Þessi grein birtist fyrir rúmlega 2 mánuðum.

Ný og óvænt kenning: Hafði Jörðin hring um sig miðja líkt og Satúrnus?

Ný og óvænt kenning: Hafði Jörðin hring um sig miðja líkt og Satúrnus?
Var þetta staðreynd fyrir „aðeins“ 466 milljónum ára?

„Máninn hátt á himni skín,

hrímfölur og grár ...“

segir í áramótakvæðinu alkunna. En hugsið ykkur nú að ekki einungis máninn einn skini hátt á himni, heldur teygði sig um allan himinn hringur af geimsteinum, ryki, grjótflísum af öllum stærðum, ísklumpum og jafnvel smámánum margvíslegum?

Um Jörðina okkar væri í raun og veru hringur eins og sá alþekktur er um gasrisann Satúrnus langt úti í sólkerfinu?

Sú óvænta hugmynd er nú á kreiki í vísindaheimum eftir að áströlsku vísindamennirnir Andrew G. Tomkins, Erin L. Martin og Peter A. Cawood komu henni á flot með grein sem þau birtu á dögunum í vefritinu Earth & Planetary Science Letters.

Hugmyndin var sett fram eftir að þau fóru að rannsaka ummerki um óvenju marga og stóra loftsteina sem hefðu fallið á Jörðina hver á fætur öðrum á mjög stuttu tímabili fyrir um 466 milljónum ára.

„Mjög stutt tímabil“ er auðvitað afstætt.

Sennilega hafa þessir loftsteinar fallið á nokkurra milljóna ára bili, kannski fáeinum milljónatugum. En að svo margir stórir steinar hafi fallið á þeim tíma þótti þremenningum einkennilegt.

Þegar sólkerfið var ungt var gríðarlegur fjöldi loftsteina á þeytingi um allt og þeir hafa þá hrunið í þúsundatali niður á Jörðina, en veðrun, plötuhreyfingar og jarðvegsmyndun hafa nú eytt eða hulið flestalla gígana og önnur ummerki eftir þá.

Við sjáum hins vegar ummerkin eftir þessa skothríð enn á Tunglinu okkar.

En fyrir 466 milljón árum var sólkerfið orðið nokkuð ráðsett og búið var að hreinsa langmest af stærstu loftsteinunum úr innsta hluta sólkerfins.

Einn og einn féll enn til Jarðar en langur tími var farinn að líða milli þeirra.

Þó okkur virðist 466 milljónir ára vera mjög langur tími, þá er það aðeins um einn tíundi hluti aldurs Jarðarinnar.

Ef við skiptum hinum 4,54 milljörðum ára sem liðnir eru frá því Jörðin myndaðist niður í eitt ár, var kominn 21. nóvember fyrir 466 milljónum ára. Þá var líf og fjör í sjónum þar sem þríbrotar voru herrar heimsins en frumstæðir fiskar og smokkfiskar ýmsir voru líka komnir fram. Á landi var hins líflaust að mestu.

Einhverjir sveppir voru farnir að silast upp frá ströndunum og afar frumstæður jurtagróður, en annað var það nú ekki.

En um hálf tíu leyti að morgni á þessum ímyndaða 21. nóvember, þá virðist sem sé mjög óvenjuleg skothríð hafa dunið á Jörðinni utan úr geimnum á „aðeins“ örfáum milljónum ára eða rúmlega það. Þau Tomkins, Martin og Cawood fundu í fljótu bragði merki um 21 stóran loftstein sem fallið höfðu á þessum „skamma“ tíma.

Og þar sem ætla má að að minnsta kosti annar eins fjöldi — kannski miklu miklu fleiri — hafi farið í sjóinn eða farið undir hraun eða horfið undir jarðlög, þá er engin goðgá að tala um skothríð.

Þau þremenningar voru náttúrlega ekki fyrstu vísindamennirnir sem höfðu tekið eftir þessu. Þetta hefur verið alkunna um alllanga hríð og líka hitt að svo virðist sem þær grjótleifar, er fundist hafa frá þessum 21. nóvember, hafi ekki orðið að þola jafn mikla geislun frá upphafi sólkerfisins og einkennir hina „fyrstu kynslóð“ loftsteinanna.

Cawood, Martin og Tomkins

Það þýðir að loftsteinarnir sem féllu um þetta leyti hafa verið í jarðfræðilegum skilningi „nýrri“ eða „yngri“ en loftsteinarnir sem féllu í árdaga sólkerfisins.

