Tvö mál gnæfa nú yfir öll önnur í æ fleiri löndum heims, annars vegar hlýnun loftslags og hins vegar misskipting auðs og tekna. Þetta er ný staða. Hvorki loftslagsmálin né misskiptingarvandinn komust á verkaskrá stjórnvalda fyrr en undir aldamótin síðustu.
Ný viðhorf
Það er liðin tíð að hagstjórn þurfi að snúast fyrst og fremst um landsframleiðslu og lífskjör í þröngum skilningi þjóðartekna. Fram undir síðustu aldamót voru í meginatriðum tvær leiðir færar til að örva efnahagslífið og lyfta lífskjörum almennings upp úr lægðum: Annars vegar úrræði sem gátu eigi að síður dregið úr vexti og viðgangi efnahagslífsins til lengdar (t.d. viðskiptahöft og skammsýn útgjöld ríkis og byggða í pólitískum tilgangi) og hins vegar úrræði sem hvöttu til varanlegs vaxtar (t.d. aukin viðskipti við útlönd, meiri og betri menntun og meiri fjölbreytni í efnahagslífinu). Lykillinn að traustri hagstjórn í bráð og lengd var og er að beita fyrst og fremst úrræðum sem fylla síðari flokkinn til að bæta lífskjör fólks að því gefnu að verð á helztu aðföngum endurspegli þjóðhagslegan kostnað við öflun og notkun þeirra og hafna fyrri flokknum eins og hann leggur sig.
Nema nú er uppi nýr vandi. Nú sem fyrr ríður á að aka seglum hagstjórnarinnar í samræmi við almennu regluna sem lýst var að framan og heimfæra regluna upp á ný viðhorf. Hagstjórnin þarf að keppa að settu marki um batnandi lífskjör til frambúðar með úrræðum sem jafnframt tryggja annars vegar viðsnúning þeirrar misskiptingar auðs og tekna sem hefur víða ágerzt mjög frá 1980 og treysta hins vegar viðnám stjórnvalda gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum og takast á við staðbundnar afleiðingar þeirra.
Alþjóðabankinn hagar nú ráðgjöf sinni til aðildarlanda í æ ríkari mæli með þetta nýja sjónarmið að leiðarljósi. Ein vænleg leið að þessu marki er að skjóta fleiri og traustari stoðum undir efnahagslífið og landshættina yfirhöfuð. Fjölbreytni veitir vernd gegn hættunum sem fylgja ofuráherzlu á einhæfa atvinnuvegi og einsleit stjórnmál. Lýðræði borgar sig.
Tengsl fjölbreytni við loftslagsbreytingar
Fjölbreytni eykur mátt og megin efnahagslífsins, lyftir kjörum almennings og auðveldar skilvirkt viðnám gegn loftslagsbreytingum, sem stafa aðallega af losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Í fjölbreyttu efnahagslífi standa margir ólíkir atvinnuvegir hlið við hlið. Fábreytni er skaðleg. Hún skýrir að hluta hversu mörgum ríkjum, sem eiga gnótt olíu og annarra náttúruauðlinda frá Angólu í Afríku til Venesúelu í Suður-Ameríku, hefur ekki farnazt vel á liðnum árum ef þau gættu þess ekki að stemma stigu fyrir ofríki ólígarkanna í náttúruauðlindabransanum. Öll olíuríkin við Persaflóa eru harðsvíruð einræðisríki – og Rússland.
„Fjölbreytni veitir vernd gegn hættunum sem fylgja ofuráherzlu á einhæfa atvinnuvegi og einsleit stjórnmál.“
Loftið sem við öndum að okkur er sameign líkt og fiskurinn í sjónum. Baráttan gegn einhæfni og ofríki í efnahagslífinu, og þá einnig baráttan fyrir því að réttur eigandi njóti afrakstursins af sameignarauðlindum, er náskyld baráttunni gegn hlýnun loftslags af mannavöldum. Málið snýst um þörfina fyrir hagkvæma og réttláta meðferð sameignarauðlinda (fiskur, málmar, olía og timbur auk andrúmslofts). Landslög, stjórnarskrár og alþjóðlegir sáttmálar um mannréttindi skilgreina jafnan náttúruauðlindir, þar með talið andrúmsloftið, sem sameignarauðlindir.
