„Ég held það skipti ákaflega miklu máli að forseti tali fyrir almannahagsmunum,“ sagði Halla Hrund Logadóttir, forsetaframbjóðandi og orkumálastjóri, í þjóðmálaþættinum Pressu þegar talið barst að orkumálum og náttúruvernd.
Hún bætti við að forseti þurfi að tala fyrir langtímahagsmunum þjóðarinnar og að útfærsla á umgjörð auðlindamála geti skipt sköpum.
Spurð hvort þetta sé henni áhyggjuefni í orkumálum enda hafi það engum dulist að gjá hefur verið á milli málflutnings hennar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra, þá segir hún: „Ég tala fyrir almannahagsmunum heilt yfir og í takt við stefnu stjórnvalda…“
Er þá orkumálaráðherra ekki að tala fyrir almannahagsmunum?
„…og ég mun tala fyrir almannahagsmunum á breiðari grunni í embætti forseta Íslands. Mig langar aðeins að koma inn á þetta mál sem hefur verið rætt hérna áðan sem varðar auðlindanýtinguna. Auðvitað er það þannig að þegar við erum að tala um svona stórt mál, að það skiptir máli að vanda það vel og ég tek undir það sem var hefur komið hérna fram að auðvitað er þetta mál bara í upphafsmeðferð þingsins og mun halda áfram að þróast,“ sagði Halla Hrund.
Hún segist mjög hugsi yfir málinu. „Og ég finn að þjóðin hefur áhyggjur af því og ég veit það eftir reynslu mína af auðlindanýtingu orkumála vatns- og jarðefna, bæði á Íslandi en líka í mínum fyrri störfum við Harvard háskóla að þetta eru málefni sem skipta gríðarlega miklu máli og þess vegna mun ég fylgjast gaumgæfilega með því hvernig því vindur fram. Því eins og málið blasir við mér akkúrat núna að þá hef ég áhyggjur af tímalengdinni. Ég get sagt að í samhengi orkumálannna þá er verið að ráðstafa vatnsaflsvirkjunum ótímabundið en í samhengi sögunnar hefur það yfirleitt verið til opinbera aðila, eins og sveitarfélaga.“
Þannig það sem þú ert að segja núna er að ríkjandi stjórnvöld hafi ekki almannahagsmuni eða breiða almannahagsmuni að leiðarljósi?
„Ég held að umræðan sé að fara af stað í þinginu um þetta mál og ég treysti því að þingið rísi upp og sinni þessu máli vel og ég held það eigi eftir þroskast mikið umræðan hvað þetta varðar,“ segir Halla Hrund.
Spurð hvort hún hafi orðið fyrir þrýstingu af hálfu stjórnmálamanna vegna áherslna sinna í starfi sem orkumálastjóri segir hún: „Ég hef fundið fyrir því, og held það fari ekki framhjá neinum, að orkumálin eru gríðarlega eldfim og þar koma saman ólíkir hagsmunir.“
En það skiptir máli hvort að stjórnmálamenn eða til dæmis ráðherra hafi þrýst á þig?
„Ég vil bara segja að það sem skiptir mestu máli er að þetta eru gríðarlega stór mál, þar eru ólíkir hagsmunir og mikill þrýstingur ólíkra aðila, ef við erum að tala um atvinnulífið ef við erum að tala um stjórnmál og annað. Og, það sem skiptir máli hérna er akkúrat í samhengi við embætti forseta Íslands, að forseti þarf að geta andað ofan í kviðinn, þarf að geta tekið á móti blástri úr ólíkum áttum og sett nefið í vindinn,“ segir Halla Hrund.
Hefur þú verið með blástur frá ráðherranum?
„Ég hef orðið fyrir blæstri úr ólíkum áttum og það skiptir máli að geta andað ofan í kviðinn og fylgt lögum hverju sinni. Og það hef ég lagt áherslu á sem Orkumálastjóri, er að fylgja stefnu stjórnvalda og fylgja lögum í landinu og gleymum ekki embættismenn,“ segir hún en víkur sér annars undan spurningunni og segist hafa lagt áherslu á að fylgja lögum og reglum í einu og öllu, og sinnt starfi sínu af heilindum, þrátt fyrir alls konar áskoranir.
Frambjóðendurnir fjórir sem mælst hafa með mest fylgi þeirra sem sækjast eftir forsetakjörimmunu mættust í beinni útsendingu í Pressu fyrr í dag, stuttu áður en þau fóru að skila inn undirskriftun meðmælenda með framboði sínu. Þetta var í fyrsta sinn sem þessi hópur frambjóðenda deilir sviðinu í umræðuþætti fyrir kosningar; þau Halla Hrund Logadóttir, Katrín Jakobsdóttir, Baldur Þórhallsson og Jón Gnarr.
Athugasemdir (1)