggja hefur skekið stjórnmálin og á tímabili yfirskyggt aðra málefnaumræðu. Umræðan um umboðsvanda er hins vegar mikilvægasta umræðan um stjórnmál.
Sjálf var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir með hundruð milljóna króna persónulega hagsmuni í gegnum eiginmann sinn þegar hún var menntamálaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í aðdraganda efnahagshrunsins 2008. Þorgerður fór ekki beint með mál bankanna, en svaraði fyrir þá sem starfandi forsætisráðherra þegar hún spurði hvort fræðimaður, sem varaði við veikri stöðu bankanna, „þyrfti á endurmenntun að halda“ og hvort „annarleg sjónarmið“ lægju að baki gagnrýninni. Þá lá ekki fyrir í opinberri umræðu að eiginmaður hennar hefði fengið hundruð milljóna króna kúlulán til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi, í fléttu sem snerist um að falsa eigið fé bankans með því að breyta útlánum í hlutafé. Nokkrum mánuðum fyrir hrunið sjálft fékk hann heimild bankastjóra til að færa skuldir sínar vegna hlutabréfakaupanna af eigin kennitölu yfir á einkahlutafélag, sem síðar gat farið í þrot þannig að skuldirnar afskrifuðust, frekar en að þau yrðu elt með skuldirnar og gert fjárnám í eigum þeirra, eins og venjulegt fólk lendir í. Daginn áður höfðu þau tekið út 33 milljónir króna persónulega í arð, sem í dag jafngildir 73 milljónum króna. Níu dögum fyrir fall bankans seldu þau eigin hlutabréf í bankanum. Þá höfðu þau fengið samtals 236 milljónir króna að núvirði í vasann og jafnframt laus undan skuldum sem eftir hrunið höfðu náð upp undir tvo milljarða króna. Þannig báru þau ekki ábyrgð á kúluláninu, sem var forsenda hlutabréfakaupanna, en gátu haldið hagnaðinum. Við þetta vöknuðu einnig spurningar um aðgengi ráðherra að upplýsingum og hvernig nýta megi þær til hagstæðra ákvarðana.
Bjarni Benediktsson var þingmaður í hruninu og seldi hlutabréf og verðbréf, sem áttu eftir að fara illa. Hann fundaði sem þingmaður með bankastjórum og stjórnmálamönnum um slæma stöðu bankanna samhliða því að hann og nánir fjölskyldumeðlimir stunduðu eigin viðskipti, með þeim árangri að ná að forða sér frá hundruð milljóna króna tjóni, um leið og ættingjar forðuðu milljörðum. Faðir hans seldi peningamarkaðsbréf fyrir hálfan milljarð dagana fyrir hrun og hafði næga innsýn til að senda féð úr landi. Daginn sem neyðarlögin voru sett náði Bjarni að forða 50 milljónum króna af eigin peningum til viðbótar úr viðkvæmum skuldabréfasjóði og föðurbróðir hans seldi fyrir meira en milljarð sama dag. Áður höfðu Bjarni og faðir hans selt hlutabréfin sín, fyrir annars vegar 280 milljónir króna að núvirði og hins vegar 1,9 milljarða króna að núvirði, dagana eftir að Bjarni fundaði sem þingmaður með bankastjóra Glitnis um stöðu bankans. Með persónulegum viðskiptum samhliða stjórnmálaþátttöku í umboði almennings vöknuðu margar spurningar um hagsmunaárekstur enda fengu almennir fjárfestar ekki sama aðgengi að umræðu og upplýsingum og Bjarni og þar með nánustu ættingjar hans, á sama tíma og haldið var á lofti árásum gegn gagnrýnendum og stunduð voru viðskipti til að falsa og fegra stöðu bankanna.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra þegar upp komst, vegna leka á gögnum, að hann og eiginkona hans ættu aflandsfélag sem átti kröfu upp á hálfan milljarð króna á þrotabú íslensku bankanna, á sama tíma og hann kom að uppgjöri bankanna sem forsætisráðherra. Sigmundur hafði selt eiginkonu sinni sinn hlut í félaginu á einn dollara árið 2009. Þannig átti Sigmundur leynilega, óskráða hagsmuni samhliða trúnaðarstörfum sínum fyrir almenning, en síðari tíma siðareglur hafa bannað slíkt.
