„Mjög mikil hætta“ er yfirstandandi í Grindavík og er í uppfærðu hættumati Veðurstofunnar tilgreind önnur tegund hættu en áður. Fyrir hefur verið metin mikil hætta á jarðskjálftum, sprungum, hraunflæði, sprunguhreyfingum og gosopnun án fyrirvara. Nú bætist við hættuleg gasmengun, sem óttast er að sé „tengd því að kvika liggur mjög grunnt á svæðinu“.
Þetta kemur fram í nýju hættumati Veðurstofunnar sem gildir frá klukkan 17 í dag og fram á 17 á næstkomandi föstudag. „Gasmengun mældist við vinnu ofan í brunnum tengdum veitukerfi innan Grindavíkur í gær. Veðurstofan vaktar ekki staðbundna gasmengun innan Grindavíkur. Skoða þarf betur hvort gasmengunin er tengd því að kvika liggur mjög grunnt á svæðinu. Það skal tekið fram að hættuleg gasmengun er meðal þeirra atriða sem nefnd eru í hættumatinu sem nú gildir fyrir Grindavík,“ segir í matinu.
Áréttað er í hættumatinu að „hættur geta leynst utan tilgreindra svæða“.
Enn heldur kvikusöfnun áfram undir Svartsengi, norðan Grindavíkur og nærri Bláa lóninu. Líklegt er talið að hún muni leiða til eldgoss á næstu vikum.
„Skjálftavirkni hefur verið væg yfir kvikuganginum síðasta sólarhringinn. Samkvæmt reiknilíkönum liggur kvika grunnt í suðurenda kvikugangsins, þar virðist landið vera mikið sprungið og kvikan eigi því auðvelt með að komast upp á yfirborðið. Áfram eru því líkur á að nýjar gossprungur opnist án fyrirvara,“ segir í mati Veðurstofunnar.
Athugasemdir