Sú ákvörðun að skipa Jón Gunnarsson til verka í matvælaráðuneytinu endurspeglar ágætlega hversu lítið flokkurinn virðir þá ábyrgð sem honum er falin.
Sú ákvörðun að setja umdeilt stjórnarmálefni, hvalveiðar, efst á ákvarðana listann í ríkisstjórn sem situr án pólitísks umboðs sýnir mikinn yfirgang. Hlutverk starfsstjórnar er að vinna af ábyrgð á hlutlausan hátt – ekki að taka ákvarðanir um framtíð lífríkisins í snarhasti.
Þetta útspil gerir lítið úr faglegri ákvarðanatöku og setur sérhagsmuni ofar hagsmunum almennings, sem er að meirihluta á móti hvalveiðum. Þetta er ákvörðun sem ætti að byggjast á faglegum forsendum og velferð dýra en ekki sérhagsmunum fyrirtækja með skammvinna fjárhagslega hagsmuni og áróður að leiðarljósi. Að auki hafa sérfræðingar unnið að úttekt á framtíð hvalveiða og lagaumhverfi þeirra, þeirra störfum er ekki enn lokið. Það virðist ekki vera nein knýjandi þörf til þess að drífa þetta í gegn, eða setja í forgang. Það liggur því í loftinu að hér eigi að hygla pólitískum hagsmunum á kostnað lífríkisins við Íslandsstrendur, þvert á vilja almennings.
Það er engin mannúðleg leið til að drepa hval á hafi úti – til þess eru þeir einfaldlega of stórir. Þrátt fyrir það byggja hvalveiðisinnar málflutning sinn á „atvinnuréttindum,“ sjálfsögðum rétti mannsins til að drepa dýr í hagnaðarskyni, réttindum sem þeir virðast telja ganga framar öllum öðrum sjónarmiðum eða skyldum. Slíkum réttindum má og þarf að setja skorður.
Brjóstvörn hvalveiðisinna eru löngu úrelt lög sem knýja ráðherra málaflokksins hverju sinni til að afgreiða hvalveiðileyfi, en greinin byggir ekki á eftirspurn eftir hvalaafurðum, hvorki hérlendis né erlendis. Útgáfa hvalveiðileyfis undir þessum kringumstæðum snýst því ekki um hagsmuni þjóðar eða náttúru. Hún snýst um mjög þrönga pólitíska hagsmuni.
Af hverju ættu Íslendingar að hætta hvalveiðum?
Þegar hvalveiðar náðu hámarki voru tugþúsundir hvala veiddir árlega til olíuvinnslu, ekki manneldis. Í dag er engin raunveruleg þörf eða eftirspurn fyrir hvalaafurðir. Við sitjum því uppi með nítjándu aldar veiðar sem stundaðar eru með tuttugustu aldar veiðiaferðum, á tuttugustu og fyrstu öldinni. Að halda áfram ómannúðlegum veiðum í þágu sérhagsmuna á engan stað í nútímasamfélagi.
Hvalir eru stórkostlegar skepnur og eru á meðal þróuðustu dýra jarðar í því tilliti að samskipti þeirra og lífshættir minna á okkar eigin. Hvalir hafa einstaka getu til samskipta og sýna rannsóknir að þeir búi yfir djúpri félagslegri hegðun og sjálfsvitund. Þeir ferðast í fjölskylduhópum, kalla hver til annars með tónum sem bergmála um heimshöfin og eiga í samskiptum sem við erum aðeins að byrja að skilja.
Hvalir gegna lykilhlutverki í hafinu þar sem þeir flytja næringarefni um heimshöfin og styðja við líffræðilegan fjölbreytileika. Þeir dreifa næringarefnum sem stuðla að heilbrigði vistkerfa sjávar og hafa áhrif á kolefnisbindingu, sem er mikilvæg í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þeir eru því ekki einungis stór dýr sem svamla um í tómarúmi, heldur lykil-lífverur í vistkerfi sjávar, sem styðja við fjölda annarra lífvera og vistkerfa, þar með talið okkar eigin.
Skrifum hvalveiðar í sögubækurnar
Til langframa er hagsmunum Íslands best borgið með því að láta af hvalveiðum. Við ættum að sameinast um verndun þeirra og lífríkis hafsins, sýna raunverulega ábyrgð og hætta hvalveiðum með því að falla frá fyrirvara Íslands við samning Alþjóða hvalveiðiráðsins. Við höfum góða sögu að segja í verndun lífríkisins í kringum Ísland. Við eigum þess kost að gera enn betur og gera efnahagslögsögu okkar að griðarsvæði fyrir hvali. Við getum að minnsta kosti stigið skrefið til verndar hvalastofnum með því að segja nei við hvalveiðum.
Forsætisráðherra hefur ákveðið að sýna á spilin, sýna hvers er að vænta fái Sjálfstæðisflokkurinn að ráða för og hefur tekið sér stöðu með úreltri atvinnugrein, í stað þess að beita sér fyrir raunverulegum framförum í samfélaginu, í trássi við vilja meirihluta íbúa landsins. Við, sem þjóð, eigum að standa saman gegn slíku ábyrgðarleysi og krefjast þess að hvalveiðar heyri sögunni til. Fyrir þessar kosningar er mikilvægt að stjórnmálahreyfingar sem láta sig náttúruvernd og dýravelferð varða standi saman gegn ofríki Sjálfstæðisflokks og annarra flokka sem vilja þvinga þá skömm yfir íslenska þjóð að halda áfram hvalveiðum. Það er tímabært að taka lög um hvalveiðar úr sambandi og tryggja að hvalveiðir verði ekki heimilaðar á Íslandi.
Athugasemdir