Í gærkvöldi sprautuðu lögreglumenn útþynntum piparúða á hóp fólks til þess að framfylgja beiðni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra um að komast leiðar sinnar út úr þinghúsinu, rétt eins og snjóruðningstæki á Steingrímsfjarðarheiðinni snemmsumars.
Lögreglan kallar gasið „varnarúða“, en það virkar einnig sem fyrirbyggjandi lúbríkant umferðar eða WD-40 valdsins.
Við styðjum auðvitað öll að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra komist leiða sinna hindrunarlaust. Hann hefur sjálfur bent á að hvergi í heiminum liðist að fólk gæti stöðvað för forsætisráðherra, en síðan má spyrja sig hvar í heiminum það líðst að maður verði forsætisráðherra þegar tæp 80% landsmanna eru á móti því.
Það sem er þó áhugaverðast er hvernig honum hefur tekist að öðlast brautargengi með sérstæð stefnumál, jafnvel þótt hann hafi ekki verið í bílstjórasætinu.
Eitt þeirra varðar almenningssamgöngur. Nokkrum dögum áður en forsætisráðherra fékk gasaða leið í gegnum Templarasund fór ferðamaður fótgangandi eftir þjóðveginum frá Keflavík að Keflavíkurflugvelli til að sýna fáránleika þess að ekki væri hægt að taka almenningssamgöngur á íslenska alþjóðaflugvöllinn snemma nætur.
Ástæðan er flókin, en ákvörðunina tekur opinbera hlutafélagið Isavia. Því er stýrt af stjórn sem ráðherra skipar, nú undir forsæti Kristjáns Þórs Júlíussonar, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Isavia hefur sett í forgang að rútufyrirtæki fái aðgengi að flugvellinum frekar en Strætó. Þannig eru lélegri merkingar og meiri fjarlægð í stoppistöð Strætó heldur en rútufyrirtækin, fyrir utan að fyrsti Strætó dagsins kemur klukkan átta að morgni, eftir að mörg flug eru farin. Framkvæmdastjóri viðskipta- og þróunar hjá Isavia sagði í viðtali fyrr á árinu að litið væri á Strætó sem „fyrst og fremst fyrir starfsfólk flugvallarins“. Enda er ekki lógískt eða lógistískt fyrir ferðamenn að nota opinberu almenningssamgöngurnar okkar, líkt og þeir hafa sjálfir ítrekað lýst.
Ferðamaðurinn hefði geta tekið leigubíl, en var með skertan greiðsluvilja. Það er ólíkt okkur hinum sem borgum húsnæðislánavexti sem komast næst Úkraínu og Rússlandi af öllum þróuðum ríkjum, í landi þar sem „ríkisstjórnin mun leggja sitt af mörkum til að stuðla að umhverfi lágra vaxta, hóflegrar verðbólgu,“ eins og sagði í stefnuyfirlýsingunni 2021.
En auðvitað eru verðbólga og vextir illviðráðanleg fyrirbæri á Íslandi, eins og illviðrin. Það sem er áhugaverðast er það sem þau beinlínis ákveða að gera.
Meðvituð hindrun orkuskipta
Í dag hefur hlutfall rafbíla í innfluttum bifreiðum hrunið, en dísil- og bensín-bílar eru að eiga dýrðlega endurkomu. „Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang,“ sögðu þau í stefnuyfirlýsingunni. „Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni,“ bættu þau í. Hlutfall rafbíla af innfluttum bílum var rúmlega 40% fyrstu fimm mánuði í fyrra, en er núna komið niður í 14,7%.
Ísland var í fremstu röð í rafbílavæðingu, en tók síðan u-beygju. Var það vegna þess að Bjarni þurfti að komast leiðar sinnar?
Bjarni var fjármálaráðherra þegar ákvörðunin var tekin um að setja á sérstakan rafbílaskatt og afnema skattaafslátt af innflutningi vistvænna bíla, eða breyta honum í lægri styrk sem sækja þyrfti um. Hann hafði lengi talað um mikilvægi þess að skattleggja rafbíla til að fjármagna vegakerfið. Niðurstaðan var að setja 6 krónu kílómetragjald á rafbíla, en að bíða með að setja kílómetragjald á loftmengunarbílana. Þannig varð hlutfallslega hagastæðara en áður að kaupa nýja bensín- og dísilbíla, þótt flestir útreikningar séu á þá leið að rafmagnsbílar séu enn ódýrari í rekstri eftir visst mörg ár.
