Drónamyndband sem ljósmyndari Heimildarinnar náði í dag sýnir vel augnablikið hraunið flæddi yfir heitavatnslögnina sem sér Reykjanesbæ, Grindavík, Vogum og Suðurnesjabæ fyrir heitu vatni. Í myndbandinu má sjá mannvirkið standa í ljósum logum í örum hraunstrauminum.
Heitavatnslaust er á Reykjanesinu og örfáir klukkutímar í að varabirgðir í miðlunartönkum HS Veitna klárist. Í samtali Heimildarinnar sagði Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs HS Orku, að unnið sé hörðum höndum að nýrri hjáveitulögn í stað þeirrar sem skemmdist og fór undir hraun í hádeginu í dag.
Vonast er til þess að þeirri vinnu verði lokið á morgun en þá munu Reykjanesbær, Suðurnesjabær og Vogar hafa verið heitavatnslaus í um hálfan sólarhring. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ vinna að því að verja eignir bæjarins og umræða er hafin um það hvort mögulega þurfi að flytja fólk af hjúkrunarheimilum burt úr bænum.
Eldgos hófst við Sundhnúkagígaröðina laust eftir klukkan 6 í morgun, á svipuðum stað og gaus 18. desember síðastliðinn. Fyrst töldu sérfræðingar að staðsetningin væri heppileg og að hraunrennslið ógnaði ekki innviðum. „Þetta er endurtekning á gosinu í desember,“ sagði Þorvaldur Þórðarson í viðtali við fréttastofu RÚV. Eftir því sem leið á daginn kom þó í ljós að um alvarlegri stöðu væri að ræða en á horfðist í fyrstu.
Hraunrennsli var talsvert í vestur. Var því viðbúið að ef til vill færi að reyna á varnargarðana í Svartsengi eða að það næði jafnvel að Grindavíkurvegi. Það varð úr og gott betur. Hraunið flæddi yfir Grindavíkurveg og í átt að Bláa lóninu, þar sem á leið þess varð aðalstofnæð hitaveitu HS-veitna.
Athugasemdir