Mér finnst þú æðisleg, ég ætla að kjósa þig,“ sagði karlmaður við Önnu Þóru Björnsdóttur, eiganda gleraugnaverslunarinnar Sjáðu, þar sem hún var í góðu yfirlæti á djamminu á Kjarval 8. maí síðastliðinn. Anna Þóra hváði, skaust á klósettið og kom svo aftur á barinn. Fleiri menn komu upp að henni: „Þú ert algjört æði, við ætlum að kjósa þig.“
En Anna Þóra var ekki í neins konar framboði á þessum tíma og því nánast ómögulegt að kjósa hana í nokkuð. „Þessir menn komu upp að mér alveg 100 prósent öruggir og þuldu upp fyrir hvað ég stæði.“
Það voru gildi Höllu Tómasdóttur sem um ræddi. „Ég fattaði strax að þeir væru að rugla okkur saman en svona laglegar ljóshærðar konur vekja alltaf svo mikla lukku á börunum,“ segir Anna Þóra og hlær. „Ég var að hugsa um að hringja í hana Höllu og segja: „Viltu að ég sé heima eða sé á djamminu? Hvort heldurðu að komi betur út fyrir þig?““
Leiðréttir þú þennan misskilning?
„Nei, alls ekki. Ég þakkaði bara kærlega fyrir og drakk frítt allt kvöldið.“
Hvorki líkt við Guðna né Ólaf Ragnar
Á næstu vikum lenti Anna Þóra aftur og aftur í því að þeim stöllum var ruglað saman.
„Kannski er það líka af því að við erum á sömu hárgreiðslustofu,“ segir Anna Þóra sem er í smá klemmu. „Ég er búin að selja Katrínu [Jakobsdóttur forsetaframbjóðanda] gleraugu í mörg ár og fíla hana vel svo þetta er svolítið flókin staða en mitt atkvæði fer á réttan stað. Það er alveg á hreinu.“
Þetta er ný reynsla fyrir Önnu Þóru, sem lenti ekki í því að vera ruglað saman við Höllu árið 2016, þegar Halla bauð sig líka fram. „Mér var allavega ekki líkt við Guðna og ekki við Ólaf Ragnar svo þetta er bara algjörlega ný reynsla,“ segir Anna Þóra.
„Ef Halla þarf einhvern staðgengil þá getur hún bjallað“
Leika sér að því að máta gleraugu á frambjóðendur
Sjálf hefur hún nokkuð stúderað andlit forsetaframbjóðendanna.
„Við eigum svona fjölskylduleik heima: hvaða gleraugu myndirðu setja á þennan og hvaða gleraugu á hinn?“ segir Anna Þóra. „Það er alltaf það fyrsta sem við hugsum; hvað sé langt á milli augnanna hjá fólkinu.“
Talandi um fjölskylduna, hvernig finnst sonum hennar og eiginmanni að Önnu Þóru sé líkt við forsetaframbjóðandann Höllu Tómasdóttur?
„Ég held að þeim finnist ég ekkert lík öðrum af því að ég held að þeim finnist mamma sín mjög ólík öllu öðru fólki. Hvort það er gott eða slæmt veit ég ekki,“ segir Anna Þóra.
Tilbúin að hlaupa í skarðið ef þess þarf
Flækir þetta stöðuna í kjörklefanum?
„Nei, nei. Við fáum frábæran forseta, ég efast ekki um það. Ég bara vona að mér verði boðið á Bessastaði og ef Halla þarf einhvern staðgengil þá getur hún bjallað. Hún veit alveg hvar ég er.“
Hún gæti í raun skotist í frí án þess að nokkur tæki eftir því?
„Já, já, já, já, já. Ég sýni bara góðu hliðina.“
Og eftir allan meðbyrinn kemur bara eitt til greina fyrir Önnu Þóru í næstu forsetakosningum: „Ég fer fram næst, það er engin spurning. Fyrst þetta er komið í loftið.“
Athugasemdir (1)