Á þeim stutta tíma síðan hagvaxtarmarkmið voru kynnt til sögunnar höfum við umbreytt hnetti okkar svo mikið að við stöndum frammi fyrir vistfræðilegu stórslysi. Á sama tíma höldum við að hagvöxtur sé eina lausnin okkar út úr þessari krísu og sjálfbær hagvöxtur er meira að segja hluti af heimsmarkmiðunum. Neysla okkar eykst og eykst, en við stöndum í þeirri trú að við getum haldið því áfram, en á vistvænni máta.
Út fyrir landamærin – ekki okkar vandamál
Við mælum og greinum frá umhverfisáhrifum á áhugaverðan hátt; ef þau eiga sér ekki stað innan okkar landamæra, þá koma þau okkur ekki við. Við greinum bara frá því sem gerist hér á landi til dæmis með losunarbókhaldi Íslands og okkar alþjóðlegu skuldbindingar ná ekki lengra. Þessi hugsun og þessi bókhaldsleið á sér svo djúpar rætur að við leyfum okkur virkilega að trúa því að ríkustu löndin, til dæmis Norðurlöndin, séu þau umhverfisvænstu.
Við fáum stöðugt að heyra og lesa það í fréttum að norræn samfélög okkar séu meðal þeirra ábyrgustu í heiminum þegar það kemur að loftslagsmálum, leiðandi í grænum umskiptum, með sterkustu umhverfisverndarlögin og metnaðarfyllstu skuldbindingarnar. Með þetta í huga höldum við hamingjusamlega áfram að lifa lífi okkar eins og við gerum og trúum því að vandamálin liggi annars staðar. Erum við ekki líka nú þegar að gera of mikið, umfram það sem ætlast er til af okkur?
Rík lönd eiga það sameiginlegt að þegnar þeirra eru fremstir í flokki þegar það kemur að neyslu og stór hluti neysluvaranna er innfluttur. Á sama tíma kennum við öðrum, oft minna þróuðum ríkjum um loftslagsbreytingar, ríkjum þar sem kaupmáttur íbúa er svo lágur að neysla þeirra getur varla talist sökudólgur loftslagsbreytinga.
Langt því frá loftslagsvænt
Ísland er á topp 10 lista þegar verg landsframleiðsla er skoðuð á íbúa. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að Íslendingar eru með eitt stærsta kolefnissporið í heiminum þegar við skoðum neysludrifna losun frekar en framleiðsludrifna. Frá þessu neysludrifna sjónarhorni, sem setur kolefnispor vöru eða þjónustu á þann sem neytir frekar en þann sem framleiðir, þá missir Ísland grænu ímynd sína.
„Við höldum áfram með líf okkar í grænu blekkingunni stolt af nýjustu undirskriftinni á loftslagsyfirlýsingu.“
Í nýlegri rannsókn höfunda þessarar greinar sást að neysludrifið kolefnisspor var tvisvar til þrisvar sinnum stærra en heimsmeðaltalið; langt frá alþjóðlegum markmiðum sem sett hafa verið til að halda hlýnun innan viðráðanlegra marka. Það er einnig áhyggjuefni að velmegun virðist vera forsenda fyrir loftslagsáhyggjum og í þeim löndum þar sem neysla er undir heimsmeðaltalinu er kolefnisspor ekki beint hátt á forgangslistanum. Það er kannski bara réttlætanlegt, þar sem það eru einmitt ríku löndin sem tróna á toppnum þegar söguleg losun er skoðuð, enda hafa þau skapað sína velmegun á kostnað loftslagsins.
Reiknidæmið gengur ekki upp
Við vitum hvað má losa mikið svo að hlýnun haldist innan við 1,5 gráður og köllum þetta kolefniskvóta heimsins. Hægt er að deila þessum kolefniskvóta niður á jarðarbúa, annaðhvort jafnt, en svo er einnig hægt að taka tillit til sögulegrar losunar.
Sama hvernig við deilum honum þá er þessi kolefniskvóti að renna hratt út og ef ekki er dregið úr losun verður hann búinn innan áratugar. Á sama tíma keppast öll lönd við að auka hagvöxt. Velmegunarsamfélög flytja inn vörur sem framleiddar hafa verið í öðru kolefnisbókhaldi og við höldum áfram með líf okkar í grænu blekkingunni stolt af nýjustu undirskriftinni á loftslagsyfirlýsingu.
Með hjálp frá minna þróuðum ríkjum, sem búa til neysluvörurnar okkar, getum við með góðum árangri náð fínum loftslagsmarkmiðum. En hvernig væri staðan á hnettinum ef allir hegðuðu sér eins og við? Varla góð …
Að borða og ferðast eins og Íslendingar
Rannsóknir okkar sýna að stærstu tækifærin til að draga úr kolefnisspori okkar er að sleppa kjöti og flugferðum, og það eru örfáir landsmenn sem ná kolefnisspori sínu niður í heimsmeðaltalið með því að gera þetta tvennt saman. Þetta tvennt er einnig talið vera svakalega mikil fórn, og sjaldan sem áhyggjur af loftslagsbreytingum einar og sér ná að framkalla þessar hegðunarbreytingar.
Einnig virkar ágætlega að finna aðrar leiðir til að ferðast um landið og borgina en á bensín- og dísilbílum, en það eitt og sér er langt frá því að vera nóg. En ekki er hægt að gera ráð fyrir því að neytendur breyti hegðun sinni af sjálfsdáðum; stjórnvöld þurfa að setja skýrar og sterkar stefnur sem ýta neytendum í rétta átt. Án innkomu stjórnvalda verða það áfram einungis þessir sárafáu aðilar sem eru tilbúnir til að fórna fjölskyldufríinu til Kanaríeyja eða páskasteikinni. Það er reyndar furðulegt hve fáir sleppa kjötinu því þarna er það ekki bara umhverfið sem græðir, heldur heilsa okkar og velferð dýra …
Hvað með nægjusemi?
Mun tæknin gera öllum kleift að lifa eins og Íslendingar? Munu lífskjör ríkra kannski halda áfram að batna og búa til nýtt norm sem hinir munu leitast aftur við að ná? Mun enn þá meiri velmegun hérlendis gera okkur eitthvað hamingjusamari? Eða er einhver önnur leið þar sem góð lífskjör mæta loftslagvænum lífsstílum? Án nægjusemi er ekki hægt að ná loftslagsvænni framtíð.
Jukka Heinonen, prófessor hjá Háskóla Íslands
Áróra Árnadóttir, aðjunkt hjá Háskóla Íslands
Athugasemdir (1)