Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Drekaspíran átti að vernda Kauphöllina gegn eldsvoðum: Af stórveldisdraumum Kristjáns 4.

Flest hús í mið­borg Kaup­manna­hafn­ar hafa mátt þola elds­voða oft­ar en einu sinni. En drek­arn­ir á dreka­spírunni voru tald­ir vernda Kaup­höll­ina.

Drekaspíran átti að vernda Kauphöllina gegn eldsvoðum: Af stórveldisdraumum Kristjáns 4.
Kristján 4. réði því sjálfur hvernig spíran með drekunum var.

Kaldhæðnislegt er að táknrænn tilgangur drekaspírunnar sem bruninn í Kaupmannahöfn felldi af húsi Kauphallarinnar í morgun átti einmitt að vera að vernda bygginguna fyrir eldsvoðum og tjóni af völdum óvina höfuðborgarinnar.

Bygging hússins hófst árið 1620 og var að mestu lokið aðeins fjórum árum síðar, en drekaspíran var svo sett upp ári seinna. Arkitekt hússins hét Hans van Steenwinckel og var ættaður frá Hollandi. Faðir hans var byggingaverktaki og steinsmiður sem Friðrik 2. Danakóngur fékk til Kaupmannahafnar á ofanverðri 16. öld til að vinna við bygging Krónborgarkastala.

Drekarnir á spírunni sem nú er fallin.

Hans og Lorenz bróðir hans ílentust í Danmörku og gerðust báðir arkitektar. Það var raunar Lorenz sem var upphaflega ráðinn til þess að teikna Kauphöllina og stýra byggingu hennar en vinna var varla hafin við að undirbúa jarðveginn 1619 þegar Lorenz lést og þá var Hans bróðir hans fenginn í verkið í staðinn.

Það var Kristán 4., sonur Friðriks 2., sem lét reisa Kauphöllina. Hann átti sjálfur hugmyndina að drekaspírunni sem flugeldastjóri hans, eða „fyrværkerimester“, teiknaði.

Á vef danska viðskiptaráðsins, sem hefur haft aðsetur í húsinu, má lesa þessar setningar:

„Drekarnir áttu að sögn að vernda húsið fyrir eldi. Það hefur einmitt tekist mjög vel. Flest nágrannahúsanna og Kristjánsborgarhöll hafa staðið í ljósum logum gegnum tíðina en drekarnir hafa passað upp á Kauphöllina.“

Þangað til núna.

Kristján 4. varð kóngur aðeins 11 ára 1588 og átti eftir að ríkja í nærri 60 ár eða þar til hann lést 1648.

Það var ekki aðeins löng valdatíð sem gerir Kristján 4. merkan í danskri sögu. Hann var einhver litríkasti og stórbrotnasti konungur Danmerkur (og þar með Íslands), risi að vexti og hamhleypa til drykkju — svo að Bretar höfðu aldrei séð jafn hraustan drykkjumann þegar hann fór í heimsókn til London í byrjun 17. aldar.

Lengst af háði ofdrykkjan honum furðu lítið, því þó hann væri yfirleitt borinn meðvitundarlaus til sængur þegar langt var liðið á nótt var hann komin á fætur í dögun, iðandi af kæti og starfsorku.

Þrek hans var ótæmandi og hann var staðráðinn í að gera Danmörku að stórveldi á evrópska vísu. Kauphöllina lét hann einmitt reisa því hann hugðist gera Kaupmannahöfn af miðstöð verslunar í Norður-Evrópu, og náði reyndar þó nokkrum árangri á því sviði.

Verr gekk þegar Kristján hugðist afla sér og löndum sínum hernaðarfrægðar með því að taka þátt í 30 ára stríðinu sem geisaði í Þýskalandi 1618-1648. Kristján fór með her suður til Þýskalands 1626 en reyndist lítill bógur sem hershöfðingi og varð að semja frið við fjendur sína fáeinum árum síðar.

Kaupmannahöfn á dögum Kristjáns 4.

Ein af afleiðingum af þessu stríðsbrölti Kristjáns var sú að danski flotinn var önnum kafinn suður í Eystrasalti 1627 og því voru engin herskip send til Íslands það sumar eins og þó var vani.

Því varð ekkert til varnar þegar sjóræningjaskip „Tyrkja“ komu siglandi til landsins og rændu fólki til að selja í þrælahald.

Þar fyrir utan er Kristján þekkastur (og alræmdastur) í Íslandssögunni fyrir að hafa komið á einokunarverslunni alræmdu.

Kjósa
17
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Árásin á Bastilluna: Franska byltingin hófst með því að geðveikir kynferðisglæpamenn og falsarar voru frelsaðir
Flækjusagan

Árás­in á Bastill­una: Franska bylt­ing­in hófst með því að geð­veik­ir kyn­ferð­is­glæpa­menn og fals­ar­ar voru frels­að­ir

Í dag, 14. júlí, er Bastillu­dag­ur­inn svo­kall­aði í Frakklandi og er þá æv­in­lega mik­ið um dýrð­ir. Dag­ur­inn er yf­ir­leitt tal­inn marka upp­haf frönsku bylt­ing­ar­inn­ar ár­ið 1789 þeg­ar feyskinni ein­valds­stjórn Bour­bon-ætt­ar­inn­ar sem hrund­ið frá völd­um. Bylt­ing­in var gerð í nokkr­um áföng­um en vel má segja að eft­ir 14. júlí hafi ekki ver­ið aft­ur snú­ið. Basill­an var virki í Par­ís­ar­borg sem hýsti...

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Ferðamenn hafi þrengt sér „inn í það allra helgasta“
5
ViðtalFerðamannalandið Ísland

Ferða­menn hafi þrengt sér „inn í það allra helg­asta“

Börn manns sem var jarð­að­ur frá Vík­ur­kirkju í júní segja að ís­lensk­ur rútu­bíl­stjóri hafi hleypt tug­um ferða­manna út úr rútu við kirkj­una um klukku­stund fyr­ir at­höfn. Ferða­menn hafi tek­ið mynd­ir þeg­ar kist­an var bor­in inn fyr­ir at­höfn, reynt að kom­ast inn í kirkj­una og tog­að í fán­ann sem var dreg­inn í hálfa stöng.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár