Eldgosi sem hófst við Sundhnjúk norðan Grindavíkur þann 16. mars er lokið að sögn Veðurstofu Íslands. Það stóð í 54 daga og er því þriðja langlífasta eldgos á þessari öld, að því er fram kemur á Facebook-síðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands. Aðeins gosin í Geldingadölum árið 2021 og Holuhrauni árin 2014-15 stóðu lengur.
„Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina áður en langt um líður“
Sérfræðingar eru margir sammála um að stutt sé í að aftur dragi til tíðinda á Reykjanesskaganum hvað eldsumbrot snertir. Ástæðan er sú að kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram og landris er áfram stöðugt. Þá hefur spennan á skaganum öllum vaxið töluvert, að því er Eldfjalla- og náttúruvárhópurinn bendir á, sem hafi birst í formi skjálftahrina.
Um 13 milljón rúmmetrar af kviku hafa safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi og er það meira en í aðdraganda eldgosana þriggja sem orðið hafa á þessum slóðum eftir áramót.
Líklegasta sviðsmyndin, að mati margra vísindamanna, er að kvikan hlaupi af stað og í Sundhnúkaröðina á nýjan leik, frekar en að koma upp á nýjum stað. Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar er þetta orðað svona: „Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina áður en langt um líður.“
Sérfræðingar Almannavarna flugu dróna yfir gosstöðvarnar við Sundhnúk í gærkvöldi og þá var enga virkni að sjá í gígnum. Gosórói hafði farið minnkandi í gær og engar hraunslettur sáust úr gígnum í nótt. Þetta þykir Veðurstofunni til marks um að þessu tiltekna gosi sé nú lokið.
Athugasemdir