Innan sólarhrings frá birtingu greinar okkar um gallaða skýrslu um blóðhag hryssna sem sæta blóðtöku var birt nafnlaust bréf á heimasíðu Keldna um greinina. Bréfið er ritað í talsverðri geðshræringu og gagnrýni okkar er svarað með óhefðbundnum hætti. Inn í bréfið fléttast gagnrýni á sjónvarpsþátt og aðstandendur hans, en hvorugt tengist grein okkar. Viðbrögð þessi gefa okkur tilefni til þess að fjalla frekar um skýrsluna og bréf Keldna.
Í framangreindri grein okkar bendum við á alvarlegar niðurstöður rannsóknarinnar í skýrslunni sem sýna að um 30% blóðtökuhryssna uppfylla greiningarskilmerki skýrsluhöfunda um blóðleysi. Við bendum ennfremur á að við teljum þau greiningarskilmerki óeðlilega lág og teljum að við eðlileg greiningarmörk um blóðleysi séu nánast allar hryssurnar blóðlausar.
Þetta hefur ekki verið hrakið með sannfærandi hætti í bréfi Keldna. Hins vegar koma þar fram upplýsingar um frekari annmarka á skýrslunni.
Val úrtaks - ekki slembiúrtak
Í fyrri grein okkar vöktum við athygli á því að ekki kom skýrlega fram hvernig úrtakið var valið. Í bréfi Keldna segir:
„Rétt er að það hefði mátt taka fram hvernig stóðin í rannsókninni voru valin, en það var kynnt fyrir matvælaráðuneyti á sínum tíma. Þetta er annar fróðleiksmoli sem blaðamaður Kveiks afþakkaði í umfjöllun sinni. Valið fór þannig fram að vísindamenn sem stóðu að rannsókninni ákváðu eftirtalin skilyrði sem stóðin þyrftu að uppfylla: Þar sem blóðsöfnun fer aðallega fram á Norðurlandi og á Suðurlandsundirlendinu þótti þörf á að rannsaka stóð á báðum landsvæðum. Stóðin þurftu einnig að vera nægilega stór (50-120) til þess að fá sem flesta einstaklinga til mælinga (það er afar sjaldgæft að allar hryssur í stóðinu mælist með nægan hormónastyrk til að blóðsöfnun sé gerð, jafnvel þó þær fyljist). Upplýsingar um stóð sem uppfylltu þessar kröfur fengust frá Ísteka og völdu vísindamenn Keldna eitt stóð á Norðurlandi og eitt á Suðurlandi.”
Við þetta er ýmislegt að athuga:
-
Fram kemur að val úrtaksins var kynnt fyrir matvælaráðuneyti. Þetta vekur furðu enda er það ekki hlutverk ráðuneytis að hafa skoðun á eða ákvarða stærð úrtaks eða hvaða hryssur verða fyrir valinu. Slíkar forsendur og ákvarðanir eiga að vera á forræði rannsakenda sem þurfa að tryggja að um slembiúrtak sé að ræða.
-
Blóðtaka fer fram á 90 stöðum á landinu svo að meðaltali eru 4082/90 = 45 hryssur á hverju blóðtökubúi. Hér kemur fram að rannsakendur hafi krafist þess að tekin væru sýni úr tveimur stóðum, einu stóði af Norðurlandi og öðru af Suðurlandi, sem teldu 50-120 hryssur. Þá þegar er ljóst að kröfur Keldna voru þannig að meðalstóðið yrði ekki skoðað.
-
Loks kemur fram að Ísteka var falið að velja stóð sem uppfyllti framangreindar kröfur. Ísteka er hagsmunaaðili blóðtöku og hefur staðið í ströngu undanfarið við að verja réttmæti hennar. Þess vegna er afar óheppilegt að fyrirtækið blandist inn í val á úrtaki.
Úrtak rannsóknarinnar virðist því ekki vera slembiúrtak og þar með er töluverð hætta á að niðurstöður séu bjagaðar.
