Reglulega berast okkur í Lífsvirðingu sögur frá einstaklingum sem hafa horft upp á fjölskyldumeðlimi, vini eða ættingja þjást óbærilega við lífslok, jafnvel þrátt fyrir að besta mögulega umönnun sé veitt. Algengt er að þessir einstaklingar glími við ólæknandi sjúkdóma.
Neðangreindar reynslusögur eru birtar með leyfi þeirra sem deildu þeim með okkur.
„Bara morð í sparifötunum“
Ein reynslusaga segir frá 41 árs gömlum manni með ristilkrabbamein sem var settur í lífslokameðferð. „Það er eingöngu dælt í hann lyfjum og morfínblöndu. Tveimur vikum seinna er hann enn á lífi en meðvitundarlaus. Hjúkrunarfólk og læknar eru undrandi á því hversu lengi hann lifir svona næringarlaus. Beðið er hreinlega eftir því að hann deyi með því að svelta hann til dauða. Þetta er með því óhugnanlegasta sem við höfum heyrt af.“
Mamma hans segir: „Hann er grindhoraður og augun hvolfast inn í höfuðkúpuna. Allt mjög óhugnanlegt. Hef áhyggjur af konunni hans og dætrum að þær biði skaða andlega. Þetta er allt mjög ómanneskjulegt... Ég skil ekki af hverju ekki er hægt að biðja um líknarsprautuna þegar allt er svona langt gengið. Þetta er hræðilegur dauðdagi. Engin líkn. Þetta er bara morð í sparifötunum.“
„Ég veit fyrir víst að svona vildi hún aldrei enda líf sitt“
Annar einstaklingur deilir sorglegri sögu um sjúkdómsferli eiginkonu sinnar sem greindist með krabbamein sem dreifði sér í nýrnahettur og höfuð: „Hún spurði lækninn hvort hún gæti ekki fengið sprautu og klárað þetta eða fengið að fara til Sviss þar sem löglegt er að hjálpa fólki við þessar aðstæður. Það liðu ekki tvær vikur og þá var hún komin inn á líknardeild og henni fór að hraka. Það var komið að henni á líknardeildinni þar sem hún var búin að lyfta bolnum og var að reyna að enda lífið með því að stinga sig með skærum. Hún hitti aðeins bringubeinið og varð ekki meint af… Nú er þetta orðið þannig að hún er með tvær dælur, önnur er með verkjalyfjum og hin með slævgandi lyfjum. Eftir atvikum fær hún aukaskammt. Ég veit fyrir víst að svona vildi hún aldrei enda líf sitt. Ég tala nú ekki um mig, börnin okkar og ættingja og vini að sjá henni hraka svona.“
„Hver er reisnin?“
Átakanleg er frásögn barnabarns: „Amma lá síðustu þrjú árin í rúminu á elliheimilinu sem hún dvaldi á, þekkti orðið engan afkomenda sinna, grét bara og það eina sem skildist var þegar hún bað í sífellu Guð að taka sig. Þegar kom að því að hún skildi við, orðin 101 árs gömul, var lífið látið fjara út með lífslokameðferð. Ég varð svo reið. Þetta var bara fallegra orðalag yfir því að svelta hana í hel. Það tók hana rúmar tvær vikur að fjara þannig út. Hver er reisnin? Þetta var svo ömurlegt í alla staði.”
„Af hverju má ekki lina þjáninguna nú þegar?“
Einstaklingur sem hefur starfað á hjúkrunarheimili þar sem margir íbúar voru með heilabilun eða hrörnunarsjúkdóma hefur sterkar skoðanir á mikilvægi dánaraðstoðar. „Að deyja hægt úr kvalarfullum sjúkdómi er fyrir mér pynting, og þykir mér merkilegt hvað fólki finnst algjörlega sjálfsagt að svæfa dýr, svo þau þjáist ekki, en á sama tíma þykir eðlilegt að manneskjur þjáist langtímum saman.“
Hún bætir við: „Einnig hef ég setið banaleguna með ástvin sem dó úr lungnasjúkdómi, og það að sitja og hlusta á einhvern kafna hægt og rólega er upplifun sem ég óska engum. Þá hugsaði ég oft með mér: „Við vitum öll að það er engin von um að viðkomandi lifi þetta af, þetta er bara tímaspursmál, af hverju má ekki lina þjáninguna nú þegar?““
Hryllingssögur skoskra aðstandenda
Svipaðar reynslusögur berast frá öðrum löndum. Skoski þingmaðurinn Liam McArthur leitaði til almennings um álit hans á dánaraðstoð. Tæp 13.000 manns svöruðu og sendu inn persónulega vitnisburði og reynslusögur. Það þarf sterka sannfæringu til að leggjast gegn dánaraðstoð eftir að hafa kynnt sér þessar sögur, t.d. frá konu sem horfði á 65 ára gamlan föður sinn drukkna í „svörtu blóðugu froðunni“ sem huldi munninn og nefið á honum þegar æxlið í maga hans sprakk. Eftir að hafa hjúkrað 64 gamalli móður sinni sem öskraði af sársauka vegna krabbameins og var með legusár á stærð við barnshönd segir hún: „Umönnun við lífslok og stuðningur við að deyja ætti að vera réttur hvers einstaklings. Gæludýr eru meðhöndluð með meiri gæsku við lífslok. Andlát móður minnar og föður, óttinn þeirra og sársaukinn, mun vera með mér restina af lífinu.“
Djúpstæð áhrif á ástvini
Þegar einstaklingar eru sviptir möguleikanum á að deyja með reisn, hefur það djúpstæð og varanleg áhrif á ástvini þeirra. Hér er önnur frásögn: „Bæði bróðir minn og kona hans voru með ólæknandi sjúkdóma. Líknandi meðferð var ekki árangursrík. Þau tóku eigið líf á hræðilegan hátt með svokölluðum sjálfsmorðspoka. Síðan þá hef ég ekki sofið eina einustu nótt án martraða. Ég vil ekki að neinn annar þurfi að ganga í gegnum þetta NOKKURN TÍMANN. Fólk verður að hafa rétt til að stjórna eigin líkama og ákveða hvenær kominn er tími til að fá að fara á rólegan hátt og með stuðningi frá fjölskyldu sinni.“
Virðum sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga
Ofangreindir vitnisburðir varpa ótvíræðu ljósi á nauðsyn þess að viðurkenna og styðja við rétt einstaklinga til að taka ákvarðanir um eigin lífslok, þar með talið að geta fengið dánaraðstoð. Við þurfum að leggja áherslu á mannúðlega nálgun þar sem virðing fyrir vilja og þörfum þeirra sem eru deyjandi er í öndvegi. Engum ætti að vera neitað um réttinn til að velja eigin lífslok þegar þjáningin ein er eftir. Það væri stórt skref fram á við fyrir okkur Íslendinga að setja lög um dánaraðstoð og fylgja þar með í fótspor fjölda annarra þjóða sem hafa þegar tekið þetta mikilvæga skref.
Greinarhöfundur er formaður Lífsvirðingar, sem berst fyrir löggjöf um dánaraðstoð.
Athugasemdir