Viðbrögð þeirra hafa verið misjöfn. Þorgerður Katrín hætti í stjórnmálum um tíma og lýsir því í viðtali við Heimildina að hún hafi þurft að líta inn á við og læra af reynslunni, áður en hún gat snúið aftur „frjáls og óháð frá ákveðnum sérhagsmunaöflum“.
Bjarni hefur kvartað undan fjölmiðlum og Sigmundur gekk út úr viðtali þar sem hann var spurður út í aflandsfélagið, áður en honum var gert að ganga út úr forsætisráðuneytinu í apríl 2016 eftir fjölmenn mótmæli.
Ósamhverfar upplýsingar
Eitt lykilatriðið í umboðsvanda er vandamálið við ósamhverfar upplýsingar. Sá eða sú sem við veljum veit meira um stöðu sína og aðgerðir heldur en við hin sem völdum viðkomandi til ábyrgðar fyrir okkar hönd. Ein mikilvægasta lausnin við ósamhverfum upplýsingum í stöðu þeirra sem fara með ríkisvaldið okkar eru eftirlitsstofnanir og sjálfstæðir, virkir og óháðir fjölmiðlar.
Þegar ástandi ósamhverfra upplýsinga hefur verið aflétt – upp að einhverju marki – með opinberri umræðu, er hægt að endurnýja umboð á þeim grundvelli. Almenningur hefur nú þegar aðgang að upplýsingum um framferði og viðbrögð Þorgerðar Katrínar, Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar við þeim hagsmunaárekstrum sem komu upp. Niðurstaða kjósenda er að 48 prósent þeirra vilja kjósa þessa þrjá stjórnmálamenn til þess að leiða stjórnvöld á Íslandi, eða 21 prósent Þorgerði, 15 prósent Bjarna og 13 prósent Sigmund, samkvæmt nýjustu könnun Maskínu.
Vandi, viðbrögð og karakter
Umboðsvanda stjórnmálamanna má skipta upp í vandann sjálfan, viðbrögð þeirra og svo karakterinn, sem segja má að samanstandi af hinu tvennu en hefur fyrst og fremst með fordæmi og forspá að gera.
Samtíðarvandi getur legið í viðbrögðum viðkomandi við eldri syndum. Þannig getur fólk sýnt skort á heilindum með því að segja ósatt eða afvegaleiða umræðu um eldri siðavanda eða brot, snúa út úr eða gera lítið úr atriðum sem ganga gegn gildum kjósenda þeirra eða stórs hluta almennings.
Öll hafa á einhverjum tímapunkti gert eitthvað sem brýtur gegn þeim gildum sem þau standa fyrir, í þroskaferli sem getur verið mishægt og gengið mislangt eftir einstaklingum. En mismunandi flokkar hafa mismunandi gildi. Bæði getur fylgisfólk stjórnmálamanna og -flokka gert vægari eða strangari kröfu til frambjóðenda sinna heldur en annarra.
Miðflokkurinn gengur til dæmis beinlínis út á andstöðu við pólitíska rétthugsun, femínisma og fjölmenningu. Snorri Másson, oddviti Miðflokksins í Reykjavík norður, telur til dæmis að orðið „fjölmenning“ sé öfugmæli, því það sé eingöngu til ein menning. Að auki segir hann að orðið „inngilding“ sé óskiljanlegt.