Fram kemur í bréfi Keldna að leggja beri mesta áherslu á Hct gildi (blóðfrumnahlutfall) þegar meta á blóðhag kaldblóðshryssa. Eftirfarandi mynd er hluti af mynd 8 í skýrslunni. Grænu punktarnir sýna Hct gildi norðlenska stóðsins og þeir bláu sunnlenska:
Myndin hér að ofan sýnir vel að marktækur munur er á mælingu á Hct í norðlenska stóðinu og því sunnlenska, eins og hætt er við þegar ekki er um slembiúrtak úr þýði að ræða. Svo mikill munur á milli tveggja stórra stóða sem voru valin án þess að stuðst væri við slembiúrtak, vekur sterkan grun um að ástandið gæti víða verið mun verra en hjá sunnlenska stóðinu.
„Bréfið er ritað í talsverðri geðshræringu og gagnrýni okkar er svarað með óhefðbundnum hætti.”
Greiningarviðmið fyrir blóðleysi - óeðlilega lág
Í bréfi Keldna kemur ítrekað fram að um misskilning sé að ræða hjá okkur. Að við ruglum saman hlutum og drögum ályktanir um hross út frá mönnum. Þetta kemur okkur spánskt fyrir sjónir.
Skýrsluhöfundar og bréfritarar eiga hins vegar í stökustu vandræðum með að skýra greinilega frá því hvernig þeir ákvörðuðu þau blóðleysisgildi sem þeir skilgreina í skýrslunni. Að rökstyðja að þau eigi við um íslenskar fylfullar hryssur og hvers vegna notast var við önnur viðmiðunarbil blóðgilda til að skilgreina þessi blóðleysisgildi en þau viðmiðunarbil hryssanna sem komu í ljós í þeirra eigin rannsókn á fylfullum íslenskum hryssum á beit (Charlotta og fleiri, 2023).
En eftirfarandi eðlileg viðmiðunarbil fyrir íslenskar fylfullar hryssur (Charlotta og fleiri, 2023) og skilgreiningar á blóðleysisgildum fyrir Hct(rauðkornahlutfall), Hgb(blóðrauði), RBC(rauðfrumur) koma fram í skýrslunni:
Tafla 1
Við teljum að blóðleysisgildin í skýrslunni sem sjá má í töflu 1 séu annkannalega lág og til þess fallin að vanmeta fjölda hryssna sem glíma við blóðleysi í kjölfar blóðtöku.
Í skýrslunni kemur eftirfarandi fram:
„Eins og kemur fram í inngangi eru viðmiðunargildi um blóðleysi í kaldblóðshrossum illa skilgreind. Það sem þó liggur fyrir er, að eðlileg viðmiðunarbil (normal reference intervals, RI) eru til fyrir kaldblóðshross og má áætla varlega að þegar komið er rétt undir neðri mörk RI fyrir rauðfrumnagildi fari að bera á vægu blóðleysi. Ekki eru skilgreind viðmiðunargildi hjá hrossum um blóðleysi út frá RBC og Hgb, og var því í þessari rannsókn miðað við lægsta eðlilegt viðmiðunargildi kaldblóðshrossa, sem sagt RBC <5,5x1012/L og Hgb <80 g/L (Lording 2008, Grondin & Dewitt 2010). Fyrir blóðfrumnahlutfall (Hct) voru skilgreind eftirfarandi lágmarksviðmið fyrir íslenskar fylfullar hryssur: 24-<26% vægt blóðleysi, 20-<24% miðlungsblóðleysi, <20% greinilegt blóðleysi, út frá eðlilegum viðmiðunargildum (Charlotta Oddsdóttir o.fl. 2023) og því að blóðfrumnahlutfall er að meðaltali 18% lægra hjá kaldblóðshrossum en heitblóðshrossum (Balan o.fl. 2019).”
Samkvæmt framangreindri tilvitnun í skýrsluna er ljóst að höfundar ákvörðuðu blóðleysisgildi fyrir Hgb, RBC og Hct. Hins vegar er óljóst hvernig þeir ákvörðuðu gildi sem liggja svo fjarri eðlilegum blóðgildum hryssanna, þar sem hvorki eru gefin skýr svör um það í skýrslunni né í bréfi Keldna. En ef unnið er út frá þeim heimildum sem gefnar eru upp í skýrslunni, þá teljum við að svona hafi verið farið að.