Tækifæri Vinstri grænna
Mörg hefðu áður trúað því að ef Vinstri græn fengju einungis tækifæri til að hafa forsætisráðuneytið myndu þau strax ná árangri í því að efla almenningssamgöngur - fyrir umhverfið, loftslagið, viðskiptajöfnuðinn og sparnað heimilanna. Svo ekki sé talað um að fá sívaxandi fjölda ferðamanna til að nota Strætó og borga þannig fyrir innviðina okkar.
Ein af helstu ráðgátum og kannski pólitískum harmleikjum ársins var ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG og þá forsætisráðherra, um að reyna að öðlast meiri áhrif á Ísland með því að segja af sér sem forsætisráðherra og bjóða sig fram í embætti forseta. Það er þekkt að embætti forseta er valdalaust og áhrifin táknræn, á meðan forsætisráðherra er æðsta valdastaða framkvæmdavaldsins.
Vinstri græn höfðu boðið sig fram til Alþingis með auglýsingaherferðinni: „Það skiptir máli hver stjórnar“. Hún var bílstjórinn, en leið henni eins og ráðherrabílstjóra? Ein sennilegasta tilgátan er að Katrín áleit að þau væru öll saman í Strætó.
Ef Ísland væri Danmörk
Í Kaupmannahöfn tekur um 15 mínútur að ferðast beint innan úr flugstöðinni inn nánast hvert sem er á miðborgarsvæðinu. Hér tekur um einn og hálfan tíma að fara frá flugvellinum og nálægt miðborginni, það er að segja á BSÍ. Þaðan má finna leið á aðra nálæga strætóstöð, í næstu götu, til að komast í miðborgina eða á flugvöll fyrir innanlandsflugið. Jú, það búa næstum þrefalt fleiri í Kaupmannahöfn en á höfuðborgarsvæðinu hér, en í landi sem ákveður að gera ferðaþjónustu að burðarstólpa hagkerfisins og sjálfbærni að einkennismerki sínu verður leið okkar að því takmarki að flokkast undir utanvegaakstur. Líklega er þessi aðkoma að landinu og meðvituð ákvörðun um að beygja út í skurð áþreifanlegasti áfellisdómurinn yfir okkur, því þar sameinast barátta gegn heilnæmu lofti, þjóðhagslegum sparnaði, styrkingu gjaldmiðilsins, sjálfbærni samfélagsins, farsæld mikilvægs atvinnuvegar og almennri skilvirkni.
---
PS: Það hefur ekkert með stefnu Íslands að gera að fjölskyldufyrirtæki Bjarna Benediktssonar, Kynnisferðir, er rútufyrirtækið sem forgangsekur ferðamönnum frá flugstöðinni og á BSÍ. Menn verða að geta stundað viðskipti og fjölskyldan hans bauð einfaldlega opinbera hlutafélaginu Isavia best.
PPS: Það hafði heldur ekkert að gera með afstöðu Bjarna Benediktssonar þegar hann var stjórnarformaður helsta eldsneytissala landsins, N1, samhliða þingmennsku. Eða að hann og þau fengu kúlulán frá Glitni til að fjármagna nánast öll kaupin á N1.
PPPS: Kynnisferðir sjá um þriðjung allra leiða fyrir Strætó á höfuðborgarsvæðinu hvort sem er.
Ekki er þó neitt fararsnið á Bjarna sem krafðist þess á sínum tíma að Jóhanna skilaði lyklunum þegar hún og ríkisstjórn hennar höfðu meira fylgi en Bjarni og ríkisstjórn hans hafa núna.
一本
Vegalengdin er svipuð, a.m.k. hvað tímann varðar, um 40 mínútur.
En haldið ykkur fast: einfalt far kostar 2.30 €, um 350 krónur.
Hér heima yfir 3.000.