Þannig getur upptekið athæfi Miðflokksmanna á Klausturbar árið 2018 beinlínis verið í samræmi við vilja stórs hluta kjósenda flokksins. Fyrir þeirra kjósendum geta þeir hafa virkað skemmtilegir, trúir sjálfum sér og mennskir við að kyngera konur og hæðast að fötluðum, eða lýsa því hvernig þeir hafa misnotað opinber embætti í hrossakaupum. Sömuleiðis geta kjósendur tekið þá afstöðu að svo lengi sem ekki séu til staðar hræsnisfull skilaboð opinberlega megi stjórnmálafólk vera gróft eða ósmekklegt í einkalífi sínu.
Umboð afstætt við flokka
Kjósendur Sjálfstæðisflokks hafa sýnt umburðarlyndi gegn hagsmunaárekstri stjórnmálamanna og margir túlkað hann eða umborið sem hluta af aðdáunarverðu athafna- eða úrræðasemi. Sögulega séð hafa þeir sömuleiðis verið sáttir við valdasamþjöppun sem birtist í því að flokksmenn tóku yfir lykilstöður í samfélaginu í ríkum mæli, til dæmis stjórn orkufyrirtækis landsins, Ríkisútvarpsins og Seðlabankans. Þannig nýttu þeir stöðu sína í umboði almennings til þess að umbuna flokksmönnum með gæðum almennings og jafnframt tryggja sér ítök í ákvörðunum þeirra stofnana sem um ræðir, sem aftur eykur vald og getu til að útdeila gæðum almennings.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins, sem eftir eru, hafa áður veitt Bjarna Benediktssyni endurnýjað umboð á grundvelli fyrri umboðsvanda hans og viðbragða við honum.
Þegar hagsmunir stjórnmálamannanna sjálfra ganga framar hagsmunum almennings er talað um spillingu. Ef horft er fram hjá siðferði er spilling hrein sóun sem hefur neikvæðar efnahagslegar afleiðingar, eins og hefur sýnt sig víða um heim, sérstaklega í ríkjum sem eru rík af auðlindum. Með tilliti til siðferðis er hins vegar líka um að ræða hreinan trúnaðarbrest kjósenda og fulltrúa, ef væntingar eru ekki hreinega um að fulltrúinn misnoti aðstöðu sína að vild.
Karakter, fordæmi og forspá
Umboðsvandi er þannig afstæður við umbjóðandann, sem getur ýmist talist vera þjóðin eða stjórnmálaflokkur viðkomandi og kjósendur hans.
Frambjóðandi flokks, sem hefur frjálslyndi og jafnrétti kynjanna sem eitt helsta baráttumál, getur þannig síður átt ríka sögu karlrembu heldur en frambjóðandi flokks sem beinlínis berst gegn yfirstandandi jafnréttisbaráttu, nema uppgjörið hafi verið þess meira sannfærandi og umboðið fengið á þeim grunni.
Nýlega var frambjóðanda Samfylkingarinnar í Reykjavík norður gert að svara fyrir eldri skrif sín á bloggsíðu í viðtali við Stefán Einar Stefánsson á Morgunblaðinu, nánar tiltekið út frá því gildismati um konur sem birtist þar um nokkurra ára skeið þegar hann var á þrítugsaldri. Viðbrögð hans voru í upphafi að biðjast afsökunar á grundvelli þess að hafa verið á tilteknum aldri, sem var þó hærri en hann tilgreindi, og segja athæfið „menningarlegt“, eða hluta annars tíðaranda. Síðar kom í ljós að hann hafði afvegaleitt blaðamann sem spurði út í eitt tilfellið á sínum tíma, sem varðaði siðanefndarkæru frá kvenkyns forstjóra, en í frétt Vísis fyrir skemmstu kom fram að hann hefði „beinlínis logið að blaðamanni Vísis“ á þeim tíma sem fjallað var um siðanefndarkæruna.
Frambjóðandinn hafði þannig ekki með neinum hætti misnotað ófengið umboð sitt, en átti, eins og ýmsir, forsögu um gildismat sem samræmist ekki kröfum nútímans og flokks hans eða kjósenda þess flokks. Engu að síður ákvað hann að lokum að gefa út tilkynningu um að hann myndi „eftirláta næstu konu á listanum sæti [sitt]“, þótt hann viki ekki af listanum, og verða þannig að líkindum í besta falli varaþingmaður í staðinn.