Hgb og RBC blóðleysisgildi
Í stað þess að skilgreina blóðleysisgildi fyrir Hgb og RBC út frá lægstu eðlilegu viðmiðunargildum þessarra blóðgilda hjá íslenskum fylfullum hryssum (Charlotta og fleiri, 2023), nota rannsakendur mun lægra, eða lægsta eðlilega viðmiðunargildi kaldblóðshrossa úr mælingu frá 1986 (Grondin og Dewitt, 2010). Ekki kemur fram hvaða gerð kaldblóðshrossa voru rannsökuð, hver aldur þeirra var, hvors kyns þau voru og hvort hryssur (ef einhverjar voru) voru fylfullar. Þetta má sjá á töflunni í grein Grondin og Dewitt (2010).
Í töflunni spanna RBC, Hgb og Hct viðmiðunarbilin fyrir kaldblóðshross mjög vítt svið (5,5 - 9,5; 8-14 og 24-44). Þannig eru efri mörk Hct næstum tvöfalt stærri en neðri mörkin. En í fræðunum er því lýst að hin ýmsu kaldblóðskyn liggja á mjög mismunandi stöðum á þessum víðu bilum. Kemur það í ljós í rannsókn á íslenskum fylfullum hryssum (Charlotta og fleiri, 2023), þar sem íslenskar hryssur liggja hærra í þessum gildum en önnur kaldblóðshross. Um það er fjallað í skýrslunni (Charlotta og fleiri, 2024).
Hct blóðleysisgildi
Þegar skoðuð er ákvörðun skýrsluhöfunda um skilgreiningu á blóðleysigildi út frá Hct fer að bera á algjörum ruglingi. Þeir greina frá því að Hct blóðleysismörk þeirra hafi verið ákvörðuð „út frá eðlilegum viðmiðunargildum (Charlotta Oddsdóttir o.fl., 2023) og því að blóðfrumnahlutfall er að meðaltali 18% lægra hjá kaldblóðshrossum en heitblóðshrossum (Balan o.fl., 2019).“
Við teljum hæpið að stuðst hafi verið við eðlileg viðmiðunargildi íslenskra fylfullra hryssna(Charlotta og fleiri, 2023) við skilgreiningu á Hct blóðleysisgildum. Það má vera ljóst þar sem blóðleysisgildin liggja 18-37% (vægt - alvarlegt blóðleysi) neðan við neðra gildi eðlilegs viðmiðunarbils hryssanna eins og sjá má í töflu 1.
Ekki verður heldur séð að stuðst hafi verið við gögnin úr rannsókn Balans (Balan og fleiri, 2019) við skilgreiningu blóðleysisgilda fyrir Hct. Flokkun hans á blóðleysi liggur mun hærra í Hct gildum og notar hann einnig víðari bil. Ennfremur eru gögnin í rannsókn hans úr misleitum hópi hrossa og asna. Það að draga þá ályktun að íslenskar fylfullar hryssur liggi 18% neðar í Hct gildum en heitblóðshross út frá þessum gögnum er að okkar mati órökrétt og vafasamt.
Skoðum þetta nánar.
Rannsókn Balan, 2019
Frá 2010 hefur verið haldið utan um mælingar á blóði hesta sem komið hefur verið með eða sent til dýralæknaspítalans í Dyflinni (University College Dublin Veterinary Hospital) (Balan o.fl., 2019). Fram kemur að stuðst hafi verið við eftirfarandi tegundaflokkun:
“Adult breeds were identified as
-
hot-blooded (Arabian, thoroughbreds),
-
warm-blooded (Connemara, Irish Draught, Holsteiner, hunter, sport horse) and
-
cold-blooded (drafts, Clydesdale, cob, Friesian, Icelandic, ponies, donkey)”.
Í bréfi Keldna segir eftirfarandi um þessi gögn Balans og fleiri, 2019 : “komust einnig að því í sinni rannsókn að heilbrigð kaldblóðshross, eins og íslenski hesturinn mældust að staðaldri með 18% lægri gildi blóðfrumnahlutfalls og blóðrauða en heitblóðshross.”
Með tölfræðilegri greiningu framangreindra gagna komust þeir (Balan og fleiri, 2019) að eftirfarandi niðurstöðu: “Adult cold-blooded horses had lower values than hot-blooded by 22% for RBC counts and by 18% for both Hct and Hb."
Balan og félagar notuðu eftirfarandi kaldblóðskyn til að reikna þennan mismun (18% og 22%):
-
dráttarhesta,
-
clydesdale hesta,
-
cob-hesta,
-
fríslandshesta,
-
íslenska hesta og
-
asna.
