Ímánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem birt var fyrr í dag er greint frá ískyggilegri þróun á húsnæðismarkaði. Framboð á húsnæði heldur áfram að dragast saman á sama tíma og eftirspurn eykst. Þróunin brýst út í verðhækkunum en vísitala íbúðaverðs hækkaði um 0,8 prósent milli mánaða í mars. Á síðustu 12 mánuðum hefur íbúðaverð á landinu hækkað um 5,2 prósent.
Samkvæmt HMS eru um 3.200 íbúðir til sölu á landinu öllu. Flestar þeirra eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og eru þær um 1.900 talsins. Í skýrslunni kemur fram að framboð á húsnæði til sölu hafi dregist saman um hundrað íbúðir frá ársbyrjun. Mælist samdrátturinn mestur á höfuðborgarsvæðinu.
Þá hafa framkvæmdir í á nýbyggingum dregist saman talsvert á milli ára. Á undanförnum tólf mánuðum hófust framkvæmdir á um 1.333 íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Helmingi færri íbúðir en teknar voru til framkvæmda á árinu á undan.
Í skýrslunni kemur fram að staðan sé enn verri á svæðum í grennd við höfuðborgarsvæðið. „Enn ýktari sögu er að segja af nágrenni höfuðborgarsvæðis en 261 íbúð fór í framkvæmd á síðustu tólf mánuðum samanborið við 1.002 tólf mánuði þar á undan.“
Svartsýnisspár Samtaka Iðnaðarins raungerðust
Í janúar 2023 birtu Samtök Iðnaðarins (SI) könnun þar sem spáð var 65 prósent samdrætti í áformuðum framkvæmdum á nýbyggingum á árinu. Talning HMS framkvæmdi í september í fyrra leiddi í ljós að framkvæmdir á íbúðarhúsnæði höfðu dregist saman um 70 prósent.
Í byrjun árs birtu SI aðra sambærilega könnun þar sem því var spáð að framkvæmdir myndu dragast saman um 15 prósent til viðbótar á milli ára. Í skýrslu HMS kemur fram að svo virðist sem að spár SI muni raungerast í annað sinn. Nýjasta íbúðatalning HMS í mars sýndi 9,3 prósent samdrátt í uppbyggingu á nýju húsnæði.
Miðað við samdráttinn í nýjum framkvæmdum áætlar HMS að um 1.406 nýjar íbúðir muni koma inn á markað árið 2026. Eru það nálega helmingi færri íbúðir að áætlað er að komi á markað á þessu ári og því næsta.
Þá segir í mánaðarskýrslunni að áætlaðar íbúðir mun aðeins sinna um 29 prósent af væntri íbúðaþörf á því ári. Ef gert er ráð fyrir um 18 til 24 mánaða löngum byggingartíma þyrfti að hefja framkvæmdir á um 3.500 íbúðum til viðbótar til þess að uppfylla íbúðaþörf fyrir árið 2026.
Kaupsamningum fjölgar ört
Á sama tíma og núverandi og vænt framboð á húsnæði dregst saman heldur eftirspurn eftir íbúðum áfram að aukast milli mánaða. Í síðasta mánuði voru 1.215 fasteignir teknar úr sölu og í febrúar voru 1.420 íbúðir teknar úr sölu. Gengið var frá 990 kaupsamningum í febrúar og fjölgaði útgefnum kaupsamningum um 80 prósent á milli mánaða.
Fjölgun kaupsamninga var mest í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og telur hagdeild HMS að aukna virkni vera tilkomin vegna íbúðakaupa Grindvíkinga í febrúar. Þá býst HMS við því að þrýstingurinn vegna íbúðarkaupa Grindvíkinga muni aukast á næstu mánuðum.
Nýlega hóf ríkið að ganga frá kaupum á íbúðarhúsnæði í Grindavík í gegnum fasteignafélagið Þórkötlu. Þegar fyrstu kaupin fóru í gegn þann 12. apríl síðastliðinn, höfðu safnast upp 675 umsóknir um íbúðarkaup í bænum.
Kaupverð hækkar
Aukin þrýstingur í eftirspurn kemur fram í umtalsverðum verðhækkunum sem HMS mælir milli mánaða. Fram kemur að meðalkaupverð íbúða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins í febrúar hafi hækkað um tæp 18 prósent á einu ári. Á tólf mánuðum hækkaði meðalkaupverðið úr 55 milljónum króna í 64,8 milljónir.
Sömuleiðis hefur tilfellum þess að íbúðir seljist á yfirverði fjölgað á fyrstu mánuðum ársins. Í febrúar seldust 13,4 prósent íbúða á yfirverði samanborið við 9,9 prósent í janúar.
Í skýrslunni kemur fram að þróunina megi að miklu leyti rekja til íbúðarkaupa á höfuðborgarsvæðinu, en þar seldust um 15 prósent íbúða á yfirverði í febrúar. Kaupþrýstingurinn var mestur í Vesturbænum og Hafnarfirði, þar sem rúmlega þriðjungur íbúða seldust á yfirverði.
Athugasemdir (2)