Kjósendur hefðu geta fengið tækifæri til þess að veita frambjóðandanum umboð á grundvelli þess sem fram var komið, en formaður Samfylkingarinnar mat sem svo í hörðum viðbrögðum sínum að nýframkomin forsagan samræmdist illa kröfum hennar eða þeim kröfum sem kjósendur hennar gera. Þannig er munur á afstöðu Samfylkingar og Miðflokksins til eigin þingmanna, enda var formaður Miðflokksins sjálfur viðstaddur í eigin holdi þegar verst lét með hegðun á Klausturbar.
Í umboði hverra eru fjölmiðlar?
Viðbrögð sumra stuðingsmanna Samfylkingarinnar hafa verið að kenna „skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins“ um hvernig fór með umræðuna.
Stefán Einar Stefánsson, sem tók fyrrgreint viðtal við frambjóðanda Samfylkingarinnar, er yfirlýstir sjálfstæðismaður. Að auki starfar hann hjá útgáfufélagi sem er í eigu útgerðarmanna með áður yfirlýstum tilgangi að hafa áhrif á afstöðu almennings til tiltekinna mála, nánar tiltekið aðildar að Evrópusambandinu og skattlagningu auðlindarinnar. Ekki aðeins er félagið í eigu útgerðarmanna, heldur hefur stöðugur taprekstur verið niðurgreiddur af sömu aðilum og því eru útgerðarmennirnir þess meiri forsenda tilvistar og starfs fjölmiðilsins. Það afskrifar hins vegar ekki staðfestanlegar upplýsingar sem berast frá fjölmiðlinum og kemur ekki í veg fyrir að einstakir blaðamenn geti unnið af heilindum út frá sjónarhóli almennings. Hins vegar er augljóst að eignarhald og ritstjórnarvald hefur bein áhrif á val fólks inn á ritstjórnir og ræktar menningu sem getur bælt flokkspólitískt óháða blaðamennsku og fælt þá frá sem fylgja ekki flokkslínu.
Nýlega birti Viðskiptablaðið upprifjun um hagsmunaárekstur formanns Viðreisnar, en hefur ekki birt skrif um hagsmunaárekstur Bjarna Benediktssonar. Spyrja má hvers vegna Viðskiptablaðið rifjar eingöngu upp hagsmunaárekstur formanns Viðreisnar, en ekki formanns Sjálfstæðisflokksins, þótt bæði mál hafi verið fram komin?
Á tímabili starfaði pistlahöfundur Viðskiptablaðsins við kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins, samhliða skrifum sínum. Nú er sami aðili, Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins, sem er fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins.
Hagsmunatengsl og slóð peninganna
Hlutverk fjölmiðla er að gera almenningi fært að veita aðhald, með því að finna og miðla upplýsingum og samhengi mála og draga þar með úr áhrifum ósamhverfra upplýsinga á ákvarðanatöku almennings. Í ströngum skilningi eru öll tengsl þeirra við stjórnmála- og hagsmunaöfl til þess gerð að menga hlutverk þeirra. Þá skiptir ekki öllu hvort um er að ræða fjölmiðil á vegum Sósíalista eða á vegum Sjálfstæðismanna, þótt þeir síðarnefndu hafi geta nýtt valdasamþjöppun til þess að auka enn á áhrif sín. Þátttaka fjölmiðlafólks í stjórnmálum grefur undan þessu hlutverki. Um leið getur innkoma fjölmiðlafólks í stjórnmál haft í för með sér svokölluð snúningshurðaráhrif (e. revolving door), þar sem fjölmiðlafólk hefur freistnivanda til þess að nýta aðstöðu sína og vettvang til þess að skapa sér velvild stjórnmálaafla eða -leiðtoga, sem aflar þeim sæti á lista. Oftar er þó gagnrýnu fjölmiðlafólki hegnt fyrir störf sín.
