Sex manns voru dæmd í vikulangt gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur að beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrr í dag. Er það í kjölfar umfangsmikilla aðgerða lögreglu í gær. Þetta staðfesti Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar, í samtali við Vísi.
Átta voru handtekin í tengslum við aðgerðirnar í gær en lögreglan lagði fram kröfu um gæsluvarðhald yfir sex þeirra. Er um þrjár konur og þrjá karla að ræða.
Fyrr í dag tilkynnti lögreglan að hún færi fram á það að sex yrðu færð í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. En rökstuddur grunur er um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum útlendinga og skipulagða brotastarfsemi.
Málið tengist fyrirtækjum í eigu Davíðs Viðarssonar sem á meðal annars veitingastaðina Pho Vietnam, Wok On auk þrifafyrirtækisins Vy-þrif.
Athugasemdir