Þessu hafði fólk líka veitt athygli áður. Sú skýring hafði verið sett fram á þessu að stórt smástirni eða jafnvel dvergpláneta í smástirnabeltinu milli Mars og Júpíters hafi sundrast af ókunnum ástæðum, kannski eftir árekstur við annan risaloftstein, og þeyst í þúsund molum í allar áttir.

Og hluta af þeim brotum hafi rignt niður á Jörðina.

Og þar eð þau brot hefðu fram að þessu flestöll verið einhvers staðar í iðrum smástirnisins, þá hefðu þau ekki þurft að þola jafnmikla geimgeislun og loftsteinarnir frá því í árdaga, og virtust því í þeim skilningi „yngri“.

Þetta var nú allt gott og blessað og gat vel staðist. En þegar þremenningum datt í hug að rannsaka hvar hinir rúmlega 20 stóru loftsteinar hefðu fallið, þá kom nokkuð óvænt í ljós.

Núna er ummerki um þessa loftsteina að finna um alla Jörðina: Norður-Ameríku, Evrópu, Rússlandi, Kína, Ástralíu ...

En með því að nota nýjustu þekkingu á landreki og láta tölvulíkön rekja þennan 21 stað 466 milljónir ára aftur á bak, þá lá niðurstaðan fyrir:

Allir höfðu fallið því sem næst nákvæmlega niður á miðbaug Jarðarinnar.

Og það gat eiginlega alls ekki staðist miðað við hvernig loftsteinar frá sundruðu smástirni milli Mars og Júpíter hefðu átt að dreifast um sólkerfið. 

Þeir hefðu átt að lenda bara hingað og þangað um Jörðina af algeru handahófi.

Fyrir 466 milljónum ára var ekkert líf á landi, nema hugsanlega slikja af sveppagróðri eða mjög frumstæðum jurtum.Í sjónum var hins vegar lif og fjör, að minnsta kosti þangað til illvíg ísöld útrýmti 85 prósentum lífs.

Þegar líkönin og útreikningarnir gáfu og til kynna að fyrir 466 milljónum ára hefðu aðeins 30 prósent af yfirborði Jarðar verið við miðbaug, þá varð þessi „snyrtilega“ röð loftsteinagíga við miðbaug enn ótrúlegri.

Og enn eitt: Jarðlög ,sem þá höfðu legið við miðbaug, gáfu til kynna miklar flóðbylgjur, ógurlegri en nokkrar þær sem við höfum orðið vitni að á okkar dögum.

Það höfðu greinilega miklar hamfarir fylgt skothríðinni utan úr geimnum.

En aðeins við miðbaug.

Svo nú settust þremenningarnir niður eins og hugsuður Rodins og hugsuðu og hugsuðu. Hver gat verið skýringin á þessu?

Og niðurstaða þeirra er birt í fyrrnefndri grein í Earth & Planetary Science Letters. 

Hún er sú að fyrir 466 milljónum ára hafi aðdráttarafl Jarðar dregið til sín stórt smástirni. Það var ekki á braut áreksturs við Jörðina en kom þó svo nálægt Jörðina að það fór að teygjast og togast í sundur og sundraðist að lokum.

Sá framgangsmáti er vísindamönnum þegar kunnur. Svo er sagt að þegar lítill hlutur er kominn svo nærri stórum hlut að hann sundrist sé hann kominn inn fyrir „Roche-mörkin“.

Nú telja þremenningarnir að aðdráttarafl Jarðarinnar hafi sem sé sogað til sín smástirnið uns það fór inn fyrir Roche-mörkin og tættist í sundur. En þá hafi aðdráttarafl Jarðarinnar valdið því að brotin úr smástirninu hafi ekki bara þeyst hingað og þangað heldur hafi þau „haldið hópinn“ og raðað sér upp í snyrtilegan hring um miðbaug Jarðarinnar.

„Snyrtilegur hringur um Jörðina.“

Og snúist þar í nokkra tugi milljóna ára eins og hver annar hringur um Satúrnus.

Svo hafi hringurinn smátt og smátt eyðst eftir því sem aðdráttarafl Jarðar varð hringsólinu yfirsterkari og brotin féllu hvert af öðru til Jarðar. Þau voru auðvitað miklu miklu fleiri en 21 en við sjáum aðeins ummerki um fáein þeirra og þau allra stærstu.

Skylt er að geta þess að Tomkins, Martin og Cawood halda því alls ekki fram í grein sinni að niðurstaða þeirra sé á nokkurn hátt óyggjandi. Þau varpa þessu hins vegar fram sem kenningu sem aðrir vísindamenn geti þá lagt mat á, skoðað, teygt og togað.

