Zephyr Iceland, sem vill reisa allt að 500 MW vindorkuver í landi Klaustursels á Fljótsdalsheiði, með allt að níutíu 150-200 metra háum vindmyllum, hafði ekki ætlað sér að gera grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda vegna framkvæmdarinnar eða meta áhrif hennar á loftslag.
Á þetta fellst Skipulagsstofnun ekki í áliti sínu á matsáætlun fyrirtækisins og segir það þurfa að meta losun á framkvæmdatíma, rekstratíma og við niðurrif ásamt því að taka til kolefnisspors búnaðar og annarra aðfanga.
Zephyr gerði heldur ekki ráð fyrir að meta áhrif framkvæmdarinnar á útivist og ferðaþjónustu. Múlaþing benti hins vegar á að Stuðlagil, einn vinsælasti ferðamannastaður Austurlands, væri í aðeins 4 kílómetra fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu og Óbyggðasetur segir að vindorkuverið myndi koma til með að hafa veruleg áhrif á upplifun ferðamanna.
Skipulagsstofnun segir að um víðtæk sjónræn áhrif yrði að ræða en að auki gæti vindorkuverið haft áhrif á ímynd svæðisins. Þess vegna fer stofnunin fram á að Zephyr meti gildi og aðdráttarafl svæðisins með viðhorfskönnunum og viðtölum við ferðamenn og útivistarfólk.
Þurfa að rannsaka fuglana og hreindýrin
Zephyr hafði heldur ekki ætlað sér að framkvæma ratsjármælingar við fuglarannsóknir á hinu áformaða framkvæmdasvæði heldur notast við snið- eða punktatalningar.
Náttúrufræðistofnun bendir á að þótt svæðið sé ekki innan skilgreinds mikilvægs fuglasvæðis þá séu nokkur slík í næsta nágrenni. Þar sé m.a. að finna mikilvægt varpland álfta og heiðargæsa, stórra fugla sem fljúgi í hópum sem séu alla jafna í hvað mestri hættu að lenda í áflugi við vindmyllur. Afar mikilvægt sé að far þessara tegunda um svæðið verði kortlagt eins nákvæmlega og mögulegt sé.
Undir þetta tekur Skipulagsstofnun í áliti sínu og segir að fram þurfi að fara ratstjármælingar á öllu framkvæmdasvæðinu á bæði varptíma og að vetrarlagi í tvö ár í röð.
Í matsáætlun Zephyr er hvergi minnst á hreindýr. Hins vegar er fullljóst að hreindýr nýta sér hið fyrirhugaða framkvæmdasvæði. Á heiðinni eru að sögn Náttúrustofu Austurlands mikilvægir hagar þeirra og burðarsvæði.
Skipulagsstofnun segir að í næsta skrefi umhverfismats hinnar áformuðu virkjunar þurfi Zephyr að gera grein fyrir mikilvægi svæðisins fyrir hreindýr og lýsa því hvernig þau nýta svæðið á ólíkum árstímum. Gera þurfi grein fyrir búsvæðatapi þeirra og áhrifum á burðarsvæði, beitarsvæði og farleiðir.
Gæti klofið samfélag
Zephyr taldi í matsáætlun ekki þörf á sérstakri athugun á samfélagslegum áhrifum vegna hins fyrirhugaða vindorkuvers. Múlaþing vill að fjallað verði um fjölda starfa og ávinning sveitarfélagsins af framkvæmdinni en aðrir umsagnaraðilar, m.a. Landvernd og Náttúruverndarsamtök Austurlands, var rifjað upp að framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun, sem er í nágrenni hins áformaða vindorkuvers Zephyr, hafði neikvæð samfélagsleg áhrif í formi langvarandi deilna sem hafi klofið samfélagið og ollið samfélagsrofi.
Skipulagsstofnun tekur undir þessi sjónarmið og bendir á að um yrði að ræða umfangsmikla framkvæmd í dreifbýli sem gæti haft mikil áhrif á nærsamfélagið. Telur hún því að gera þurfi ítarlega grein fyrir áhrifum framkvæmdarinnar á samfélag.
„Hér er því um að ræða mjög umfangsmikla framkvæmd sem krefst mikils fjölda vindmylla og getur haft mikil umhverfisáhrif í för með sér.“
Zephyr fjallaði ekki um hættu á mengun frá vindorkuverinu í matsáætlun framkvæmdarinnar. Skipulagsstofnun segir í áliti sínu að fyrirtækið þurfi að fjalla um notkun og meðhöndlun mengunarefna, möguleg mengunartilvik á framkvæmda-, rekstrar- og niðurrifstíma og leggja mat á hættu á að mengunarefni berist í grunn- eða yfirborðsvatn, s.s. í Jöklu. Þá þurfi í umhverfismatsskýrslu að greina frá losun örplasts vegna slits á spöðum vindmyllanna og leggja mat á möguleg áhrif þess á náttúruna.
Náttúruvá til staðar
Í matsáætlun Zephyr kemur fram að ekki sé hætta á náttúruvá við fyrirhugað vindorkuver og því sé ekki gert ráð fyrir umfjöllun um náttúruvá í umhverfismatsskýrslu.
Veðurstofan gagnrýnir þetta í umsögn sinni og bendir á að algengasta náttúruváin á Íslandi sé mikill vindhraði en í þessu tilviki mögulega líka slyddu- og skýjaísing.
Skipulagsstofnun tekur undir umsögn Veðurstofunnar og segir að í umhverismatsskýrslu þurfi að fjalla um náttúruvá vegna veðurs.
„Sú uppbygging sem er fyrirhuguð í Klausturseli svipar til nokkurra áforma um vindorkugarða sem Skipulagsstofnun hefur haft til málsmeðferðar og er eins og þau, án fordæma hér á landi,“ segir í niðurlagi álits Skipulagsstofnunar á matsáætlun Zephyr. „Vindorkugarðurinn í Klausturseli sker sig úr að því leyti að uppsett afl hans er ríflega tvöfalt meira en í öðrum vindorkugörðum. Hér er því um að ræða mjög umfangsmikla framkvæmd sem krefst mikils fjölda vindmylla og getur haft mikil umhverfisáhrif í för með sér. Skipulagsstofnun telur mikilvægt að umhverfismatið taki mið af þessu mikla umfangi framkvæmdarinnar og fylgi bestu starfsvenjum. Á það jafnt við um mat á umhverfisáhrifum sem og kynningu og samráð.“
einstakri náttúru.