Ofveiði og umhverfismengun, þar með talin losun koltvísýrings út í andrúmsloftið, eru tveir angar á einum og sama meiði. Án viðnáms af hálfu stjórnvalda og án viðeigandi millilandasamninga hneigist gróðasækið einkaframtak til illrar umgengni um sameignarauðlindir. Af þessu helgast þörfin fyrir viðspyrnu stjórnvalda og alþjóðlega samvinnu til að samræma og sætta einkahagsmuni og almannahag á heimsvísu. Þetta á við um allt þrennt: sjávarútveg, auðlindabúskap og loftslagsvernd. Það ætti að réttu lagi ekki að vera einkamál olíufyrirtækja hversu miklum koltvísýringi er hleypt út í andrúmsloftið. Síðan í iðnbyltingunni á 18. öld hafa 2.400 gígatonn af koltvísýringi safnazt saman í lofthjúpnum umhverfis jörðina (eitt gígatonn er milljarður tonna).
Til að bægja vánni frá, það er til að halda hlýnun loftslags innan við 1,5 til 2 gráður í samræmi við ákvæði Parísarsamkomulagsins frá 2015, er rúm fyrir um 400 gígatonn til viðbótar. Nú er því svo komið að geymslurýmið fyrir koltvísýringinn umhverfis jörðina er í þann veginn að fyllast, eigi að takast að halda hlýnun loftslags í skefjum. Ella er voðinn vís.
„Það ætti að réttu lagi ekki að vera einkamál olíufyrirtækja hversu miklum koltvísýringi er hleypt út í andrúmsloftið.“
Fjölbreytt efnahagslíf, þar sem enginn einn, tveir eða þrír atvinnuvegir gnæfa yfir aðra, getur haldizt í hendur við hagkvæmt og réttlátt mótvægi gegn loftslagsbreytingum um allan heim. Krafan um fjölbreytt atvinnulíf og loftslagsvernd er í reyndinni ein og sama krafa. Opinber áskorun forstjóra Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2015 um gjaldtöku fyrir losun koltvísýrings til að draga úr loftslagsbreytingum endurómar sígild rök hagfræðinga fyrir umhverfisgjöldum til að vernda náttúruna og fyrir veiðigjöldum í sjávarútvegi, veiðigjöldum sem bíta.
Hvar liggur ábyrgðin?
Loftslagsváin á það sammerkt með misskiptingarplágunni að þær læddust báðar inn í meðvitund manna um svipað leyti árin frá 1980 fram að aldamótum. Þetta gerðist hægt. Þetta voru þau ár þegar forstjórar stórfyrirtækja tóku í krafti samþjöppunar og fákeppni að skammta sjálfum sér og hver öðrum sífellt betri kjör og ríflegri kaupauka þótt kaupmáttur launa venjulegs verkafólks stæði í stað til dæmis í Bandaríkjunum. Vandinn ágerðist með hruni kommúnismans eftir 1990 þegar blandaður markaðsbúskapur stóð einn eftir sem nothæft hagskipulag og sigurvegarar kalda stríðsins börðu sér á brjóst í sigurvímu og töldu sér alla vegi færa til aukinnar framleiðslu.
Forstjórum bandarískra stórfyrirtækja voru 2022 greidd laun og kaupaukar sem eru 344-faldir á við laun óbreyttra starfsmanna (1965 var hlutfallið 21). Það tekur forstjórann því einn dag að vinna sér inn árslaun verkamannsins. Hliðstæð tala fyrir Bretland 2022 er 120-faldur munur. Varla þarf nokkurn mann að undra urgurinn í mörgum launþegum frammi fyrir slíkum ójöfnuði. En forstjórarnir héldu sínu striki og létu sem þeir tækju hvorki eftir misskiptingunni né menguninni og þá um leið hlýnuninni sem fylgdi síaukinni framleiðslu fyrirtækja þeirra. Þessi lýsing á sumpart einnig við um Evrópu.
„Forstjórar stórfyrirtækja hafa reynzt hirðulausir á heildina litið og bera þunga ábyrgð gagnvart almenningi og heiminum öllum.“
Brennsla jarðefnaeldsneytis (kol, olía og gas) veldur nærri 90% af losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Losunin sveipar blæju um jörðina svo að hitinn frá sólinni nær ekki að snúa aftur út í geim og hitastigið á jörðu niðri hækkar eftir því. Eldsneytinu er varið til rafmagns- og iðnvöruframleiðslu, landbúnaðar og samgangna, hitunar og kælingar húsa og ýmislegrar ofneyzlu, auk þess sem skógarhögg hleypir kolefninu sem er bundið í lifandi trjám út í andrúmsloftið.
Aukin framleiðsla á fullan rétt á sér, nema hvað, og er nauðsynleg í heimi þar sem fátækt er víða sár og fólkinu fjölgar. En það er ekki sama hvernig að framleiðslunni er staðið. Þeir sem hafa stýrt framleiðslunni, einkum forstjórar stórfyrirtækja, hafa reynzt hirðulausir á heildina litið og bera þunga ábyrgð gagnvart almenningi og heiminum öllum. Þeir þræta sumir enn fyrir hlýnun loftslags líkt og þeir þrættu lengi fyrir aukinn ójöfnuð. Stjórnvöld hafa sums staðar streitzt á móti, rétt er það, en þau hafa enn sem komið er mátt sín lítils hvort heldur í veikburða viðnámi gegn hlýnun loftslags eða gegn misskiptingu auðs og tekna. Stjórnvöldum væri að sönnu í lófa lagið að ráðast gegn misskiptingunni með því að opna skattaskjólin og gera upptækt þýfi sem þar er geymt, enda eru skjólin talin geyma fé sem jafngildir 10% af samanlagðri framleiðslu allra landa heims á einu ári. Vilji er allt sem þarf. Erfiðara kann að reynast að stöðva hlýnun loftslags.
Hvað geta smáþjóðir gert?
Smáþjóðir eru lítils megnugar þegar heimurinn stendur frammi fyrir loftslagsvá sem stórþjóðirnar bera höfuðábyrgð á langt aftur í tímann. Smáþjóðir geta þó kosið að ganga á undan með góðu fordæmi með því að leggja rækt við það sem venesúelski hagfræðingurinn Ricardo Hausmann, prófessor í Harvard-háskóla og fyrrum ráðherra í Venesúelu, kallar græn vaxtarfæri.
„Loftslagsváin á það sammerkt með misskiptingarplágunni að þær læddust báðar inn í meðvitund manna um svipað leyti.“
Þetta er hægt meðal annars með því að framleiða meira rafmagn úr grænum orkugjöfum (þ.e. vindi og sólarorku auk vatnsorku) til að minnka þörfina fyrir brennslu jarðefnaeldsneytis. Grænar uppsprettur eru nú vel á veg komnar með að ýta olíu og gasi til hliðar sem leiðandi orkugjöfum. Sólarorka og vindorka eru samfelld og endurnýjanleg auðlind og námu samtals um 13% af heildarraforkuframleiðslu heimsins 2023, borið saman við 14% hlutfall vatnsafls. Vindorka vex nú hraðar en sólarorka og kostar um það bil það sama. Hrein endurnýjanleg orka nemur nú 30% af heildarraforkuframleiðslu heimsins. En flæði frumorku frá sól eða vindi sveiflast til og kallar á orkuforðabúr, til dæmis rafhlöður og miðlunarlón fyrir vatnsorku, og jafnframt á breytilegt raforkuverð til að brúa bilið milli raforkunotkunar og raforkuvinnslu og milda sveiflur.
Orkufrekur iðnaður er bezt geymdur í löndum sem eiga gnótt af grænni orku, því þannig er hægt að halda flutningskostnaði í skefjum. Hlúa þarf að traustum innviðum og halda fjármagnskostnaði og verðbólgu niðri. Framleiðsla á endurnýjanlegri orku á nýjum stað er kostnaðarsöm í framkvæmd, einkum ef staðbundnir fákeppnisbankar bjóða aðeins upp á himinháa útlánsvexti. Fylgjast þarf vel með nýrri tækni til að draga úr kostnaði. Til dæmis virðast nýjar málmlausar rafhlöður líklegar til að skila umtalsverðum hagsbótum.
Loks þarf að hugleiða ólíkar leiðir til að fanga kolefni. Sjávarlíffræðingar hafa komizt að því að hver risahvalur sem deyr í sjónum og sekkur til botns bindur um 33 tonn af koltvísýringi og fjarlægir þannig kolefnið úr andrúmsloftinu um aldir. Einn dauður stórhvalur á hafsbotni bindur jafnmikið af koltvísýringi og skógur með 1500 stórum trjám. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vekur athygli á þessum samanburði í skýrslum sínum. Þar er því haldið fram að fjórfalda þurfi hvalastofnana, sem þýðir að snúa þurfi við 75% fækkun hvala undanfarna áratugi, til að sporna gegn hlýnun loftslags auk annars. Ef hvalir eru eins og regnskógar geta fílar og önnur stór spendýr gegnt hliðstæðu hlutverki í baráttunni gegn loftslagsbreytingum í Afríku og Asíu.
Höldum áfram að læra með rök og reynslu að leiðarljósi. Beinum útgjöldum ríkis, byggða og einkaframtaks inn á grænni lendur í samræmi við ráðgjöf yfirgnæfandi hluta náttúrurvísindamanna um allan heim. Það er eina færa leiðin til að forða heimsbyggðinni undan sífellt þyngri veðurofsa, bráðnandi jöklum, brunnum túnum og annarri slíkri óáran af mannavöldum.
Tilvísunin í bráðnandi jökla, brunnin tún er sótt í umhverfisósómakvæði Kristjáns Hreinssonar, Álfangar.
Athugasemdir (2)