Kannski sundrast hún þá ef hún fer inn fyrir einhver Roche-mörk vísindanna.

En kannski reynist hún rétt.

Hringur um Jörðina.Um Mars ganga tvö örsmá tungl, Fóbos og Deimos. Sumir telja að þau séu leifar af hring sem eitt sinn hafi umkringt Mars eftir svipaðan atburð og kann að hafa myndað hring um Jörðina.

Kannski var næturhiminninn fyrir 466 milljónum ára í raun prýddur fallegum hring, hrímfölum og gráum.

Þangað til steinarnir fóru að falla — meðal annars og ekki síst fyrir í senn samverkandi og ruglandi áhrif Tungls og Jarðar — og hamfarir að brjótast út í hvert sinn sem einhver steinninn pompaði með ógurlegum umbrotum og flóðbylgjum á hafinu.

Þau þremenningar hafa líka varpað annarri hugmynd í framhaldi af hugmyndinni um hringinn.

Ef hingurinn hefur nú verið um Jörðina í einhverja milljónatugi ára, getur þá verið að hann hafi orsakað (að meira eða minna leyti) ægilega ísöld sem skall á fyrir 445 milljónum ára og kölluð hefur verið hirmantíu-ísöldin? Hún stóð fremur stutt en dugði til þess að 85 prósent alls lífs á Jörðinni (fyrst og fremst í sjónum) dó út.

Var það skuggi hringsins — spyrja þremenningarnir — sem orsakaði svo mikla kælingu við miðbaug að ísöldin fór af stað?

Þetta er líka kenning sem vert er að rannsaka.

 

Þremenningarnir hafa sjálf bent á hugsanlega mótbáru við kenningu þeirra.Þótt loftsteinahríðin fyrir 466 milljónum ára hafi staðið yfir fremur skamma hríð, á jarðfræðilegan mælikvarða, þá virðist þó um tvö aðskilin tímabil að ræða. Hugsanleg skýring á því, segja þau, er að svo gæti verið að í hringnum hafi myndast eitt fremur stórt tungl sem hafi haldist á lofti ívið lengur en brotin í hringnum sjálfum. Þetta aukatungl hafi þó að lokum sundrast líka og brotin úr því þá fallið til Jarðar.

Kjósa
20
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

„Við mætum í vinnuna til þess að sigra“
3
Á vettvangi

„Við mæt­um í vinn­una til þess að sigra“

Kona sem sit­ur á bið­stofu með fleira fólki er að grein­ast með heila­æxli og það þarf að til­kynna henni það. En það er eng­inn stað­ur sem hægt er að fara með hana á, til að ræða við hana í næði. Í ann­an stað er rætt við að­stand­end­ur frammi, fyr­ir fram­an sjálfsal­ann en þá fer neyð­ar­bjall­an af stað og hama­gang­ur­inn er mik­ill þeg­ar starfs­fólk­ið hleyp­ur af stað. Í fjóra mán­uði hef­ur blaða­mað­ur ver­ið á vett­vangi bráða­mót­tök­unn­ar á Land­spít­al­an­um og fylgst með starf­inu þar.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Hann sagðist ekki geta meir“
1
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Síðasta tilraun Ingu Sæland
3
ViðtalFormannaviðtöl

Síð­asta til­raun Ingu Sæ­land

Flokk­ur fólks­ins var stofn­að­ur til að út­rýma fá­tækt á Ís­landi, sem Inga Sæ­land, formað­ur flokks­ins, þekk­ir af eig­in raun. Hún boð­ar nýtt hús­næð­is­kerfi með fyr­ir­sjá­an­leika og nið­ur­skurð í öllu því sem heita að­gerð­ir gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Græn­asta land í heimi eigi að nota pen­ing­ana í heil­brigðis­kerfi og aðra inn­viði sem standi á brauð­fót­um.
Svanhildur Hólm með áberandi minnsta reynslu af utanríkismálum
6
Fréttir

Svan­hild­ur Hólm með áber­andi minnsta reynslu af ut­an­rík­is­mál­um

Ljóst er að Svan­hild­ur Hólm, sendi­herra í Banda­ríkj­un­um, sker sig úr hópi koll­ega sinna frá Norð­ur­lönd­un­um hvað varð­ar tak­mark­aða reynslu á vett­vangi ut­an­rík­is­mála. Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd bíð­ur enn svara frá ut­an­rík­is­ráðu­neyt­inu um vinnu­brögð ráð­herra við skip­un á sendi­herr­um í Banda­ríkj­un­um og Ítal­íu.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
3
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
4
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár