„Þetta reddast“
Svona lýsir ráðherra í ríkisstjórn Íslands því hvernig stjórnvöld á Íslandi láta öll sjálfsögð vinnubrögð og raunar skynsemina sjálfa, lönd og leið, þegar þeim hentar svo. Ekki síst þegar upp á banka hópar innlendra og erlendra fjárfesta, með ævintýralegar eða stórkarlalegar hugmyndir. Oftar en ekki hingað komnir vegna þess að áformin fengjust aldrei samþykkt annars staðar. Líka vegna þess að á Íslandi seljum við okkur ódýrt – borgum jafnvel með okkur.
Þetta gerum við til dæmis þegar hópur manna vill skola allt að hálfri milljón tonna af kanadísku trjákurli í sjóinn við Ísland, í besta falli á hæpnum forsendum en í versta falli með skaðlegum óafturkræfum áhrifum fyrir vistkerfi hafsins.
Einn stuttur fundur með ráðherra er nóg til þess að ráðherra, í félagi við þrjá aðra kollega sína kvitti upp á stuðningsyfirlýsingu við fyrirhugaðar aðgerðir fjárfestanna – skrifaða af fjárfestunum, sem kalla sig frumkvöðla.
Hvers vegna?
Fyrir fjárfestunum vakir að hagnast á því að sigla til Íslands tugum þúsunda tonna af viðarflísum, blanda í þau sementi og kalksteini, áður en öllu saman er siglt út á rúmsjó og sprautað í sjóinn. Merkilegt nokk er nefnilega markaður fyrir því.
Íslensk stjórnvöld ná í leiðinni að sýna lit. Í þessu tilfelli grænan. Að kaupa sér tíma og skapa þá ásýnd að hér á Íslandi sé unnið að því á fullu að vinna bug á loftslagsvandanum. Undir því fororði að Ísland ætli sér að vera „vagga“ kolefnisförgunar. Ráðherrarnir sem skrifuðu undir yfirlýsinguna eru reyndar ekki allir með það á hreinu hvort um sé að ræða förgun eða föngun kolefnis í þessu umrædda verkefni.
Forsvarsmenn fyrirtækisins Running Tide virðast ekki heldur vissir um það hvað þeir ætli sér að gera, hvernig og með hvaða árangri. Þeir vita hins vegar að þeir séu mættir í „bisness“.
Heimsþekkt stórfyrirtæki, íslensk og jafnvel þýskar sinfóníuhljómsveitir, verða líka að sýna lit, þó ekki nema til að sýnast. Þessir aðilar eru því meira en til í að borga fyrirtæki eins og Running Tide fyrir að urða kanadískan afskurð í íslenskum sjó og vega þannig upp á móti útblæstri 12 þúsund fólksbíla á einu ári, eins og Running Tide hefur fullyrt að hafi verið gert hér í fyrrasumar.
Jafnvel þó enginn fáist til að kvitta upp á þann árangur, eða hvort aðferðin sem beitt er standist yfirleitt lágmarks skoðun.
Heimsmeistarar í fjöruhlaupi
Íslenskir ráðherrar mæta samt bísperrtir í fjölmiðaviðtöl og ræðustól Alþingis og kveða upp úr um að á Íslandi sé orðið til stærsta „varanlega kolefnisföngunarverkefni í heimi“ með því að farga kanadísku trjákurli.
Þessar fullyrðingar ráðamanna byggja ekki á neinu öðru en orðum forsvarsmanna Running Tide, jafnvel þó til þess bærar stofnanir slægju varnagla við áformunum. Svo heillaðir voru ráðherrarnir af fullyrðingum fyrirtækisins, að þeir sáu enga ástæðu til þess að eitthvert eftirlit yrði með því sem fyrirtækið ætlaði sér. Hvað þá að framkvæmt yrði mat á áhrifum þess sem til stóð að gera.
Ráðherrann sem svo formlega veitti leyfið segist enga ábyrgð bera á því að eftirlitið vanti og bendir á annað ráðuneyti. Það bendir á undirstofnun sína, sem þorir ekki að benda til baka. Benda á að sjálft umhverfisráðuneytið íslenska hafi sagt Umhverfisstofnun að aðgerðir Running Tide væru ekki „varp í hafið“ og því væri ekki ástæða til að hafa eftirlit með því.
Sú niðurstaða er reyndar verðugt verkefni fyrir heimspekideild Háskólans að velta upp og fjalla sérstaklega um. Þeir sem kenna opinbera stjórnsýslu í sama skóla geta svo velt fyrir sér ferlinu öllu.
Í Heimildinni í dag er varpað ljósi á þessa dæmalausu sögu fyrirtækisins Running Tide á Íslandi.
Í rannsókn tveggja blaðamanna er rætt við fjölda vísindamanna sem hafa varið áratugum í rannsóknir á því sviði sem Running Tide segist byggja starfsemi sína á. Enginn þeirra er tilbúinn til að skrifa upp á vísindin eða vinnubrögðin sem hafa verið viðhöfð. Meira að segja ekki sérhæfður vísindaráðgjafi fyrirtækisins sem forsvarsmenn Running Tide segja að hafi lagt blessun sína yfir aðgerðir þeirra og „vöruna“ sem þeir seldu. Aflátsbréfin úr trjákurlinu.
Godzilla og Dunkirke
Talsmenn fyrirtækisins hafa farið eins og krossfarar um heiminn og slegið um sig með hæpnum fullyrðingum og líkingum, sem benda ekki til þess að þar fari menn sem glími við efa um eigið atgervi. Í samskiptum Heimildarinnar við þá var helst á þeim að skilja að öfund og misskilningur skýrði alla gagnrýni á aðgerðir fyrirtækisins.
„Gagnmokstur í alla áveituskurði og framræstar mýrar heimsins, skógrækt á öllu ræktanlegu landi jarðar og það að henda svo öllum þessum skógi í sjóinn og planta nýjum, mun ekki breyta því.“
Vísindamenn, með sérþekkingu á því sviði sem Running Tide byggir viðskiptamódel sitt á, segja fullyrðingar fyrirtækisins ekki byggja á vísindalegum rökum. Það sé vægast sagt hæpið að fullyrða um, hvað þá selja, tuga þúsunda tonna kolefnabindingu. Viðmælendurnir furða sig ekki síst á vinnubrögðum íslenskra stjórnvalda í málinu.
En eiga þau að koma okkur á óvart?
Í rauninni alls ekki. Kolefnisbinding, það að soga til baka mengunina sem af okkar völdum fer út í andrúmsloftið, hefur í mörgum tilfellum reynst hreint skálkaskjól. Um hana hefur myndast iðnaður og viðskipti sem velta ævintýralegum fjárhæðum. Grundvöllurinn er oft hæpinn, staðfesting yfirlýsts árangurs léleg eða engin meðan áherslan á raunverulega verkefnið sem við blasir er minni en ella.
Við höfum á undanförnum árum kokgleypt við hverri skyndilausninni á fætur annarri, sem átti að gera okkur kleift að kaupa okkur frá þeirri gegndarlausu losun kolefnis, sem við þó vitum að mun og er þegar farin að stórskaða okkur.
Kolefnisjafnan
Til varð markaður sem seldi fyrirtækjum og einstaklingum leiðir til að kolefnisjafna sig. Vottunariðnaður, sem reynst hefur verulega vafasamur og raunar gert kolefnisjöfnunarmarkaðinn ómarktækan, varð til þessu samhliða. Markaðssetningin á mörgum þessara lausna var því í besta falli vafasöm og raunar fádæma ósvífin eins og Heimildin greindi frá í umfjöllun um kolefnisjöfnunarbisnessinn íslenska.
Hvort sem það var plöntun trjáa eða endurheimt votlendis, voru loforðin ýmist loðin eða einfaldlega hrein lygi. Stærstu fyrirtæki landsins höfðu samt hiklaust spilað með, skreytt sig, markaðssett og áframselt viðskiptavinum sínum þessa fölsku vöru. Þegar upp um það komst neyddist stærsta flugfélag Íslands og einn stærsti smásali kolefnaeldsneytis, til þess að finna aðrar aðferðir til þess að dreifa athyglinni frá því að starfsemi þeirra átti allt sitt undir óbreyttu ástandi.
Það á reyndar ekkert bara við um þessi stórfyrirtæki, þó vissulega hafi aðgerðarleysi þeirra mun meiri afleiðingar en annarra. Flest erum við tilbúin til þess að grípa hvert tækifæri sem gefst til þess að gera allt annað en það sem við blasir að þurfi að gera: Að draga úr losun.
Gagnmokstur í alla áveituskurði og framræstar mýrar heimsins, skógrækt á öllu ræktanlegu landi jarðar og það að henda svo öllum þessum skógi í sjóinn og planta nýjum, mun ekki breyta því.
Við vitum líka að friðþægingin sem við fáum við það að fjölga ruslatunnum við heimili okkar, er ekki mikils virði þegar til kemur. Orðum það bara eins og það er: Það er búið að ljúga því að okkur – jafnvel í áratugi – að við getum með tiltölulega hreinni samvisku, haldið óbreyttum lífsstíl.
Platendurvinnslan
Þegar til kastanna kom höfðu sérhagsmunir, vanhæfir pólitískir vildarvinir og ekki síst sú staðreynd að við hvorki vildum né kærðum okkur um að vita, að ekki stóð steinn yfir steini í endurvinnslulandinu Íslandi. Heimildin og annar forveri hennar hafa ljóstrað upp um hvert hneykslið á fætur öðru þessu tengt á undanförnum árum.
Plastið sem við flokkuðum í vöruhús í Svíþjóð, glerið sem við skiluðum í endurvinnslu sem endaði sem undirlag á ruslahaugum, mjólkurfernurnar sem allir nema neytendur og markaðsmenn Mjólkursamsölunnar virtust vita að fengu aldrei framhaldslíf. Moltan sem umhverfisfyrirtæki ársins dreifði plastmengaðri til uppgræðslu og svona mætti lengi telja.
Íslenska leiðin
Í dag verður aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum kynnt. Það er tæpast von á miklu í landi þar sem stendur til að moka tveimur fjöllum upp á vörubílspalla, keyra þau í verksmiðju, flytja úr landi og framleiða úr þeim „umhverfisvænt" sement; sem svo er sagt lækkka kolefnisspor Íslands um milljón tonn á ári.
Það er miklu lílegra að enn fleiri reiknikúnstir verði kynntar og skili niðurstöðu sem forða okkur frá hinu raunverulega verkefni.
Því að við getum ekki fyrir nokkra muni breytt lifnaðarháttum okkar. Farið frá því að nota of mikið og skeyta litlu eða engu um hvernig það verður til eða hvað verður um það.
Það breytir engu þó við Íslendingar snúum upp á okkur og teljum okkur einhvern veginn mega og nánast eiga að halda ótrauð áfram, vegna þess að hér séum við svo heppin að eiga auðlindir sem valda minni beinum skaða en víða annars staðar. Þess vegna sé það nánast fæðingarréttur okkar að þurfa að taka minni ábyrgð en aðrar þjóðir.
Við vitum líka fullvel að áhrifin af þessari gegndarlausu neyslu bitnar harðast á þeim sem síst skyldi. Breytt veðurfar, öfgafull ofviðri og þurrkar eða flóð, valda ólýsanlegum hörmungum þar sem býr fátækasti og berskjaldaðasti hluti mannkyns.
Á meðan flytjum við fjöll og sækjum aflagða skóga til Kanada og hendum í sjóinn.
Vitum betur en vonum samt að þetta reddist.
https://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20240618T135828&fbclid=IwZXh0bgNhZW0CMTEAAR0vtDlZeSny9uCeihwVXTwhVEVTM9HT0kPdlP8_RHS7y6nzyPD4LyRgm08_aem__9YcDbz_Fw0h8xEC0jnE6A
https://www.bbl.is/skodun/lesendaryni/framtid-veida-med-botnvorpu?fbclid=IwZXh0bgNhZW0CMTEAAR3FZbDf5lVmo10YypqDUeKn-HMwKOVLHYJQjlugTcJaiVGvntpQeD4UPyc_aem_KHmefaQVlEFCpi1kkzdQJQ
https://www.technologyreview.com/2022/06/16/1053758/running-tide-seaweed-kelp-scientist-departures-ecological-concerns-climate-carbon-removal/amp/
"Forsvarsmenn fyrirtækisins Running Tide virðast ekki heldur vissir um það hvað þeir ætli sér að gera, hvernig og með hvaða árangri. Þeir vita hins vegar að þeir séu mættir í „bisness“."
Eina sem er algjörlega augljóst af þessu, er að þú hefur engan skilning á því hvernig stofnun og standsetning nýsköpunarfyrirtækja virkar.
Það er margt í loftslagsaðgerða-heiminum sem er á "gráu" svæði. En það er því miður vegna þess að við höfum ekki neinar aðrar lausnir sem definitely virka.
Ég veit þú heldur að þú sért að gera gott með þessum skrifum. En þú ert svo raunverulega ekki að gera það. Þú ert ekki að rífa niður neina múra til að liðka fyrir loftslagsaðgerðum, þú ert bara að gera erfiðara fyrir.
Ekki nema það sé markmiðið og þér finnst climate change vera hoax?
Og hitt, það er engin „endurvinnsla“ á t.d. glerflöskum (sem er bara hent), plastflöskum (sem eru ekki endurunnar í flíspeysur eins og var logið að okkur), áldósir (sem eru ekki endurunnar í flugvélar eins og var logið að okkur) eða pappír sem er ekki endurunninn. Hvað þá föt!
Það sem er að gerast er tvennt, verðið á allri „endurvinnslu“ er að hækka og hækka. Og við fáum fleiri lygasögur!