Jafnt og þétt hefur dregið í krafti eldgossins við Grindavík og flæðið úr syðri sprungunni, skammt frá bæjarmörkunum, lítur út fyrir að hafa stöðvast. Þrátt fyrir vísbendingar um að gosinu fari senn að ljúka hafa náttúruvársérfræðingar Veðurstofu Íslands lagt áherslu á að svæðið er enn skilgreint sem hættusvæði og óvissan um hvað gerist næst er enn mikil. Varað er við mögulegri opnun nýrra gossprungna á svæðinu.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir í samtali við Heimildina að hann telji meiri líkur á því að gosinu fari senn að ljúka. „Eins og staðan er núna, það hefur dregið mjög úr gosinu, manni finnst það svona stefna meira í það að bara deyi út og þessu sé þá bara lokið, í bili,“ segir Þorvaldur.
Þá telur Þorvaldur líklegt að kvikan sem streymir nú úr gosopinu rétt sunnan Hagafells komi úr kvikuhólfi sem er við það að tæmast. Ef kvikan „er eingöngu úr þessu grunna geymsluhólfi sem er á 4-5 kílómetra dýpi undir Svartsengi þá ef þú horfir bara á stærðina á hrauninu þarna þá passar það vel við að það er búið að taka það sem þú getur tekið úr því hólfi í einu gosi. Það þarf að hlaða í aftur, það er, það færi í næsta atburð,“ segir Þorvaldur.
Þorvaldur telur að í umræddu kvikuhólfi hafi safnast fyrir um 10 milljón rúmmetrar af kviku. Helmingur þess hafi flætt út í síðasta eldgosi, þann 18. Desember og hinn helmingurinn hafi flæði út í þessu gosi. „Ef þetta er það sem er raun og veru að gerast að þá er þetta gos að verða búið.
Tvær sviðsmyndir
Spurður hvort hann telji að fleiri gossprungur geti myndast á svæðinu segir Þorvaldur ekki geta útilokað það, þó svo honum finnist það vera ólíkleg sviðsmynd.
Nýlegar mælingar gefa til kynna að landris hafi haldið áfram við Svartsengi. Þorvaldur segir að tvær útskýringar hafa komið fram, sem skýra þessa þróun. Kenningarnar endurspegla gjörólíkar sviðsmyndir.
„Önnur er að landrisið sé bara afleiðing af þessu gangainnskoti sem var þarna austan við Hagafell og Svartsengisstöðvarnar, þar sem verður upplyfting á því svæði í tengslum við myndun á ganginum.“
Hin kenningin gerir ráð fyrir að áframhaldandi landris í Svartsengi komi til vegna aukins innflæði af kviku sem komi dýpra úr jörðinni. „Sem sagt úr dýpra geymsluhólfinu og væri þá viðbót við það sem var komið í geymsluhólfið. Ef það rétt gæti það viðhaldið gosi af ákveðnu afli,“ segir Þorvaldur.
Hann telur þó að miðað við það sem hefur verið er að gerast núna, bendi það til þess að fyrri sviðsmyndin sé líklegri en sú seinni. Þá tekur Þorvaldur fram að þær jarðhreyfingar sem hafa verið að mælast nýlega eru ekki allar endilega vegna kvikuhreyfinga. Þarna séu líka hreyfingar að mælast sem koma til vegna flekaskila.
Athugasemdir