Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team, er sá forsetaframbjóðandi sem er á mestu skriði samkvæmt nýjustu kosningaspá Heimildarinnar. Hún mælist nú með 9,2 prósent fylgi og hefur tvöfaldað það á örfáum dögum, fylgi hennar mældist 4,7 prósent á fimmtudag. Halla er eini frambjóðandinn sem bauð sig líka fram síðast þegar nýr forseta var kosinn á Íslandi, árið 2016.
Þegar tölur frá þeirri baráttu eru skoðaðar kemur í ljós að hún átti mjög sambærilega fylgissveiflu þá og nú, tæpum þremur vikum fyrir kosningar. Halla mældist með tæplega átta prósent fylgi fyrsta daganna í júní 2016, en kosningarnar fóru þá fram 25. júní, og hafði tvöfaldað það frá því seint í maí. Hún átti svo mikinn endasprett og var að mælast næst stærsti frambjóðandinn í síðustu kosningaspám sem keyrðar voru fyrir kosningarnar, á eftir Guðna Th. Jóhannessyni sem þó mældist með örugga forystu. Þegar talið var upp úr kjörkössunum reyndist Halla hafa náð sér í 27,9 prósent atkvæða og einungis munaði 11,2 prósentustigum á henni og Guðna, sem sigraði og varð forseti.
Enginn með yfir 30 prósent fylgi
Árið 2016 var Guðni að mælast með 50-60 prósent fylgi þorra kosningabaráttunnar, en seig svo skarpt á síðustu metrunum. Í ár er keppnin milli þeirra sem sækjast eftir embættinu mun jafnari og nú er svo komið að enginn frambjóðandi mælist með yfir 30 prósent fylgi. Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri leiðir enn kapphlaupið á Bessastaði með 27 prósent fylgi og Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, kemur þar á eftir með 23,2 prósent. Fylgi Katrínar hefur dalað nokkuð stöðugt frá því í byrjun maí en Halla Hrund hefur á sama tíma bætt lítillega við sig. Fylgi hennar hefur þó farið niður á við eftir að það toppaði í rúmum 30 prósentum fyrir tæpri viku síðan.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, mælist nú með 18,8 prósent fylgi sem er það minnsta sem hann hefur mælst með frá því að byrjað var að keyra kosningaspánna í ár. Sömu sögu er að segja af Jóni Gnarr, sem mældist um tíma með tæplega 20 prósent fylgi, en er nú kominn niður í tólf prósent.
Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi héraðsdómari og varaþingmaður, hefur verið að hressast eilítið í könnunum undanfarið og er nú kominn með 5,3 prósent fylgi.
Hvað er kosningaspáin?
Kosningaspá Heimildarinnar er unnin í samstarfi við dr. Baldur Héðinsson. Hann hefur keyrt kosningaspálíkan sem hann smíðaði fyrir fyrirrennara Heimildarinnar í öllum kosningum sem fram hafa farið á Íslandi síðastliðinn áratug, og mun gera það í aðdraganda forsetakosninganna einnig.
Líkanið miðar að því að setja upplýsingar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar reglulega í Heimildinni, jafnt á prenti og vef, í aðdraganda kosninga.
Vil sjá jafnrétti og sannleika.