Fyrst fór heita vatnið. Svo það kalda. Þannig var staðan í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli í morgun. „Þetta hefur ekki áhrif á starfsemina eins og stendur, hvorki á flug né það sem fram fer inni í flugstöðinni,” segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi ISAVIA. Hann staðfestir að köldu vatni sé ekki til að dreifa en að einhverjar varabirgðir séu þó til taks.
Vissulega hafi kólnað innandyra og staðfestir hann að búið sé að loka hluta af salernisaðstöðu flugstöðvarinnar til að spara kalt vatn. Hann vonar að einhverjar dreggjar af heitu vatni séu enn í til taks en annars hafi nú þegar verið gripið til ýmissa mótvægisaðgerða. „Ég veit ekki hvort eitthvað sé eftir af heita vatninu, það var hægt og bítandi að klárast í gær inni á kerfunum okkar.”
Búið er að slökkva á loftræstikerfum flugstöðvarinnar til að lágmarka hitatap og hitablásarar hafa verið settir upp á farþegasvæðunum. „Við erum með teppi tilbúin fyrir fólk og annað slíkt,” bætir hann við um viðbúnaðinn.
Heita vatnið hefur ekki áhrif á flug
Skortur á heitu vatni hefur ekki áhrif á flug en Guðjón sagðist ekki hafa upplýsingar um hvort að skortur á því kalda til langs tíma myndi gera það.
Hann segist vona að viðgerðum á bæði kalda- og heitavatnslögnunum ljúki sem fyrst.
Samkvæmt upplýsingum frá HS Veitum kom leki að stofnæð fyrir kalt vatn í gærkvöldi og varaði fyrirtækið við því að kaldavatnslaust gæti orðið á Ásbrú og við flugvallarsvæðið. Þessa bilun segir fyrirtækið þó ekki tengjast eldgosinu sem hófst í gær.
Heitavatnsleysið gerir það þó. Hraun rann yfir lagnir þær sem flytja heitt vatn til allra stærstu byggðarlaganna á Reykjanesskaga.
HS Veitur sögðu í gær að vonandi yrði hægt að koma heitu vatni á varalögn síðdegis í dag eða kvöld. Það gæti þó tekið 1-2 sólarhringa eftir þá aðgerð að hlýna í húsum. Fyrirtækið reyndi að koma kalda vatninu á fyrir kl. 6 í morgun en það heppnaðist ekki og nú er vonast til að það takist um kl. 10.
Athugasemdir