Í tíðnefndu bréfi Keldna um fyrri grein okkar kemur eftirfarandi fram:
“Hvergi er vitnað í viðmiðunargildi fyrir asna í skýrslunni, en það sem höfundar greinarinnar hafa líklega misskilið er að bókarkafli sem vísað er í heitir „Normal hematology of the horse and donkey“ og er í 6. útgáfu bókarinnar Schalm’s Veterinary Hematology. Hvort sem misskilningur höfunda byggist á hroðvirknislegum vinnubrögðum, hroka eða rætni er þetta ósönn fullyrðing.”
Fullyrðing okkar er ekki ósönn og ekki heldur sett fram af illum hug. En eins og fram kom hér að framan nota Balan og félagar blóðgildi m.a asna til að reikna þennan mismun (18% og 22%) í rannsókn sinni, eins og fram kemur í vísindagrein þeirra.
Því er eins og áður segir, verulega hæpið að draga þá ályktun eins og gert er í umræddri skýrslu, að íslenskar fylfullar hryssur liggi 18% neðar í Hct gildum en heitblóðshross þegar hópurinn sem þessi útreikningur á við um samanstendur af svona ólíkum hópi hrossa, og þar að auki af ösnum.
Síðar í rannsókn Balans og fleiri (2019) kemur fram að stuðst hafi verið við eftirfarandi Hct gildi við skilgreiningar á blóðleysi, en athygli vekur að notuð voru sömu blóðleysismörk fyrir heitblóðs, volgblóðs og kaldblóðshross:
-
Marked anaemia was defined as Hct values < 0.20 L/L and had a mean of 0.15 ± 0.03, 6, range of 0.09 to 0.19 L/L with a 120% increase compared to the reference population.
-
Moderate anaemia was defined as Hct values ≥ 0.20 and < 0.30 L/L with a mean of 0.25 ± 0.03, 20, range of 0.2 to 0.29 L/L.
-
Mild anaemia was defined as Hct values ≥ 0.30 but < 0.34 L/L with a mean of 0.31 ± 0.01, 40, range of 0.30 to 0.33 L/L. “
Blóðleysigildin út frá Hct sem Balan og félagar nota eru því mun hærri en þau sem skilgreind eru fyrir fylfullu íslensku hryssurnar í skýrslunni (Charlotta og fleiri, 2024).
Jafnframt er bilið fyrir vægt blóðleysi furðulega þröngt fyrir íslensku hryssurnar eða tvær prósentur en það er helmingi stærra hjá Balan. Hið sama má segja um miðlungsblóðleysisbilið en það er meira en helmingi víðara hjá Balan en í íslensku skýrslunni.
Þetta má taka saman í töflu:
Tafla 2
Eins og sjá má í töflu 2 er efra gildi í því bili sem Balan skilgreinir sem vægt blóðleysi Hct 34% og liggur það rétt ofan við neðra gildi eðlilegs viðmiðunarbils heitblóðshesta (Hct 32-53%).
Hefðu skýrsluhöfundar notað sömu rök og Balan til þess að skilgreina blóðleysisgildi fyrir íslensku fylfullu hryssurnar, væri skilgreiningin á efri mörkum fyrir vægt blóðleysi Hct 32%, sem eru neðri mörk eðlilegs viðmiðunarbils(31,9-47,7%) fyrir íslensku fylfullu hryssurnar (Charlotta og fleiri, 2023). Í skýrslunni eru efri mörk fyrir vægt blóðleysi Hct 26%, sem er langt undir bilinu.
Þrátt fyrir þennan mikla mun blóðleysisgilda, blóðleysisbila og flokkunar vísa skýrsluhöfundar til rannsóknar Balans þegar Hct blóðleysisgildin fyrir íslensku hryssurnar eru skilgreind.
Mun færri blóðsýni og blóðtökur á Suðurlandi
Fram kemur í svari Keldna að ástæðan fyrir mun færri blóðtökum og færri sýnatökum á Suðurlandi sé sú að styrkur PMSG(eCG) hormóns þeirra hryssna hafi verið svo lágur þar:
Ástæðan fyrir því að ekki er safnað átta sinnum úr öllum hryssum er, að styrkur hormónsins eCG er einstaklingsbundinn, og helst mislengi nægilega hár til þess að vinnsla úr blóði sé forsvaranleg”
Tíðni blóðleysis í hryssum í stóðinu á Suðurlandi er marktækt meiri en fram kemur í stóðinu á Norðurlandi. Ekki er langsótt að ætla að samband sé á milli blóðleysis þeirra, með tilheyrandi veikindum, og minni framleiðslu á hormóninu. Okkur þykir ósennilegt að samsetning einstaklinganna í stóðunum valdi þessum mun á hormónaframleiðslu.
