Samfélag Ahmadiyya-múslima á Íslandi efnir til matarboðs í Laugarneskirkju í kvöld til að sýna palestínskum flóttamönnum og hælisleitendum sem hafa dvalið í tjaldbúðum á Austurvelli síðustu fjórar vikur stuðning og samhug. Mótmælendurnir hafa krafist þess að fjölskyldum þeirra verði komið af Gaza. Þeir óttast það sem gæti beðið þeirra, að þær verði drepnar eða týni lífi vegna hungursneyðar eða sjúkdóma sem geisar um svæðið eins og eldur í sinu.
„Það var aldrei nein spurning um annað en að sýna allan stuðning við það, eins og er alltaf þegar fólk vill láta gott af sér leiða,“ segir séra Hjalti Jón Sverrisson, prestur í Laugarneskirkju. „Við fögnum því, það er ekkert óvanalegt að það sé samstöðu- og samfélagsviðburður að eiga sér stað í Laugarneskirkju frekar heldur en í öðrum kirkjum. Þetta er hluti af því hvað það þýðir að starfa sem kirkja almennt; að stunda og iðka kærleiksþjónustu. Hingað erum við að fá fólk til okkar sem er að leitast eftir að láta gott af sér leiða og gefa af sér til fólks sem er berskjaldað í sárri stöðu.“
„Það er erfiðara að finna sterkara stef en að hjálpa þeim sem eru í neyð“
Mahdya Malik er ein skipuleggjenda matarboðsins og segir hún aðsóknina hafa farið fram úr björtustu vonum. Uppselt er í matarboðið og undibúningur er hafinn við að elda og framreiða 188 máltíðir, ýmist fyrir fólk til að taka með eða borða á staðnum. Matseðillinn samanstendur af pakistönskum og indónesískum réttum, til að mynda korma-kjúklingi, pilau-hrísgrjónum, pakora og Gule Kambing (lambakjöti í túrmeriksósu). Allur ágóði rennur óskiptur til félagsins Ísland-Palestína og Asil Al Masri, 17 ára stúlku sem slasaðist alvarlega í loftárás Ísraelshers í nóvember en er nú komin til Íslands þar sem bróðir hennar er búsettur.
Sterkt stef að hjálpa fólki í neyð
Tjaldbúðirnar á Austurvelli voru teknar niður á miðvikudag þegar leyfi borgaryfirvalda rann út. Tjöldin hafa staðið fyrir framan Alþingishúsið frá 27. desember. Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi í færslu á Facebook í síðustu viku að tjaldbúðir hefðu verið reistar á helgum stað og sagði það „hörmung að sjá tjaldbúðir við Austurvöll“. Ráðherrann sagði sömuleiðis að engum ætti að líðast að flagga nokkrum þjóðfána fyrir framan Alþingishúsið svo vikum skipti til að mótmæla íslenskum stjórnvöldum. Palestínumennirnir, sem bíða fjölskyldusameiningar, ætla ekki að láta staðar numið og hafa dvalið síðustu sólarhringa á Austurvelli án tjaldsins.
„Það er erfiðara að finna sterkara stef en að hjálpa þeim sem eru í neyð, að hjálpa þeim sem eru á flótta,“ segir Hjalti. Viðbrögðin við matarboðinu hafa verið sterk og mikil að hans sögn. Og jákvæð. „Mér þætti mjög merkilegt ef það væri einhver titringur í kringum það að það sé verið að halda góðgerðarmáltíð í safnaðarheimili í kirkju. Er það ekki bara „basic“?
Hann segir mikilvægt að samfélagið starfi saman á kærleiksríkan hátt á tímum sem þessum. „Við lifum í fjölmenningarsamfélagi og samfélagi þar sem við höfum ólíkar trúar- og lífsskoaðnir, hvort sem það er að vera trúuð eða vantrúuð, kristin, múslimi, búddisti, hvernig sem við skilgreinum okkur.“
Hjalti segir að við, sem samfélag, verðum að spyrja okkur að því hvort við ætlum að lifa saman við opið trúfrelsi eða lokað? „Ætlum við að vera forvitin um hvert annað eða ætlum við að vera ólík úti í horni og helst ekkert af hvert öðru vita?“
Þetta helsta boð biblíunnar hefur ekki vegið þungt.