Þegar talið barst að ástandinu á Gaza-svæðinu í kappræðum Heimildarinnar í gærkvöld fékk Margrét Marteinsdóttir, annar þáttarstjórnanda, ekki að ljúka við spurninguna.
„Þetta eru bara hreinir og klárir stríðsglæpir!“ kallaði Jón Gnarr ofan í spurninguna og uppskar fyrir það mikið lófatak.
Auk Jóns tóku fimm aðrir forsetaframbjóðendur þátt í kappræðunum og tjáðu þar skoðanir sínar á aðstæðum á Gaza og hvort þeir teldu að þar ætti sér stað þjóðarmorð.
Verið að skoða þjóðarmorð
Hvorki Halla Hrund Logadóttir né Katrín Jakobsdóttir vildu fullyrða að um þjóðarmorð væri að ræða. „Það er verið að skoða það [hvort að um þjóðarmorð væri að ræða]. Þetta eru hræðilegar aðstæður. Ég á sjálf vini frá Palestínu og þekki fólk sem hefur verið að vinna þar. Það er ekkert sem afsakar þessa viðburði,“ sagði Halla Hrund.
Henni finnst að forseti eigi að nýta samtöl, tækifæri og aðgang embættisins til að tala fyrir friðsamlegum lausnum. „Í samhengi við Ísland mun ég sannarlega gera það í samræmi við stefnu stjórnvalda.“
Katrín sagði að skýrt brot á alþjóðalögum ætti sér nú stað. „Það er fullkomlega eðlilegt að forseti tali mjög skýrt gegn slíkum brotum og fyrir friði.“ Allar raddir sem tali fyrir friði hjálpi til.
Það sem er að gerast í Palestínu – er það þjóðarmorð að þínu mati?
„Það er til rannsóknar fyrir dómstólum núna. En eins og ég sé þetta skýr og klár brot á alþjóðalögum, mannúðarlögum og hryllilegir hlutir sem íslensk stjórnvöld og forseti eiga að nota sína rödd til að andmæla,“ sagði Katrín.
Halla og Baldur telja þjóðarmorð eiga sér stað
Halla Tómasdóttir sagðist vera hryggbrotin yfir því sem væri að gerast á Gaza. „Þetta er að kremja í mér hjartað og ég held að okkur líði öllum alveg ótrúlega illa út af þessu. Auðvitað eru þetta stríðsglæpir. Auðvitað eru þetta brot á alþjóðalögum.“ Í hennar huga er enginn vafi að það sem eigi sér stað sé þjóðarmorð.
Hún vill að forsetinn vinni með ríkisstjórn landsins að því að gera Ísland að talsmanni friðar, friðsamlegra lausna og vopnahlés. „Ég held að fleiri konur í forystu muni breyta heiminum til hins betra í þessu og held að forseti Íslands geti verið fremstur í flokki.“
Ástandið á Gaza angrar Baldur mikið, sem er hættur að geta horft á fréttamyndir þaðan. „Við verðum einhvern veginn að stíga miklu fastar til jarðar en við erum að gera. Við tókum frumkvæði í því, meðal vestrænna ríkja, að viðurkenna sjálfstæði Palestínu. Og nú þurfum við dálítið að bretta upp ermarnar og fylgja því máli eftir.“
Hann segir Ísland eiga að nýta bandalagsríki sín og samvinnu við hin Norðurlöndin til að miðla málum og þrýsta á Ísrael. Spurður hvort hann telji að þjóðarmorð eigi sér stað segir Baldur að það virðist vera. „Það lítur út fyrir það, já.“
Arnar vildi rifja upp lagaskilgreininguna á þjóðarmorði
Arnar Þór Jónsson sagðist ekki hafa lesið lagalega skilgreiningu á þjóðarmorði í 26 ár og vildi því ekki taka afstöðu til þess hvort það ætti sér stað á Gaza. „Þessi harmleikur sem þarna á sér stað er náttúrulega þyngri en tárum tekur og ég veit eiginlega ekki hvað maður getur sagt. Þetta er svo hryllilegt. En hitt er alveg ljóst að það verður að bera klæði á vopnin.“
Arnari finnst umræðuna um Palestínu skorta trúverðugleika vegna þess að Ísland hafi ákveðið að gerast beinir þátttakendur í vígbúnaði erlendis. Hann lýsti yfir mikilli óánægju með þá þróun.
Jón Gnarr líka gráti nær
„Ég tek undir með Höllu Tómasdóttur að maður er gráti nær að lesa þetta og þessa viðurstyggilegu árás á flóttamannabúðir sem er nýjasti viðbjóðurinn,“ sagði Jón Gnarr.
Hann segir forseta Íslands eiga að fordæma svona ástand. „Og beita öllum sínum áhrifum til að reyna að hafa áhrif og tala fyrir friðsamlegum lausnum.
„Það er enginn vafi í mínum huga að þarna eru framdir stríðsglæpir. Þjóðarmorð? Mig grunar það sterklega, já.“
Hér má horfa á kappræðurnar þar sem forsetaframbjóðendurnir sex sem mælast með mest fyrir samkvæmt kosningaspá Heimildarinnar mætast. Fyrstu 30 mínútur streymisins eru öllum aðgengilegar en áskrifendur geta horft á kappræðurnar í heild sinni:
Athugasemdir (2)