Þingmenn úr öllum flokkum utan Miðflokks hafa lagt fram frumvarp um að endurvekja rannsóknarnefnd almannavarna sem var lögð niður árið 2022. Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en það var Jón Gunnarsson, þá dómsmálaráðherra og félagi Bryndísar í Sjálfstæðisflokknum sem ákvað að leggja nefndina niður.
Nefndin var upphaflega stofnuð með lögum árið 2008 og skipuð af Alþingi á fimm ára fresti. Lögin gerðu ráð fyrir því að nefndin rannsakaði aðgerðir almannavarna og viðbragðsaðila í hvert sinn sem lýst var yfir hættuástandi almannavarna. En á þeim fjórtán árum sem hún starfaði lauk hún ekki einni rannsókn enda fjársvelt allan tímann sem hún starfaði.
Í kjölfar þess að Lúðvík Pétursson féll ofan í sprungu í Grindavík við störf á vegum Náttúruhamfaratryggingar Íslands í byrjun janúar, fjallaði Heimildin um niðurlagningu nefndarinnar. Í stað hennar var eftirlit með almannavörnum flutt til almannavarna sjálfra og ráðuneytis almannavarna og þessum aðilum falið að kalla einhverja óháða aðila að þeirri skoðun. Þetta hefur m.a. fjölskylda Lúðvíks gagnrýnt. Tveir aðilar rannsaka hvarf Lúðvíks um þessar mundir: Vinnueftirlitið og lögreglan á Suðurnesjum, sama embætti og hefur haft með ákvarðanir um aðgang fólks að Grindavík að gera.
Hlutverk almannavarna að aukast
„Markmið laga um almannavarnir er að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni eða umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni, af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, farsótta eða hernaðaraðgerða eða af öðrum ástæðum og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns sem hugsanlega kann að verða eða hefur orðið,“ segir í greinargerð með frumvarpi þingmannanna nú.
„Á undanförnum árum hefur hlutverk, verksvið og ábyrgð almannavarna í íslensku samfélagi orðið æ veigameiri í ljósi heimsfaraldurs COVID-19 og jarðhræringa á Reykjanesskaga. Í ljósi þess óvissutímabils sem nú virðist vera hafið á skaganum og vísindamenn spá að geti jafnvel varað í áratugi eða árhundruð er ljóst að almannavarnir munu áfram skipta þjóðina verulegu máli í náinni framtíð enda kallar langvarandi almannavarnaástand á öflugar almannavarnir.“
Í greinargerðinni er rifjað upp að hlutverk rannsóknarnefndar almannavarna var, í gildistíð eldri laga, að rýna og meta framkvæmd almannavarnaaðgerða þannig að draga mætti lærdóm af reynslunni og stuðla með þeim hætti að umbótum. „Með því fyrirkomulagi var ætlunin að koma í veg fyrir að framkvæmdarvaldið rannsakaði eigin aðgerðir eða þeirra aðila sem störfuðu á ábyrgðarsviði þess.“
Til þess að tryggja að markmið um að fullnægjandi rannsókn ætti sér stað var í stað rannsóknarnefndar almannavarna kveðið í lögum á um skyldu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra til að halda rýnifundi eftir að almannavarnastigi væri aflétt með fulltrúum viðbragðsaðila sem hefðu tekið þátt í aðgerðum, rita fundargerðir um þá rýnifundi og ábyrgð ríkislögreglustjóra á að fylgja eftir úrbótum sem lagðar eru til á slíkum fundum.
„Flutningsmönnum frumvarpsins þykir það skjóta skökku við að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra rannsaki eigin aðgerðir líkt og tilgangur eldri laga var að koma í veg fyrir. Því leggja flutningsmenn frumvarpsins til að rannsóknarnefnd almannavarna verði endurvakin.“
Samkvæmt frumvarpinu skal rannsóknarnefndin starfa sjálfstætt og rannsaka viðbrögð viðbragðsaðila að loknu hættuástandi og skila skýrslu um niðurstöður nefndarinnar til ráðherra, ríkislögreglustjóra og Alþingis.
Bryndís Haraldsdóttir segir í viðtali við RÚV að hvarf Lúðvíks ofan í sprungu í Grindavík í janúar ekki hafa verið kveikjuna að frumvarpinu. Vinna við gerð þess hafi verið hafin áður þótt sá atburður hafi vissulega ekki latt þingmenn til verksins. „Það er náttúrulega hræðilegt slys og eitthvað sem við auðvitað viljum alls ekki sjá. Það er samt eitthvað sem getur gerst og gerðist því miður þarna. Ég held að auðvitað geti svona rannsóknarnefnd haft áhrif.“
Athugasemdir