Jaðarsetning fjölmiðla
Bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gera í dag tilraunir til þess að jaðarsetja Heimildina sem fjölmiðil með því að neita að koma í formannaviðtal fyrir alþingiskosningarnar. Bjarni Benediktsson var nýverið í viðtali hjá FM-957 og svaraði spurningum um hvaða stjórnmálamenn hann tæki með sér á eyðieyju, fór í viðtal hjá Brotkastinu og tók fingrastríð við þáttarstjórnanda í hlaðvarpinu Af vængjum fram, þar sem hann neytti kjúklingavængja. Hann hefur hins vegar hafnað því að svara spurningum um stefnu sína í viðtali við Heimildina. Ástæðan virðist tvíþætt, annars vegar að hefna fyrir fyrri umfjallanir um hagsmunaárekstra hans og hins vegar þeir eiginhagsmunir að sneiða hjá mögulega gagnrýnum spurningum fyrir þingkosningarnar.
Þannig geta stjórnmálamenn reynt að viðhalda ástandi ósamhverfra upplýsinga og fengið endurnýjað umboð með heift gagnvart fjölmiðlum í farangrinum.
Leiðin fram á við
Það er varasamt að fjölmiðlar komi sér upp sínum eigin hagsmunaárekstrum og þar með umboðsvanda í hlutverki upplýsingamiðlara almennings. Þeir ættu sem minnst að hafa tengsl við stjórnmálaflokka til að viðhalda trausti og fyrirbyggja mengun hagsmuna á umræðunni. Það er hins vegar ekki nóg að gera fjölmiðlafólki upp hinar eða þessar skoðanir, til að gera umfjöllun þeirra tortryggilega, heldur þarf að horfa til raunverulegra hagsmunatengsla, til dæmis kerfisbundinnar niðurgreiðslu hagsmunaaðila á fjölmiðlum.
Hluti af góðu siðferði samfélags er ferli til að færa fólk fram á við þegar það brýtur gegn gildum eða reglum, svo viðbrögð beinist að athæfi fremur en einstaklingum. En jafnvel þau sem vilja umbera framferðið hverju sinni ættu jafnframt að hafa umburðarlyndi fyrir umræðunni til að gefa frambjóðendum sanngjarnt færi á hreinu umboði frá kjósendum.
SVIKIN LOFORÐ - SAGAN ÖLL
Um árið heyrði ég skondna sögu af sveitarstjóra í litlu sveitarfélagi úti á landi.
Sveitarstjóri þessi hafði gert mikið úr því þegar hann var ráðinn til starfa, að hann væri langskólagenginn og með mikla menntun úr erlendum háskóla.
Ekki var gengið hart eftir því að hann legði fram gögn því til sönnunar enda ekki vaninn að rengja menn í þessu sveitarfélagi, þess má geta að einn úr sveitinni hafði séð til hans á lóð skólans sem hann sagðist hafa útskrifast frá. Sveitarstjórinn gekk því gjarnan undir nafninu „doktorinn“.
Sveitarstjórinn var gríðarlega gjafmildur og hafði hann lofað að gefa öllum sveitungum stóran rjómaís á kostnað hreppsins ef hann yrði valinn sveitarstjóri, loforðið sveik hann en einungis valinkunnir einstaklingar fengu frostpinna. Hann gekk nú samt ýmist undir nafninu sveitrastjórinn gjafmildi eða doktorinn gjafmildi stundum skammstafað SDG.
Allt gekk eins og í sögu og sveitarstjórinn setti hvert ungmennafélagsmetið á fætur öðru í stjórnvisku, eða allt þar til að gert var alþjóðlegt samsæri gegn honum og hann fundinn sekur um að hafa hnuplað úr kaupfélaginu á staðnum.
Brást hann hinn versti við, skellti hurðum og sagði að þetta væru hreinar persónuárásir. Hann, strangheiðarlegur maðurinn hefði ekki stolið neinu úr búðinni. Hann sem legði svo mikla áherslu á að deila kjörum með sauðsvörtum almúganum, að hann hefði meira að segja selt eiginkonu sinni, allar sína eignir á eina krónu.
