Baldur og Felix – vinnum saman er slagorð forsetaframbjóðandans Baldurs Þórhallssonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Þó Baldur sé að bjóða sig fram til forseta er eiginmaður hans, Felix Bergsson, stór hluti af framboðinu. „Ef við förum í þetta, þá hendum við okkur í það þúsund prósent,“ sagði Baldur í samtali við Heimildina í byrjun mars, skömmu eftir að Gunnar Helgason, vinur hjónanna og samstarfsmaður Felix til 30 ára, stofnaði stuðningssíðu á Facebook: Baldur og Felix - alla leið.
Baldur lagði áherslu á „við“. Í ítarlegu viðtali í páskablaði Heimildarinnar fara Baldur og Felix yfir aðdragandann að framboðinu, sem var tilkynnt 20. mars síðastliðinn, á alþjóðlegum degi hamingjunnar. Þar kemur fram að fyrsta áskorunin um framboð kom á nýársdag, daginn sem Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti í ávarpi að hann ætlaði ekki að sækjast eftir því að gegna embættinu áfram. Felix á afmæli á nýársdag og bauð góðum gestum heim, þar á meðal Gunna, þar sem hann skoraði á Felix að bjóða sig fram. Felix og Baldur litu hvor á annan. „Ég held að ég hafi nú alltaf verið með það á hreinu að ég hafði ekki áhuga sjálfur á að verða forseti en ég hafði hins vegar mikla trú á að Baldur gæti gert það ef einhver stemning skapaðist fyrir því og svo bara skapaðist sú stemning.“
Samkvæmt könnun sem Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri TBWA/Norway, betur þekktur sem Valli sport, lét framkvæma áður en Baldur tilkynnti framboð eru Íslendingar jákvæðari gagvart því að Baldur verði næsti forseti en bæði Halla Tómasdóttir, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, og Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Baldur er orðaður við Bessastaði, það sama var upp á teningnum árið 2016 þegar Guðni Th. Jóhannesson var kjörinn í fyrsta sinn. „Þá vísuðum við þessu algjörlega frá okkur, við vorum bara á öðrum stað í lífinu,“ segir Baldur. En nú er hann tilbúinn, ekki síst vegna breytts landslags í alþjóðasamfélaginu sem hefur meðal annars birst í bakslagi í lýðræði, mannréttindamálum og baráttu hinsegin fólks.
Möguleikinn er hinn
En Gunni skoraði á Felix. Aðspurður segir Felix að það hafi aldrei komið til greina að hann færi fram. „Þú hefur samt fengið fullt af hvatningu,“ skýtur Baldur inn í og Felix sendir honum ákveðið augnaráð. „Ég hef alveg sagt það frá byrjun að það er ekki möguleiki. Möguleikinn er hinn, að Baldur fari fram í forsetann og ég sé honum við hlið og styðji hann í þeim verkum. Ég held að hann sé bara miklu betri í þessu en ég. Hann þekkir embættið miklu betur og er búinn að mennta sig og kann þetta svo vel. Ég held að ég verði miklu betri sem maki forseta.“
„Ég held að hann sé bara miklu betri í þessu en ég.“
Felix segir það spennandi tilhugsun að vera maki forseta. „Ég sé fyrir mér að vera fulltrúi íslenskrar menningar og tala fyrir þeim málum sem við höfum sett á oddinn og brennum fyrir. Ég er mjög til í að taka þátt í að vinna að hag barna og fjölskyldna almennt, líka þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Svo brennum við fyrir mannréttindamálunum og það hefur ekkert breyst síðan við kynntumst árið 1996.“
Samkvæmt nýrri könnun Prósents þar sem spurt er um þá sem hafa gefið kost á sér í embætti forseta Íslands nýtur Baldur stuðning 56 prósent þeirra sem taka afstöðu. Séu þeir taldir með sem ekki vita hvern þeir vilja styðja, mælist Baldur með stuðning 37 prósent allra. Halla Tómasdóttir, sem einnig bauð sig fram árið 2016, er næst vinsælasti frambjóðandinn samkvæmt könnuninni. Alls segjast 23 prósent þeirra sem taka afstöðu með einhverjum frambjóðanda styðja Höllu í embættið. Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi dómari og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, nýtur stuðnings 8 prósent. Ásdís Rán Gunnarsdóttir, sem ekki hefur gefið endanlega út um framboð þó hún safni meðmælum fólks, nýtur 5 prósenta stuðnings þeirra sem velja sér frambjóðanda.
Ástþór Magnússon, sem hefur reglulega reynt fyrir sér í forsetaframboði og er þjóðinni vel kunnur, nýtir stuðnings 3 prósenta aðspurðra. Þær Agniezka Solowska og Sigríður Hrund Pétursdóttir njóta hvor stuðnings 1 prósents aðspurðra.
Aðrir ná ekki upp fyrir eina prósentið. Framboðsfrestur rennur út 26. apríl og 2. maí mun landskjörstjórn auglýsa hver verða í framboði.
Athugasemdir (1)