Þegar vinkona mín sagðist ætla að kúpla sig út af samfélagsmiðlum um hríð tók hún fram að Goodreads væri þó undanskilinn banninu. Goodreads er miðill sem hverfist um bóklestur þar sem hver og einn getur merkt við þær bækur sem hann les og getur í leiðinni gefið stjörnur eða skrifað gagnrýni. Hægt er að vera „vinur“ annarra bókaunnenda og þá birtast manni upplýsingar um bóklestur þeirra á tímalínunni (e. feed). Hægt er að læka uppfærslur vina og skrifa undir þær athugasemdir. Því er Goodreads góður og gildur samfélagsmiðill þótt hlutverk hans sé afmarkaðra en margra annarra slíkra miðla.
52 bækur á ári
Vinkona mín þurfti ekki að kúpla sig út úr bókmenntaheiminum þótt samfélagsmiðlar væru farnir að íþyngja henni. Þar að auki var hún með lestrarmarkmið á Goodreads; hún þurfti að merkja við 52 lesnar bækur á árinu til að ná því. Flestir notendur Goodreads eru með einhver slík lestrarmarkmið og leggja sig fram við að ná þeim fyrir lok árs. Ljóðabækur og nóvellur eru því vinsæl viðfangsefni þessa fólks í desember. Markmiðið snýst sem sagt um fjölda bóka frekar en fjölda blaðsíðna. Þetta gerir mig hugsi um lestrarhegðun og hvort Goodreads-markmiðið gæti haft annarleg áhrif á hana.
„Hvaða heilvita manneskja með 70 bóka ársmarkmið tæki fram Ulysses, svo einn doðrantur sé nefndur?“
Meira vit í að lesa slæmar bókmenntir en hanga í símanum
Ég er farin að forðast doðranta vegna Goodreads-markmiðs míns. Þrátt fyrir að ég lesi mikið les ég fremur hægt miðað við marga aðra viðlíka bókaorma. Að lesa 600 blaðsíðna bók gæti tekið mig mánuð, 1/12 úr ári. Hvaða heilvita manneskja með 70 bóka ársmarkmið tæki fram Ulysses, svo einn doðrantur sé nefndur? Markmiðið er alltaf í huga mér og það er svona hátt vegna þess að ég las 70 bækur í fyrra og vil ekki lækka bókafjöldann milli ára. Þetta verður til þess að ég les leiðinlegar bækur enda þótt mig langi ekki til þess. Það væri mikil synd að hafa varið öllum þessum lestrarstundum í eina bók án þess að fá að merkja við hana. Að geta ekki sagt öllum að tíma mínum hafi vissulega verið varið í eitthvað af viti en ekki bara á TikTok. Því það er meira vit í að lesa slæmar bókmenntir en að hanga í símanum, hvað svo sem maður er að gera þar, í tækinu sem geymir allan heimsins fróðleik.
Safna ljóðabókum frá síðustu öld
Að skrá bækur inn á Goodreads er orðinn hluti af útgáfuferli hjá mörgum íslenskum forlögum. Það er ekki á allra færi að gera það, aðeins bókasafnsfræðinga eða útgefenda sem hafa náð þar til gerðu prófi. Löglærður vinur minn lýsti fyrir mér svekkelsi sínu yfir því að geta ekki merkt við þær stóru lagabækur sem hann les reglulega vegna starfs síns (og reyndar líka af einskærum áhuga; hann er sannkallaður nörd). Útgáfan sem gefur út lagaskruddurnar annaðhvort sér ekki hag sinn í að verja tíma í skráningar á Goodreads eða hefur einfaldlega ekki hugsað út í það. Ég tengdi við þetta vegna þess að ég safna ljóðabókum frá síðustu öld og þær eru aldeilis ekki allar á Goodreads, komandi frá forlögum sem eru löngu farin á hausinn. Ég hef staðið mig að því að leita fyrst að titlinum á Goodreads áður en ég hef lestur því ég vil geta merkt við, ég viðurkenni það. Ég vil að tölurnar á Goodreads séu raunverulegu tölurnar mínar og því væri synd að lesa fleiri bækur en lokatölur segðu til um!
Alvöru bókaormar tengja eflaust ekki við þessar vangaveltur. Til er fólk sem er sólgið í bækur sama hvað og myndi aldrei hugsa um Goodreads-markmiðið fyrst og bækurnar svo. En ég er bara ekki þannig. Fyrir mér skiptir fjöldinn máli af óljósum ástæðum sem tengjast eflaust einhverjum boðum í heilanum og það getur bara ekki verið að ég sé sú eina.
Allar íslenskar bækur verði skráðar á Goodreads
Vandamál Goodreads-markmiðsins er sem sagt tvíþætt: annars vegar er það sú staðreynd að talið er í bókum frekar en blaðsíðum, og svo hitt að margar íslenskar bækur eru ekki skráðar þar. Ég lofaði ömmu kærasta míns að lesa Hvað sagði tröllið? og Tröllið sagði eftir Þórleif Bjarnason Hornstrending, en þær enda alltaf neðst á leslistanum þar sem þær eru ekki á Goodreads og mér væri því neitað um litla dópamínkikkið sem felst í því að merkja READ.
Því legg ég til að menningarmálaráðherra beiti sér fyrir því að allar íslenskar bækur verði skráðar á Goodreads. Nú þegar eru reglur um skylduskil á öllu útprentuðu efni til Landsbókasafns. Verkin eru skráð inn í Landskerfi bókasafna og Goodreads-skráning gæti verið liður í því skráningarferli. Nú fráfarandi menningarmálaráðherra, Lilja, hefur þegar haft mikil áhrif á aðgengi íslenskra barna að talsettum Disney-myndum, en eftir að hún biðlaði til streymisveitunnar Disney+ voru íslensku þýðingarnar gerðar aðgengilegar þar. Mig langar til að lesa: Hvað sagði tröllið? – en hvatinn er ekki nægur. Nútímafólk eins og ég þarf stafrænt dópamínkikk. Að ræða málin við ömmu kærasta míns er ekki nóg, ekki þegar Goodreads-markmiðið situr óhreyft eftir allt saman. Bjargaðu mér, menningarmálaráðherra. Bjargaðu mér frá sjálfri mér!
Athugasemdir