Guðni Aðalsteinsson hefur verið ráðinn forstjóri fasteignafélagsins Reita. Þetta staðfesti stjórn félagsins á fundi í dag, en hann mun hefja störf 1. apríl næstkomandi.
Guðni var meðal annars framkvæmdastjóri fjárstýringar hjá Kaupþingi áður en sá banki féll í október 2008. Eftir það starfaði hann stuttlega hjá breska fjármálaeftirlitinu.
Hann hefur einnig gegnt stjórnendastörfum hjá Allied Irish Banks og Lehman Brothers og starfaði um nokkurra ára skeið hjá breska fjármálafyrirtækinu Legal & General. Sumarið 2018 greindi Fréttablaðið frá því að Guðni hefði ráðið sig til íslenska fjármálatæknifyrirtækisins Alva sem rekur Netgíró, Aktiva og Inkasso sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs. Það virðist þó hafa verið stutt stopp því ári síðar var hann sestur í framkvæmdastjórn Doha Bank, þriðja stærsta viðskiptabanka Katar. Þar var hann síðast forstjóri og þar áður gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra fjárfestinga og fjárstýringar bankans.
Stjórnarformaður bankans er Sjeik Fahad Bin Mohammad Bin Jabor Al Thani.
Tekur við af Guðjóni
Guðni tekur við starfinu hjá Reitum af Guðjóni Auðunssyni sem gegnt hefur því síðustu 13 ár.
Í tilkynningu segir að Guðni sé með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá háskólanum í Cambridge. Hann hefur jafnframt lokið diplómu í fjárfestingum frá Harvard viðskiptaháskólanum og er um þessar mundir í doktorsnámi við UBIS viðskiptaháskólann í Genf.
Þar er haft eftir honum að það séu forréttindi að vera valinn til að leiða hóp starfsfólks Reita í þeirri umfangsmiklu uppbyggingu félagsins sem framundan sé. „Staða fyrirtækisins sem öflugasta fasteignafélags landsins er sérstaklega traust og það vel í stakk búið að taka næstu skref sem leiðandi afl í þróun fasteigna og fleiri innviða. Ég tel að félagið sé í einstakri stöðu til að mæta vaxandi þörfum opinberra aðila fyrir uppbyggingu samfélagslegra innviða sem og húsnæðis á almennum markaði fyrir fjölbreyttan hóp viðskiptavina. Ég þakka stjórn Reita traustið sem mér er sýnt og hlakka til að hefja störf".
Á sama stað segir Þórarinn V. Þórarinsson, stjórnarformaður Reita, að félaginu sé mikill fengur að því að fá notið víðtækrar reynslu og þekkingar Guðna nú þegar við blasi afar fjölbreytt og áhugaverð sóknarfæri til þróunar á starfsemi félagsins. „Hann kemur til starfa úr kröfuhörðu alþjóðlegu umhverfi með áherslur og sýn m.a. um sjálfbærni, sem vel falla að stefnumótun félagsins um uppbyggingu, þjónustu og arðsemi. Guðni er vel til þess fallinn að nýta krafta félagsins og leiða það inn í nýtt uppbyggingarskeið til að svara nýjum þörfum og áskorunum".
Athugasemdir (2)