Um fjárhag konu sinnar sagðist hann ekkert vita enda væru þau með aðskilinn fjárhag að öðru leyti en því að hann borgaði heim. Hann var þó sannfærður um að hún borgaði ævinlega alla sína reikninga og væri ekki að hnupla úr sjoppunni.
Sveitarstjórinn bað síðan góðan vin sinn um að passa fyrir sig sveitarstjórastólinn svo hann gæti einhent sér í að verjast þessum loftárásum. Þessi vinur hans missti hinsvegar stólinn til fjármálstjóra sveitarfélagsins, sem var síðan gerður að sveitarstjóra þrátt fyrir að hafa líka verið staðinn að hnupli í kaupfélaginu, en það er nú önnur saga.
Doktorinn hóf nú störf sem starfsmaður á plani hjá sveitarfélaginu en það hentaði honum mjög vel þar sem ekki er nein stimpilklukka á planinu og hann taldi að hann gæti bar mætt þegar honum hentaði.
Sneri hann sér nú til kaupfélagsstjórans og óskaði eftir athugun á því hvort eitthvað hefði óvart dottið í pokana síðustu fimm árin, án þess að það hefði komið fram á úttektarnótu. Þau hjónin vildu þá gjarnan fá tækifæri til að greiða það sem uppá vantaði ef eitthvað væri.
Doktorinn vissi að hnupl eldra en fimm ára fyrnist og hann vissi líka að það var regla hjá kaupfélaginu að ef þeir sem staðnir voru að búðarhnupli áttu frumkvæði að því að láta skoða málið og greiða skuldina, yrði þeim ekki gerð nein refsing vegna brotsins.
Niðurstaða í úttekt kaupfélagsstjórans var sú, að þau hjónin höfðu hnuplað nokkrum vörutegundum úr búðinni síðustu fimm árin og var þeim gefinn kostur á að greiða mismuninn, sem þau þáðu.
Doktorinn er hinsvegar talnaglöggur maður og taldi að kaupfélagsstjórinn hefði reiknað einn vöruflokkinn rangt og hefði því gefið þeim of lítið til baka fyrir þá vörutegun. Vísaði hann þeim útreikningum til endurskoðenda kaupfélagsins sem samþykkti að rangt hafi verið gefið til baka í þeim vöruflokki, því ættu þau hjónin að fá endurgreiddan mismuninn.
Doktorinn skrifar nú heljarinnar grein í fréttablað sveitarfélagsins undir fyrirsögninni „Málalok“.
Þar telur hann fullsannað að þau hjónin hafi fengið of lítið til baka þegar þau greiddu fyrir þær vörur sem þau höfðu stolið úr búðinni.
Þessi endurgreiðsla sanni að þau hafi ekki aðeins greitt að fullu fyrir allar vörur og því í raun ekki stolið neinu, heldur hafi þau greitt of mikið.
Aftur var verið að velja nýjum sveitarstjóra í sveitarfélaginu og var doktorinn meðal umsækjenda undir baráttusöng við ljóð sem hefst svona „Þú komst í hlaðið á hvítum hesti“. Hestur doktorsins er ættbókarfærðu og er undan Dellu frá Upphafi og Uppspuna frá Rótum.
En vandamálið er stærra rótgrónara og ykkur sjálfum að kenna. Jamm.... jú sem dæmi við hrun hefðu allir kúlulánasamningar átt að vera teknir upp sem þau markaðsmisnotkun sem þau voru. Eini tilgangurinn var að hækka matsverð bankanna og engin trygging á bakvið. Trygging í því sem selt er er einungis trúverðug ef veðið er tjón viðkomandi... og veð í því seld er auðvitað ekki tjón ef verðrýrnun er engin. ( getið flett þessu upp í Pacer ameriska dómasafninu ) og ef salan veldur hækkun á matsverði er þetta pump and dump eins og það er kallað. Einkennilegt að Al Thani kúlulánið sem með sjálfskudarábyrgð aðila með GREIÐSLUGETU fyrir skuldinni ( eitt af ákvæðunum sem gera markaðsmisnotkun ekki að markaðasmisnokun ) var að mati sérstakst markaðsmisnokun en þar sem engin greiðslugeta var... var ekki um markaðsmisnotkun að ræða. Ó gleymdi ég að segja að Al Thani gerði upp skuldina ?