Engar klínískar skoðanir eða mælingar gerðar á hryssunum
Fram kemur í svari Keldna að blóðtökuhryssur þurfi ekki að afkasta súrefnisháðri vöðvavinnu líkt og reiðhross og gefið er í skyn að hryssurnar þoli því blóðtap af þessari stærðargráðu. Þau rök eru ósannfærandi því hryssurnar eiga að vera að auka blóðrúmmál sitt undir eðlilegum kringumstæðum vegna meðgöngu, rétt eins og hvert annað spendýr. Enn fremur var engin klínísk skoðun eða mælingar á lífsmörkum gerðar á hryssunum í rannsókninni og því ekki hægt að draga neinar ályktanir um líðan þeirra, þol og heilsu hvorki fyrir, við, eða eftir blóðtöku.
Í stuttu máli er því deginum ljósara að ýmsir gallar eru á rannsókninni á hryssunum og skýrslunni sjálfri. Ekki síst hvað val úrtaks áhrærir og skilgreiningar á blóðleysisgildum. Við teljum að ástandið á hryssunum á meðan blóðtöku stendur sé enn verra en þarna kemur fram. Flestar hryssurnar á Suðurlandi liggja til að mynda undir neðri gildum eðlilegs viðmiðunarbils blóðgilda á meðan á blóðtökunni stendur.
Rannsakendum virðist nokkuð í mun að draga úr áhrifum blóðtökunnar með skilgreiningum á blóðleysigildum sem eru lægri en aðrir nota og eru þau töluvert lægri en ( Balan o.fl. 2019) nota í sinni rannsókn. Ennfremur er skilgreiningin mjög langt frá neðri gildum viðmiðunarbils (RI) fyrir blóðgildin Hct, Hgb og RBC hjá íslenskum fylfullum hryssum (Charlotta og fleiri, 2023).
En í skýrslunni kemur eftirfarandi fram: „má áætla varlega að þegar komið er rétt undir neðri mörk RI fyrir rauðfrumnagildi fari að bera á vægu blóðleysi”.
Þrátt fyrir þetta sýna niðurstöður rannsóknarinnar að um 30% blóðtökuhryssanna þjáðust af blóðleysi á blóðtökutímabilinu skv. skilgreiningum skýrsluhöfunda.
Skilgreiningar eru eitt og raunveruleikinn annað. Niðurstöður rannsóknarinnar benda með skýrum hætti til þess að mun fleiri eða jafnvel allar hryssur sem sæta blóðtöku þjáist af alvarlegu blóðleysi.
Heimildaskrá:
1. Balan M, McCullough M, O’Brien PJ. (2019). Equine blood reticulocytes: reference intervals,
physiological and pathological changes. Comp Clin Pathol, 28, 53–62.
https://doi.org/10.1007/s00580-018-2820-4
2. Charlotta Oddsdóttir, Hanna Kristrún Jónsdóttir, Erla Sturludóttir. (2023). Haematological
reference intervals for pregnant Icelandic mares on pasture. Acta Vet Scand, 65, 57-63.
https://doi.org/10.1186/s13028-023-00721-x
3. Charlotta Oddsdóttir, Hanna Kristrún Jónsdóttir, Erla Sturludóttir. (2024). Lokaskýrsla til matvælaráðuneytis febrúar 2024.
https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/MAR/Fylgiskjol/Lokasky%cc%81rsla%20blo%cc%81%c3%b0hagur%20febru%cc%81ar%202024.pdf
4. Grondin TM, Dewitt SF. (2010). Normal hematology of the horse and donkey. Í: Weiss DJ,
Wardrop KJ. (ritstjórar). Schalm’s veterinary hematology, 6. útg. Wiley-Blackwell, Iowa, USA,
821-829.
5. Mast (2023). Eftirlit Matvælastofnunar með dýravelferð við blóðtöku úr fylfullum hryssum árið 2023
https://www.mast.is/is/um-mast/frettir/frettir/eftirlit-med-blodtokuhryssum-2023
Athugasemdir