Í nótt vaknaði ellefu ára drengur upp á Landspítalanum, þar sem hann dvaldi á sérstakri deild fyrir langveik börn sem þurfa á mikilli hjúkrun að halda, við annars konar martröð. Lögreglan var mætt að sækja hann úr öruggu skjóli spítalans, svipta hann allri huggun og hlýju og halda honum einangruðum þar til hann yrði fluttur út í óvissuna.
Fyrir Yazan dugði ekki að klípa sig í handlegginn til að minna sig á að martröðin væri ekki raunveruleg, því grimmdin sem mætti honum var veruleiki hans, andlit íslenskra stjórnvalda gagnvart langveiku barni frá Palestínu sem leitar skjóls hér á landi.
Ætli hann hafi vaknað við andlit lögreglumannsins - eða var hann vakinn af hjúkrunarfræðingi sem sagði honum að lögreglan væri komin að sækja hann til að vísa honum á brott?
Hvernig ætli honum hafi liðið?
Himnaríki og helvíti
Drengnum sem eitt sinn sagði við foreldra sína: „Þið hljótið að hafa farið með mig til himnaríkis,“ því hann var svo hissa á því hvað skólafélagarnir tóku vel á móti honum. Það var langt síðan honum hafði liðið eins og hann væri einhvers staðar velkominn.
Himnaríkið á Íslandi varð væntanlega að helvíti í nótt, þegar hann var sviptur síma og tengslum við umhverfi sitt, færður í einangrun á Keflavíkurflugvelli, þar sem honum var haldið af lögreglu yfir nóttina, þar til flytja átti hann til Spánar.
Það virðist nefnilega ekki skipta máli hversu oft og ítrekað íslenskt samfélag sýnir í verki vilja sinn til að bjóða Yazan velkominn, þá er hann það ekki í raun. Ekki á meðan stefna íslenskra ríkisins er að flytja alla sem hægt er úr landi á grundvelli reglugerðar, sem er þó valkvætt að beita.
Hér er engin miskunn. Hér er fólk flutt á brott í skjóli nætur, svipt öllum möguleikum á að ná sambandi við sitt fólk, þó ekki nema bara til að kveðja. Líka langveik börn frá landi þar sem verið að fremja þjóðarmorð.
Lá á að koma barninu úr landi
„Hvernig gat þetta gerst?“ spurði Katrín Oddsdóttir lögmaður þar sem hún sat á Keflavíkurflugvelli í nótt og reyndi árangurslaust að ná í ráðamenn. Hún og Tótla Sæmundsdóttir voru báðar á leið í flug en sendu frá sér myndband til að miðla staðreyndum um mál Yazan.
Þar kom meðal annars fram að lögreglan hefði áður miðlað því til lögmanns drengsins að Yazan yrði ekki brottvísað á meðan hann væri á sjúkrahúsi: „Enda er það augljóslega ómannúðlegt og ólöglegt og í raun og veru hættulegt fyrir þetta barn að vera rifið svona út af sjúkrahúsi um miðja nótt.“
Fólk væri á sjúkrahúsi vegna þess að það þyrfti á aðstoð lækna að halda. Fyrir utan hversu ómannúðlegt það sé að vekja barnið löngu áður en þörf var á og láta það hírast á flugvellinum í lengri tíma.
Þá sagði Katrín að enn væri ekki búið að ljúka málsmeðferð Yazan á Íslandi, því hann hefði ekki fengið rétta afgreiðslu, sem mætti rekja til þess að einhver talsmaður hefði ekki komið sjúkragögnunum hans á framfæri í upphafi.
„Það eru 100 lögfræðilegar ástæður fyrir því að það á ekki að rífa hann í burtu.“
Barnavernd hafi síðan neitað að taka málið til skoðunar, þrátt fyrir beiðni frá foreldrum Yazan, læknum á spítalanum og réttargæslu fatlaðs fólks. Í nótt hafi heldur ekki legið fyrir hvort læknir væri í fylgd Yazan. „Ég veit ekki hvað þau ætla að gera ef barnið fær flog einhvers staðar yfir miðju hafi,“ sagði Tótla.
Loks áréttuðu þær að ástæðan fyrir því að Yazan var rifin úr sjúkrarúminu í nótt væri líklega sú að eftir örfáa daga, þann 21. september lokast ramminn til að senda hann úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
Stjórnvöldum lá því á að koma barninu úr landi.
Skilaboð þeirra að lokum: Það er „verið að hola mannréttindi á Íslandi að innan.“
15 þúsund börn látin
Í Bandaríkjum hyllti þingið Netanyahu með standandi lófaklappi. Á Íslandi eru palestínsk börn vakin upp um miðjar nætur og flutt burt í lögreglufylgd.
Eftir að Yazan hafði verið haldið á flugvellinum í átta klukkustundur bárust loks fréttir að hann væri á leið aftur á spítalann. Dómsmálaráðherra hafði látið undan pólitískum þrýstingi og þurfti ekki nema að gefa skipunina og þá var hætt við aðgerðirnar. Af því að þær eru valkvæðar.
„Sagðir þú árás?“ spurði íslenski forsætisráðherrann, þá utanríkisráðherra, þegar hann var beðinn um að lýsa afstöðu sinni til árásar Ísraelsmanna á flóttamannabúðir í Palestínu í nóvember. „Eins og ég sé þetta þá er í gangi stríð gegn hryðjuverkamönnum.“
Nærri 15 þúsund börn hafa verið drepin frá því að árásirnar hófust í október. Ef þessi tala væri heimfærð yfir á íslenskan raunveruleika þá væri um þriðjungur allra grunnskólanema í öllum grunnskólum landsins látinn. Tala fjöldinna barna í Palestínu jafngildir líka nánast öllum börnum í 8., 9. og 10. bekk í grunnskólum landsins. Eða því að þau hefðu öll látið lífið, nema um helmingur nemenda í Hagaskóla.
Hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi
Eftir átta langa klukkutíma var Yazan fluttur aftur á Landspítalann. „Lögregla verst enn allra fregna þannig að ég hef ekki heyrt neitt,“ útskýrði lögmaður Yazan. Ekki einu sinni lögmaðurinn fékk að fylgjast með gangi mála.
„Ég er að gefa fyrirmæli. Ég þarf ekki að útskýra það,“ var svar lögreglumanns við því af hverju konum sem vildu sýna Yazan stuðning á flugvellinum var meinað að koma nærri og gert að halda sig í 100 metra radíus frá herberginu þar sem honum var gert að hírast.
Spurð hvers vegna farið var að skjóli nætur á spítalann til að sækja drenginn til að fara með hann úr landi að morgni dags, svaraði verkefnastjóri hjá heimferðar- og fyldardeild ríkislögreglustjóra: „Það er flug snemma að morgni. Í öllu ferlinu er hugað að hagsmunum barnsins. Það er leiðarljósið.“
Þessi orð hljóma undarlega í samhenginu. Hvernig þjónar það hagsmunum barns að vera rifið upp úr sjúkrarúmi þegar það á að vera á spítala, að svipta það öllum samskiptaleiðum og senda út í óvissuna í ókunnugu landi?
Fyrir utan hið augljósa: Þekkið þið einhver dæmi þess að foreldri hafi vakið veikt barn fyrir miðnætti, farið með það upp á flugvöll, látið það hanga þar ósofið alla nóttina, fyrir flug að morgni.
Eitt símtal: Allt sem þurfti til
Á síðustu stundu barst símtal frá ráðherra.
Kló grimmdarinnar sleppti tökunum á Yazan - í bili. Þangað til næst.
Það þurfti nefnilega ekki meira til en að ráðherra tæki upp símann. Gæfi skipunina. Tæki ákvörðun um að það ætti ekki að flytja langveikt barn af spítala og vísa því úr landi.
En þá ákvörðun tók dómsmálaráðherra ekki fyrr en eftir að ráðherra Vinstri grænna fór fram á að málið yrði rætt í ríkisstjórn áður en aðgerð lögreglu yrði fullframin.
Þurfti nokkuð hótun um stjórnarslit til?
Aðgerðir lögreglu gagnvart Yazan byggja nefnilega ekki á neinu nema ákvörðun. Ákvörðun stjórnvalda. Þetta hefði aldrei þurft að ganga svona langt. Þó að það felist í því ákveðinn léttir að barnið sé aftur komið inn á spítala, þá skilja atburðir næturinnar eftir sig sár.
Það er búið að sýna innrætið.
Athugasemdir (1)