Og enginn sagði neitt. Enda fengu vondu banksterarnir á baukinn. Tær snilld auðvitað.
Vondu útlendingarnir og vondu banksterernir ... einfaldari lausn verður það ekki.
Öll okkar eftirlitskerfi eru fjársvelt og flest aflögð ... ég hef mjög gaman af skattinum þessa stundina sem dæmi. Varðandi Bjarna þá vissi hann alveg um...... nei ekki að tala um kaupin í bankanum.. heldur það að húsið í miami var skráð á aflandseyjafyrirtæki í BVI... kom meira að segja í fréttum .. ja sei sei... forsætisráherra sem er BO á aflandseyjafyrirtæki. Ykkur fræðingunum til fróðleiks þá er Beneficial Owner nafn sem við notum yfir alla þá sem njóta hagsmuna af einhverri eign.... en endilega fræðimennist út í eitt og spyrjið hverja aðra með fróðlegum og fræðilegum orðum um eitthvað sem þið hafið ekki hugmyndir um greinilega. Og auðvitað segir enginn neitt. Hausar hafa fallið í nágrannalöndum fyrir minna.
Og fyrst þú nefnir Simma þá var það þangað sem hann fór þegar hann hvarf ... í aflandseyjaskráða húsið..( Bjarni væntanlega er búinn að kippa skráningunni í lið). Þar sem hann hafði vit á að kaupa kröfurnar ( vonandi á afslætti 90%) þá fyrirgef ég honum og þið ættuð það líka. En Steingrímur og Jóhanna keypt þær ekki þó þeim væri það boðið... það hefur kostnað nokkrar þúsundir íslendinga heimilin og skuldarfangelsi. Epic fail.
Enginn sagði neitt.
Sama hvað Heimildin fjarviðraðst... stikks and stones will break your bones but words will never hurt anyone. Ef þið viljið laga þetta þar með talið húsnæðismálin ( og nei tölurna sem Samfylkingin fékk eru ekki réttar... þetta er verra) þá þarf að draga menn til ábyrgaðar því völd spilla og sést best á pírötum sem hafa verið ótrúlega meðvirkir.
Og enn segir enginn neitt og ætla kjósa meðvirkni aftur á milli þess sem þið bölsótist yfir vonda fólkinu.
Og svo kalla menn sig rannsóknarblaðamenn.... ja hérna ... skálum fyrir því.
Vönduð vinnubrögð... harðar refsingar og upptaka ávinnings ( hagnaður vegna ólölegra kaupa í banka sem dæmi) eru það eina sem dugir. Og hefur auðvitað ekki verið gert.
Og þá getum við loks farið að snúa okkur að þeim sem eru EKKI í kerfinu.
Og hugsanlega fræðilega í framhaldi af því gætum við snúið okkur að þeim sem olli hruni íslenska bankakerfisins.. og hent fræðimannaálitunum í ruslafötuna þar sem þau eiga heima.. því viðkomandi stofnun finnst á bakvið eins og tugir skjala sanna. Eða trúið þið á jólasveininn og þá sögu að enginn... nema Færingar hafi verið tilbúinn að hjálpa okkur ?
Smá hint... á netinu má finna tugi sekta viðkomandi bara hjá BaFin. Lætur bankana okkar líta út sem sálmasyngandi engla. .
Nei dýrin í skóginum eru ekki vinir og nær öll afætur. En það versta er þau eru fúskarar. Og verstu fúskararnir eru dýrin eru í kerfinu.