„Tveggja ríkja lausnin er haldreipi okkar til þess að skapa varanlegan frið,“ sagði Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag í umræðum um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Bjarni var meðal annars spurður út í nýleg ummæli forsætisráðherra Ísraels um að Ísrael myndi ekki viðurkenna sjálfstætt ríki Palestínu. Hann sagði að þetta viðhorf þyrfti að breytast, og bætti svo við: „Það sama verður auðvitað að gerast hjá forystunni Palestínumegin“.
Bjarni sagði að forystumenn Palestínumanna á Gaza, þar sem Hamas-samtökin eru í forystu, „hafa haft það að sjálfstæðu stefnumiði sínu að útrýma Ísraelsríki“.
Bjarni svaraði þar með fyrirspurn Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þingkonu Samfylkingar, sem vildi, meðal annars, vita hvort ráðherrann myndi bregðast sérstaklega við á opinberum vettvangi eða láta í ljós skoðun ríkisstjórnar Íslands og íslenskra stjórnvalda á þessum ummælum ísraelska forsætisráðherrans. „Við höfum svo sem vitað að hægri öfgamenn í Ísrael hafa lengi verið þeirrar skoðunar og hafa látið eins og Óslóarsamkomulagið sé ekki til,“ sagði hún í fyrirspurninni.
Óslóarsamkomulagið felur í sér að unnið sé að tveggja ríkja lausn, í samræmi við áratugagamlar samþykktir Sameinuðu þjóðanna um stofnun bæði Ísraelsríkis og Palestínu. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, lagði hins vegar fyrir ísraelska þingið, Knesset, í gær ályktun þess efnis að útilokað væri að stofna til sjálfstæðs ríki Palestínu nema með samkomulagi á milli Palestínumanna og Ísraels. Það yrði heldur aldrei nema án utanaðkomandi skilyrða.
„Knesset sameinaðist í yfirgnæfandi meirihluta gegn tilrauninni til að þvinga á okkur stofnun palestínsks ríkis, sem myndi ekki aðeins mistakast til að koma á friði heldur myndi stofna Ísraelsríki í hættu,“ sagði Netanyahu í kjölfar atkvæðagreiðslunnar. 99 þingmenn af 120 á ísraelska þinginu greiddu atkvæði með ályktuninni.
Þingsályktunin var fyrst og fremst tákræn og sýnir andstöðu ísraelskra stjórnvalda við því að ríki heims viðurkenni sjálfstæði Palestínu. Það hafa íslensk stjórnvöld þó gert; í desember árið 2011.
Athugasemdir (4)