Lögreglan handtók mann fyrr á þessu ári vegna gruns um hafa barnaníðsefni undir höndunum. Lögreglumennirnir framkvæmdu húsleit og gerðu tölvubúnað upptækan í íbúð mannsins. Í fórum hans fundust myndir af drengjum á aldrinum fimm til 14 ára. Myndirnar voru af ýmsum toga, allt frá því að sýna þá á nærbuxunum yfir í það að sýna þá í kynferðislegum athöfnum. Þar að auki var ein og ein mynd af fullorðnum mönnum að nauðga börnum. Gagnamagnið í þessu eina máli er vel á annað hundrað terabæti.
Þetta kemur fram í öðrum þætti hlaðvarpsseríunnar Á vettvangi. Blaðamaðurinn Jóhannes Kr. Kristjánsson fékk að fylgjast með störfum kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að störfum við greiningu á barnaníðsefni.
Hægt er að hlusta á þáttinn með því að smella á tengil hér til hliðar. Sérstaklega er varað við þættinum þar sem hann verður óþægilegur fyrir hlustendur að hlusta á og efni þáttarins er ekki ætlað ungum börnum.
„Ef þér dettur það í hug þá er það til“
„Það er her úti í hinum stóra heimi, óskipulagður og skipulagður sem vinnur við það að reyna að búa til ný fórnarlömb og þeir svífast bókstaflega einskis. Og þetta veldur því að líf fólks eyðileggst og ekki bara barnanna heldur allra í kringum þau,“ segir Hallur Hallsson, rannsóknarlögreglumaður á kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í þættinum. Hann er annar tveggja rannsóknarlögreglumanna á deildinni sem eru sérhæfð í myndgreiningu á barnaníðsefni. Hann þarf því að skoða bæði ljósmyndir og myndbönd sem sýna gróft kynferðisofbeldi gegn börnum.
„Það er ekkert svo ógeðslegt og hryllilegt að það sé ekki til. Það er mín „rule 34“: ef þér dettur það í hug þá er það til,“ segir Hallur. „Án þess að fara út í ógeðslegar lýsingar, þá eru limlestingar og morð til. Og limlestingar og morð á börnum í kynferðislegum tilgangi er til og það kannski segir allt sem segja þarf.“ Hallur segir þetta vera „botnlaust hyldýpi“ þar sem hann segir þau ekki vera búin að sjá það versta þar sem ef „einhver gerir það versta þá er einhver þarna úti sem sér það og hugsar með sér: „ég get gert verr.““
Einu barni var bjargað úr aðstæðum
Tveir Íslendingar voru handteknir hér á landi vegna niðurhals á barnaníðsefni í sameiginlegri rannsókn lögregluembætta í 27 löndum Evrópu, en rannsóknin naut stuðnings frá Europol og lauk í mars. Alls voru 57 karlmenn á aldrinum 23 til 72 ára handteknir í aðgerðunum.
Einu barni var bjargað úr aðstæðum þar sem það var beitt ofbeldi, en nokkrir mannanna höfðu beinan aðgang að börnum og tíu þeirra áttu sjálfir börn. Í tölvubúnaði mannanna fundust við fyrstu leit yfir hundrað þúsund skrár sem innihéldu barnaníðsefni en búist er við að magnið sé tífalt meira eða yfir milljón skrár sem innihalda bæði ljósmyndir og myndbönd sem sýna kynferðisofbeldi gegn börnum.
Mennirnir koma úr öllum stigum samfélagsins en fjórir þeirra störfuðu sem kennarar og einn með með þroskaskertum börnum. Europol skilgreinir menn sem eiga eða dreifa barnaníðsefni og eiga þar að auki handbækur sem lýsa aðferðum til að lokka og beita börn ofbeldi sem mjög líklega til að brjóta gegn börnum. Þetta mat Europol er í takt við áhyggjur norsku lögreglunnar sem telur að þeir sem sæki sér barnaníðsefni í gegnum netið séu líklegir til fara úr skoðun á efninu í netheimum yfir í mannheima til að lokka börn til sín og brjóta gegn þeim.
Athugasemdir (1)